09.03.1928
Neðri deild: 43. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3395 í B-deild Alþingistíðinda. (3177)

44. mál, hvíldartími háseta á botnvörpuskipum

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg var hissa á því, hve illa hv. þm. Vestm. tók það upp, að jeg sagði, að ekki væri viðkunnanlegt að vera að deila um daginn eftir allsherjarsorg bæjarins og landsins við útför hinna druknuðu sjómanna, hvort 8 stunda svefn á sólarhring væri of mikill hvíldartími fyrir sjómenn á ísl. togurum. Veraldarreynslan hefir stefnt að þeirri niðurstöðu í heila öld, að hlífa beri mönnum við þrældómi og ofþjökun af erfiði. Þegar iðnaðaröldin kom fyrst yfir England, var það siður að láta verkafólkið vinna, uns það hneig niður af þreytu. Ýmsar iðnaðarborgir í Englandi, svo sem Manchester, Bristol o. fl., bera þess merki enn í dag, hversu brotnar voru allar reglur fyrir mannlegu lífi á þessum tímum. Fyrir harða og þrotlausa baráttu mannvina og lækna tókst smátt og smátt að ráða bót á þessu böli og fá löggjöfina til að taka í taumana. Nú mælir enginn, nema annaðhvort gerómentaðir eða grimmlyndir menn, slíku ófremdarástandi bót lengur. Hver sá, sem hefir þekkingu, vill láta halda, að hann hafi þekkingu eða beygir sig fyrir þekkingu, viðurkennir allar rjettmætar kröfur um svefn og hvíld, sem menn þarfnast til að lifa lífinu. Það samrímist heldur illa að tala um, að velmegun þjóðarinnar hvíli að miklu leyti á baki sjómannanna, og telja um leið nægilegt, að þeir hafi 6 tíma hvíld á sólarhring og eitt hlje til að gleypa í sig matarbita. Ef hv. þm. Vestm. hefir nokkra nasasjón af vísindum og mannúð síðustu aldar, hlýtur honum að vera kunnugt, hversu þekkingin hefir stöðugt sótt á í þessu efni, en vanþekkingin og harðneskjan látið í minni pokann.

Framsóknarmenn hafa ekki beinna hagsmuna að gæta í þessu máli, en þeir hafa litið á, hver málstaðurinn er. Ef okkur væri sama, þótt fólkið við sjóinn úrkynjaðist og væri þrælkað og illa meðfarið, — ef okkur væri sama um, þótt þjóðarstofninn væri veiktur, þá er ekki víst, að við hefðum lagt lóð okkar á þá metaskálina, þar sem þekkingin og reynslan voru fyrir, og unnið þjóðarheildinni gott og gagnlegt verk með því að ljá máli þessu brautargengi.

Hv. þm. Vestm. sagði, að jeg hefði farið óviðurkvæmilegum orðum um sjómannastjettina með því að kalla hana veiðiþjófa og landhelgibrjóta. Jeg hefi nú hvorki sagt það, nje býst við því, að það sjeu hásetar, sem fyrir landhelgibrotunum standa, heldur yfirmenn á skipunum og stundum útgerðarmennirnir í landi. Hinir sönnu veiðiþjófar togaranna eru flestir í landi, og í viðbót við framferði sitt í landhelgimálum bæta sumir þeirra grimd og siðleysi í aðbúð við verkafólk sitt, eins og best sjest á mótstöðunni gegn þessu frv. Hv. þm. þýðir því ekki að ætla sjer að draga hásetana undir þá syndasekt, sem Ágúst Flygenring lýsti á hendur útgerðarmönnum hjer á þingi fyrir nokkru síðan.

Jeg hefði talið eiga best við, að frv. þetta hefði verið samþ. umræðulaust í dag, vegna þess, sem fram fór í gær, 8. mars.