09.03.1928
Neðri deild: 43. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3389 í B-deild Alþingistíðinda. (3176)

44. mál, hvíldartími háseta á botnvörpuskipum

Ásgeir Ásgeirsson:

Mjer er ánægja að því, hve þessar umr. hafa farið stillilega og rökvíslega fram á margan hátt, og þó að þeir hv. þm., sem talað hafa, finni sumir eða haldi, að þetta komi við þeirra buddu eða hagsmuni þeirra fjelaga eða fyrirtækja, sem þeir, margir hverjir, standa að, þá hefir í þessum umr. ekki verið neinn sá ofsi, sem oft vill fram koma, þegar hagsmunum manna lendir saman. Að þessu leyti hafa umr. um „vökulögin“ til þessa verið til fyrirmyndar.

En það þarf þó engu síður, þótt umræðurnar hafi verið kurteislegar, að leiðrjetta ýmislegt, sem fram kom hjá hv. 2. þm. G.-K. Hv. þm. vildi gefa þá skýringu, að öll mín ræða hefði snúist um verksmiðjumenn á Englandi, en hjer væri að tala um vinnu á sjó, og vissi jeg það áður, að það er munur á vinnu á sjó eða í landi, en hitt vil jeg benda hv. þm. á, að maðurinn, sem vinnur, er einn og hinn sami, og það gilda hin sömu lögmál um líkama hans og heilsu, hvort sem hann vinnur á sjó eða í landi, og það er þess vegna náskylt að taka dæmi af baráttu um vinnu tíma í ensku verksmiðjunum, þegar um er að ræða vinnu á íslensku togurunum. Hvort sem menn vinna á sjó eða landi, þarf að fullnægja sömu skilyrðum, þó að misjafnlega langt sje gengið.

Jeg bar saman rjett þeirra, sem á sjó eru, við viðurkendan rjett þeirra, sem starfa í landi, en hitt bar jeg ekki saman, hversu marga vinnutíma þeir hafa, sem vinna á sjó, samanborið við þá, sem vinna í landi.

Í Verksmiðjum er vinnutíminn 44–60 stundir á viku ; algengast er, að hann sje 48–54 stundir. Eftir þessu frv. yrði hámarksvinnutími á togurunum 112 stundir á viku. Þetta er allmikill munur, og verður ekki annað sagt en að hjer sje gert fyllilega fyrir því, að sjerstaklega horfi við um sjómensku og fiskveiðar. Á landi vinna menn, eftir vinnutíma verksmiðjanna, 7–10 stundir daglega, og hafa þó hvíld á sunnudögum og oft seinni hluta laugardags. En á sjónum gilda ekki einu sinni tíu boðorð Guðs um hvíldardagshald. Sýnist því meiri ástæða til, að sjómennirnir fái að hafa nóttina í friði, þar sem svo gamlar reglur um hvíldartíma eru þverbrotnar á sjónum.

Hv. 2. þm. G.-K. spurði, hvað Englendingar hefðu gert fyrir sjómenn sína og fiskimenn, og sagði, að það væri aðalatriðið. Það er rjett, að parlamentið hefir ekki gefið út nein lög um hvíldartíma á fiskiskipunum, nje heldur á kaupförum, og er það enn undarlegra, þar sem það hefir verið gert víðast annarsstaðar. Þetta er um suma hluti venja í landi hinna óskráðu laga, sem eru tryggari þar en víðast hvar annarsstaðar í heiminum. Það er sjerstaklega eftirtektarvert, að parlamentið hefir ekki sett nein lög um hvíldartíma á kaupförum. Orsökin er sú, að svo vel hefir samist með vinnuveitendum og vinnuþiggjendum, að þingið hefir ekki sjeð ástæðu til að grípa í taumana. Það hefir víðast hvar verið sett í lög, að farmenn skuli hafa 12 stunda svefn á sólarhring, og á Nýja-Sjálandi er jafnvel lögtekin 8 stunda vinna á sjó sem landi. (SÁÓ: Líka á Frakklandi). Það mun rjett vera að nokkru leyti, en Frakkar gera mun á „effektívri“ vinnu og hinu, að vera ávalt viðbúinn því að vera kallaður til vinnunnar.

