21.02.1928
Efri deild: 28. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3423 í B-deild Alþingistíðinda. (3197)

112. mál, vörutollur

Jón Þorláksson:

Þegar jeg sá þetta frv. á þskj. 212, þóttist jeg af ýmsum smávægilegum atriðum í frágangi þess mega telja víst, að það væri stjfrv. Hinsvegar var ekki neitt í aths. við frv., sem benti á það, og á þskj. stendur aðeins, að flm. sje Ingvar Pálmason. En eftir að hafa nú heyrt hina löngu ræðu háttv. flm., fóru að renna á mig tvær grímur, hvort þetta mundi vera stjfrv., því að annars hefði hæstv. fjmrh. að sjálfsögðu flutt framsöguræðuna. En jeg geri nú ráð fyrir, að upplýsist á sínum tíma bæði um þetta frv. og önnur, sem vafi er á um faðernið.

Jeg stóð aðallega upp til þess að andmæla því, að of snemma hafi verið gerð sú lækkun á vörutollinum, sem nú er farið fram á að hækka að sama skapi aftur. Jeg skal ekki leggja dóm á, hvort rjett sje, að ríkið þurfi þennan tekjuauka, en hitt mun vafasamt, að almenningur líti svo á. En eins og þetta er fram borið, þá er svo að sjá, að ekki verði unt að halda opinberum framkvæmdum í horfinu án þess að fá tekjuauka einhversstaðar frá; en vægast sagt er það slæmt að þurfa að grípa til þess að hækka tolla á svo algerðum nauðsynjavörum og hjer er um að ræða.

Hinsvegar er það vitanlegt, að ef á að samþ. alt það, sem rignir yfir þingið bæði í skilgetnum og óskilgetnum stjfrv., þá má segja, að grípa þurfi til einhverra ráða til þess að standa straum af þeim útgjöldum, og jafnvel síst að furða, þó að sumt af því verði örþrifaráð.