09.03.1928
Neðri deild: 43. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3410 í B-deild Alþingistíðinda. (3182)

44. mál, hvíldartími háseta á botnvörpuskipum

Haraldur Guðmundsson:

Mjer þótti háttv. 3. þm. Reykv. ljúka ræðu sinni á viðeigandi hátt og honum sæmandi einum. Hann sagðist ætla að forsmá orð andstæðinganna. Þetta var viðeigandi endir hjá hv. þm., því að í öllum ræðum sínum hefir hann forsmáð rök okkar, en borið fram aðeins fullyrðingu eftir fullyrðingu. Svona verður þetta sennilega lengstum hjá honum. Því eru það ágæt einkunnarorð handa honum, sem hann klykti út með. Honum hefir sjálfsagt runnið í skap, þegar jeg rifjaði upp orð hans áðan, og dró nú heldur úr þeim. Það væri ekki verkafólkið, sem væri kröfufrekt, latt og hyskið, heldur forsprakkarnir, sem æsa upp lýðinn, — sagði hann nú. En það er vonlaust fyrir hann að ætla að taka aftur orð sín um verkafólkið. Hv. þdm. muna vel, hvað hann sagði. Það er bara til að forðast, að hæstv. forseti víti mig aftur, að jeg nota nú ekki sama orðið að nýju um hv. þm. Jeg þekki ekkert þinglegt orð um framkomu hans. — Þótt hv. þm. kasti því að mjer og flokksbræðrum mínum, að við sjeum að leiða lýðinn á villigötur, er ekki ástæða fyrir okkur að taka okkur það nærri. Þetta hefir altaf verið borið fram gegn þeim, sem reynt hafa að bera fram kröfur verkalýðsins og berjast fyrir veraldargæðunum. En úr því að háttv. þm. er að tala um uppeldismál, get jeg sagt honum eitt. Það eru ekki foringjar verkamanna einir, sem ala upp verkalýðinn, heldur öllu fremur atvinnurekendur sjálfir. Hugur verkamanna til þeirra er alveg undir því kominn, hvernig aðbúðar þeir njóta. Ef verkamenn bera kala til atvinnurekenda, stafar það af því, að þeir hafa unnið til þess. Það væri ekki til neins fyrir mig nje aðra að tala um bág kjör og of lág laun verkalýðsins við hann, ef reynslan væri ekki búin að sýna honum áþreifanlega fram á sannindi þeirra ummæla. Því aðeins hafa orð leiðtoga verkamanna áhrif, að verkamenn sjálfir viti af eigin raun, að þau eru sönn og rjettmæt.

Þessi hv. þm. talaði um það, að engan lið í útgerðarkostnaðinum væri hægt að lækka, nema kaupið. Þetta sannaði tvent. Fyrst það, hve gjarnt hv. þm. er að koma með fullyrðingar án þess að rökstyðja þær. Í öðru lagi, að hann lítur á fólkið eins og hverja aðra hrávöru til framleiðslunnar, eins og salt eða kol eða olíu eða veiðarfæri. Hann leggur það alt að jöfnu og kallar það „kostnaðarliði útgerðarinnar“. Því þarf engan að furða, þótt hann undraðist ræðu háttv. þm. V.-Ísf., sem hann sagði, að hefði komist svo fjarri efninu, að hann hafi farið að tala um sálarlíf sjómanna. — „Sálarlíf sjómanna“! — Argari fjarstæðu gat stórútgerðarmaðurinn hv. 3. þm. Reykv. ekki hugsað sjer. Nei, það á ekki að tala um sálarlíf sjómanna, heldur kostnað við útgerðina. Þessum augum líta útgerðarmenn á verkalýðinn, og svo emja þeir og skrækja, þegar einhverjir dirfast að horfa á stjórnsemi þeirra öðruvísi en fullir aðdáunar. — Mig skortir aftur þingleg orð. Jeg þekki ekki meiri skort á velsæmistilfinningu en þetta athæfi og orðbragð hv. 3. þm. Reykv. sýnir. — Jeg vona, að þessi orð varði ekki þingvítum.