Jeg hygg, að í frv. sje tekið það tillit, sem þarf, til eðlismunarins á vinnu á kaupförum og fiskiskipum, með því að ákveða vinnutíma á togurum 4–8 stundum lengri en á kaupförum. Þetta hafa Bretar einnig gert, þótt ekki sje um það ákveðið í lögum. En fyrir okkur liggja jafnsterk rök í lögum þeirra um hvíldartíma í verksmiðjum. Ákvæðin um þann hvíldartíma sættu hinni hörðustu mótspyrnu um langan tíma, og varð engu um þokað fyr en löggjafarvaldið tók í taumana.

Hv. 2. þm. G.-K. kvaðst geta komið með mörg skemtileg atriði úr veraldarsögunni um vinnu- og hvíldartíma, eins og jeg hefði gert, án þess að þau snertu þetta mál. Jeg held, að öll þau dæmi, sem jeg nefndi, hafi snert þetta mál. Jeg held, að það sje einmitt gott fyrir skilning manna á þessu máli, að kynna sjer baráttuna um hvíldina, eins og hún kemur fram í sögu 19. aldarinnar.

Jeg nefndi Adam Smith til stuðnings máli mínu, þótt hægt hefði verið að nefna hundruð hagfræðinga, sem hafa verið sömu skoðunar og hann. Jeg nefndi hann sjerstaklega, af því að hann má telja föður þess skipulags, er nú ríkir í heiminum og Íhaldsflokkurinn viðurkennir. Þótt heimurinn eða hinn mentaðri hluti hans sje talinn kristinn, má hann þó öllu fremur heita ríki Adams Smiths. En fyrst hann er ríki Adams Smiths, þá finst mjer ekki úr vegi að minna á þann boðskap hans, sem á mest skylt við gleðiboðskapinn, en það er nægileg hvíld og nægilegt kaup. Í baráttunni fyrir betra skipulagi er það ekki aðalatriðið að ræna frá þeim, sem eitthvað hafa, og skifta á milli þeirra, sem lítið hafa eða ekkert, heldur að auka framleiðsluna, svo sem flestir geti hlotið sem mest lífsgæði, og besta ráðið til að auka framleiðsluna er það, að þeir, sem að henni starfa, öðlist bætt lífskjör, hæfilega hvíld og nægilegt kaup.

Háttv. 2. þm. G.-K. sagði, að jeg blandaði saman meðaltalshvíld og minstu hvíld. Jeg get ekki fallist á, að jeg hafi gert það, en jeg nefndi einkum minstu hvíld, af því að hún mun vera algengust. Meðaltalshvíldin skiftir miklu minna máli í þessu sambandi. eins og hægt er að sýna með dæmi, sem að vísu er öfgafult, en skýrir þó, hvað hjer er um að ræða. Ef maður sefur í hálft ár og vakir í hálft ár, þá má að vísu segja, að hann hvílist hlutfallslega nógu lengi. En mundi ekki kröftum hans vera ofboðið fyrir því? Það er ekki meðaltalshvíldin, sem hjer er aðalatriðið, heldur hve langir kaflar það eru, sem menn njóta aðeins minstu hvíldar. Eftir því sem hásetar segja, eru þessir kaflar oft svo langir á íslenskum togurum, að kröftum manna og heilsu er misboðið. Það væri mjög þarflegt, ef hægt væri að leggja fram skýrslur um meðaltalsvinnutíma á íslenskum togurum, en jeg hygg, að hvorki jafnaðarmenn nje andstæðingar málsins geti lagt slíka skýrslu fram. En ef slík skýrsla væri til, hygg jeg, að það kæmi fram, að hvergi er vinnutíminn lengri en á togurunum, þrátt fyrir hvíldarkafla þá, sem menn fá stundum, og að vísu koma að nokkru gagni, en þó alls ekki að slíku gagni sem aukin dagleg hvíld að sama skapi hefði í för með sjer.

