21.02.1928
Efri deild: 28. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3420 í B-deild Alþingistíðinda. (3196)

112. mál, vörutollur

Flm. (Ingvar Pálmason):

Jeg geri ráð fyrir, að ekki verði svo mjög deilt um það, að reynslan hafi þegar sýnt, að sú niðurfærsla á sköttum og tollum, sem gerð var árið 1926, án þess að ríkissjóði væri sjeð fyrir uppbótartekjum á annan hátt, hafi verið framkvæmd of fljótt að minsta kosti. Eða með öðrum orðum: að það sýni sig nú, að þá er ríkissjóður hefir tapað þessum tekjuliðum, þá reynist kröfur og þarfir hins opinbera svo miklar, að þeim verði alls ekki fullnægt með þeim tekjum, sem fyrir eru. En svo búið má ekki lengi standa. Eitt af tvennu verður að taka til bragðs: að afla ríkissjóði meiri tekna eða draga úr útgjöldunum sem svarar þeirri upphæð, er tekjurnar hafa rýrnað.

Það má segja með sanni, að hingað til hafi ekki bólað á nokkrum verulegum tilraunum til þess að draga úr útgjöldum ríkissjóðs, svo um muni. Enda er það sannast að segja ekkert áhlaupaverk. Mikill meiri hluti af útgjöldum ríkissjóðs er bundinn með lögum, og mundi það reynast seinunnið verk að hrófla við því. Nokkur hluti útgjalda ríkissjóðs er ekki bundinn öðrum lögum en fjárlögum frá ári til árs. Það er sá hluti útgjaldanna, er fer til verklegra framkvæmda í landinu. Enda er líka reynslan sú, að þegar sjeð hefir verið fyrir, að tekjur ríkissjóðs nægðu ekki, þá hefir verið gripið til þess ráðs að skera niður fjárveitingar til verklegra framkvæmda.

Það ræður af líkum, að mjer finst sú leið óheillavænleg, ef ganga skal til langframa. Það er hreinasta neyðarúrræði að verða að draga til mikilla muna úr verklegum framkvæmdum. Aðrar leiðir verður að fara. Tel jeg þá sjálfsagt að fara að nokkru leyti báðar þær leiðir, er jeg drap á í upphafi máls míns, bæði auka tekjurnar með skynsamlegum hætti og stefna að því að draga úr útgjöldum svo sem hægt er.

Jeg býst ekki við, að neinum blandist hugur um, að nú verði með bráðabirgðaákvæðum að fá meiri tekjur í tæmdan sjóð. Til þess má hugsa sjer ýmsar leiðir. En jeg tel af ýmsum ástæðum, að sú leið, er þetta frv. leggur til að farin verði, sje einna eðlilegust og affarasælust, og jafnframt sú leiðin, er okkur beri að fara eins og nú er ástatt.

Þó að allir kannist við, að skattar og tollar sjeu allþungir eins og þeir eru, þá er það nú svo, að tekjur í ríkissjóð verða ekki á annan hátt fengnar en að íþyngja gjaldþegnunum á einhvern hátt, og þó að þessir skattar sjeu að vísu ekki vinsælir, þá fylgir þeim sá kostur, að tiltölulega auðvelt er að innheimta þá, og innheimtan hefir eigi mikil útgjöld í för með sjer. Skal jeg taka það fram, að ætlast er til, að þessi skipun á tollinum verði aðeins til bráðabirgða, því þess er vænst, að nú á þessu þingi verði skipuð milliþinganefnd til að endurskoða tekju- og skattalöggjöf landsins.

Þó að sumir ef til vill haldi fram, að texjuauka sje ekki þörf nú, þá er þó vitanlegt orðið nú, að tekjuhalli hefir orðið allmikill (800 þús. kr.) á síðasta ári, og allar líkur eru fyrir, að svipuð verði útkoma yfirstandandi árs, ef ekki er að neinu úr bætt með tekjurnar. sje jeg þá enga færari leið en þessa. Það má eflaust um það deila, hvort heppilegt sje að auka skattana í þessu skyni, en á þessu stigi málsins skal ekki farið út í þá sálma. En jeg sje ekki aðra leið færa sem stendur til þess að afla ríkissjóði tekna en þá, sem fram kemur í frv. þessu.

Ef menn vilja svara mjer því, að nær hefði verið að byrja á hinum endanum, sem sje þeim, að draga úr útgjöldum ríkissjóðs, þá er jeg tilbúinn að halda þá leið, að svo miklu leyti, sem hún getur talist fær, enda þykist jeg ekki síður en aðrir hafa sýnt viðleitni í þá átt að draga úr útgjöldunum, eins og sjá má af stuðningi mínum við einstök frv., sem borin hafa verið fram í þessu skyni.

Í aths. þeim, er frv. fylgja, er gerð allítarleg grein fyrir, hve miklar tekjur nást með þessum breytingum. Auk þess er þar og tekið fram, að með frv. þessu eru vörutollslögin færð aftur að miklu leyti í það sama horf og þau voru í frá 1924–1926.

Þó vil jeg taka það fram um c-lið 1. gr. frv., að þó steinolía sje tekin með, er tollurinn hinn sami og nú. Að öðru leyti vísast til aths., eins og áður er minst á.

Vænti jeg svo, að hv. þd. og þingið yfirleitt taki með vinsemd þeirri viðleitni, er fram kemur í frv. til úrlausnar því að útvega ríkissjóði tekjur. Auðvitað má deila um einstaka liði, en líti hv. þdm. svo á, að þessi leið, sem jeg hefi bent á, sje lítt fær, vænti jeg, að þeir bendi á aðrar leiðir tiltækilegri.

Læt jeg staðar numið í bili, en óska, að frv. fái að ganga til 2. umr. og fjhn.