Háttv. þm. segir, að reikningar útgerðarfjelaganna sjeu ekkert leyndarmál. Það var gott að heyra frá honum. Fyrir hv. deild liggur nú frv. um, að þeir verði framvegis opinberir. — Vænti jeg, að hv. þm. ljái því lið, þegar það kemur hjer til atkvæða. En þótt hann hafi góð orð núna, er jeg ekki alveg viss um, að breytnin verði í fullu samræmi við þau síðar.

Þá hefir þessi háttv. þm. og fleiri sagt, að ekki væri þörf á að lögfesta 8 stunda hvíldartíma, því að hann mundi koma af sjálfu sjer ef hans væri þörf vegna sjómannanna. Nú snýr jeg háttv. deild, hvort hún telji líklegt, að hv. 3. þm. Reykv. og hv. 2. þm. G.-K. muni taka upp 8 stunda vinnu á skipum sínum. (ÓTh: Jeg læt skipstjórana ráða öllu um það, nú sem áður). Góð orð, ekkert annað. Adam kendi Evu forðum. Hv. 2. þm. G.-K. kennir skipstjórunum um.

Hv. 3. þm. Reykv. nefndi fundarsamþyktir, og púaði lengi á eftir. Slík endemi og býsn, að leggja upp úr fundarsamþyktum, undirskriftum og þvílíku. En jeg veit þá ekki, upp úr hverju hann vill leggja í svona málum, ef ekki samþyktum og áskorunum þeirra manna, sem lögin eiga að ná til fyrst og fremst.

Þá kem jeg að hv. þm. Vestm. Við hann er þó hægt að tala með fullri hæversku. Hann vildi ekki viðurkenna, að hann hefði „hrópað“ á sannanir. Sagðist aðeins hafa sagt, að þær vantaði. Finst mjer óþarft að deila um það, enda gæti það sjálfsagt orðið eilíft ágreiningsefni, hvort hann hrópaði eða ljet sjer nægja að tala. — Hann gerði mikið úr því, að sjómenn hjeldu fullu kaupi þann 2 vikna tíma, er þeir væru í landi. Jeg get nú upplýst, að þeir hafa ekki fult kaup þennan tíma, þar sem þeir eru ráðnir upp á fæði og lifrarhlut, en halda því ekki á meðan landleyfið varir. Samt sem áður eru þetta nokkur fríðindi. — Hv. þm. hjelt því fram, að við jafnaðarmenn hefðum sjerhagsmuna að gæta í þessu máli. Vildi hann finna orðum sínum í nál. stað með því að segja, að hv. 4. þm. Reykv. væri á launum hjá Sjómannafjelaginu. Hann hefir áður haft laun frá Sjómannafjelaginu, en hefir þau nú ekki lengur; en það skiftir ekki máli. Þótt þetta væri rjett, þá væru laun hans söm, hvort sem þetta frv. gengur fram eða ekki. Og það er ósæmilegt að bera fram þessa aðdróttun í nál. eða þingræðu og alveg ósamboðið virðingu þingsins. Hv. þm. vildi ekki heldur láta okkur meðflm. hv. 4. þm. Reykv. fara varhluta af þessari ásökun um sjerhagsmunina. Hann komst svo að orði, að við gerðum þetta til að geta skriðið eftir bökum alþýðunnar upp í valdasessinn. Meiningin með þessari smekklegu líkingu er sjálfsagt sú, að með þessu ætlum við að afla okkur kjörfylgis. Við skulum hugsa okkur, að svo væri — sem auðvitað er fjarri sanni —, að við fylgdum málinu eingöngu til að ná í atkv. Hvað mundi það þá sanna? Að ekkert væri betra til að afla sjer fylgis en einmitt að halda fram þessu máli. En það sannar þá aftur, samkv. orðum háttv. þm., að engu máli fylgja verkamenn og sjómenn fastar en þessu, úr því að hann gerir ráð fyrir, að þeir kjósi fyrst og fremst með tilliti til þess, að breytingin nái fram að ganga.

Þannig hefir þessi hv. þm. gert yfirlýsingu um vilja sjómanna í þessu máli og einbeitta kröfu og þar með sjálfur borið fram þá sönnun fyrir nauðsyn þessarar breytingar á lögunum, sem hann hefir hrópað hæst á.