Hv. 2. þm. G.-K. sagði, að jeg hefði fundið, að jeg hefði þurft einhverrar afsökunar. Jeg hvorki þarf hennar með nje hefi beðið um hana. En jeg sagði, að að mínu leyti ljeti jeg mjer nægja, að því marki væri náð, að lögfestur væri 8 stunda hvíldartími, en jeg get vitanlega enga tryggingu gefið fyrir því, að ekki verði reynt til að auka hann, aðra en þá, að svefnþörf manna mun verða svipuð framvegis og hún hefir verið til þessa. En við svefnþörfina eru ákvæði frv. miðuð. Þetta er sú trygging, sem menn verða að sætta sig við. En hví er annars verið að biðja um tryggingu? Ef beðið er um tveggja tíma hvíld, má búast við, að síðar verði farið fram á fjögurra tíma hvíld — segja andstæðingarnir. Meðan hvíldin er of lítil, má ávalt búast við, að krafist verði aukins hvíldartíma, — en lengur ekki. Ef menn á annað borð viðurkenna svefnþörfina, verða menn að beygja sig undir úrskurð þeirra, sem völdin hafa á hverjum tíma. Mín yfirlýsing fól það í sjer, að jeg myndi ekki halda fram kröfum um meira en 7–8 stunda svefn á meðan jeg er þingmaður, en þar með segi jeg ekki, að ekki geti verið rjett, að skipstjóri veiti nokkra hvíld þar að auki. Það gæti ef til vill orðið til að auka afköst hásetanna og verðmæti framleiðslunnar. Gerðar hafa verið tilraunir um það, hvaða hvíldir borgi sig best. Og jeg tel alveg víst, að það borgi sig ekki best að láta menn strita eins og vjelar á togurunum alla þessa 16 tíma, heldur strita með viti og hæfilegum hvíldum. Hjer er ekki um neina þvingunarstefnu að ræða, heldur álit margra þeirra, sem atvinnu reka og vilja hafa sem mest upp úr atvinnurekstri sínum.

Það, sem mjer líkaði verst í ræðu hv. 2. þm. G.-K., voru þau ummæli hans, að jafnaðarmenn myndu krefjast síns árlega gjalds af Framsóknarflokknum fyrir að styðja stjórn þá, er nú fer með völd. Eins og liggur í augum uppi, getur samvinna um stjórnarmyndun því aðeins átt sjer stað, að samkomulag geti orðið milli stuðningsflokkanna um ýms mál. Þeir, sem alt leggja út á versta veg, tala um, að jafnaðarmenn beiti Framsóknarflokkinn kúgun, en við, sem tökum þátt í samvinnunni, vitum, að við getum átt samleið með þeim að vissu takmarki, sem við förum ekki yfir.

Eins og flestum mun vera kunnugt, er það algengt í öllum þingræðislöndum, að vinstri flokkarnir sjeu í samvinnu við jafnaðarmenn, og yfirleitt er það algild regla, að miðflokkur myndi ekki stjórn með tilstyrk annara flokka en þeirra, sem eru til vinstri handar. En þegar Framsóknarflokkurinn er kominn að takmörkum sinnar stefnu, þá mun hann nema staðar.

Það eru einkum tvö mál, sem Fram. sóknarflokkurinn hefir hlotið ámæli fyrir að ljá fylgi sitt. Annað er skifting Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi, og hitt það mál, sem hjer er til umræðu. Jeg þykist þess fullviss, að þegar bæði þessi frv. eru orðin að lögum, þá detti engum í hug að hverfa aftur til hins gamla fyrirkomulags. Hvíldartími háseta verður aldrei styttur aftur, og þingmaðuririn verður aldrei tekinn af Hafnarfirði, nema stórfeld hnignun og mannfækkun eigi sjer þar stað.

Framsóknarflokkurinn hefir hjer stutt góð mál af fullri sannfæringu og hefir ekki látið það fæla sig frá þeim, þótt stuðningsflokkurinn ætti hagsmuna að gæta. Menn verða líka að muna, að hagsmunamál geta líka verið fullkomin rjettlætismál.