21.02.1928
Efri deild: 28. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3424 í B-deild Alþingistíðinda. (3198)

112. mál, vörutollur

Fjmrh. (Magnús Kristjánsson):

Jeg held, að háttv. 3. landsk. tali ekki í fullri alvöru móti frv. þessu, því gerði hann það, þá verð jeg að segja, að hann sje í fullri mótsögn við sjálfan sig og það, sem hann hefir haldið fram á undanförnum þingum, og síðast í fyrra, þegar hann lagði fram fjárlagafrv. (JÞ: Alls ekki!). Annars finst mjer hann gera fullmikið úr því, að frv. eins og þetta skuli vera borið fram af öðrum en fjmrh. Það finst mjer ekkert undarlegt við, og síst þegar athugað er, að hv. flm. á sæti í fjhn. Jeg er ekki svo metnaðargjarn, að jeg geti ekki unnað einstökum hv. þm. að eiga frumkvæði að því að bera fram mál, sem jeg er fylgjandi. Hinsvegar held jeg, að jeg geti afsakað mig fyrir að hafa ekki borið frv. fram með því, að þegar jeg lagði fjárlagafrv. fram í hv. Nd., sagði jeg, að óhjákvæmilegt mundi, fjárhags ríkissjóðs vegna, að gera svipaðar ráðstafanir og hjer er farið fram á, og með þessu frv. og öðrum, sem komið hafa fram að undanförnu, er farið að bóla á þessum ráðstöfunum.

Hv. 3. landsk. taldi það vandræðaráðstafanir að grípa nú til þess að hækka vörutollinn. En jeg held, að fremur megi segja, að það hafi verið fljótfærnisráðstafanir þegar þessi hv. þm., í þeirri stöðu, sem hann var þá, gekk inn á þessa lækkun.

Mjer skilst þá, að það sje þessi margumtalaði kolatollur, sem menn kveinka sjer svo mjög undan. En ef hann hefir verið hæfilegur, þegar hann var settur í stríðsbyrjun, þá er hann nú í samræmi við það, þegar miðað er við verðlagsbreytingu þá, sem orðið hefir. Og þó að þessi tollur nemi rúmum 200 þús. kr. á ári, get jeg ekki betur sjeð en að hver einasti einstaklingur þjóðarinnar standi jafnrjettur fyrir því.

Jeg sje ekki ástæðu til að orðlengja frekar um hinar aðrar vörutegundir, sem teknar eru upp í frv. Það stendur nákvæmlega eins á um þær, svo að þetta, sem jeg hefi sagt, getur gilt um þær allar.

En áður en jeg sest niður vildi jeg beina fáeinum orðum til hv. 3. landsk. Og vildi jeg þá byrja með að segja það, að mjer þætti ekki ólíklegt, að hann síðar meir, ef hann telur þetta frv. fráleitt, komi með till. um tekjuauka ríkissjóði til handa, sem sje bæði viturlegri og aðgengilegri en þessi. En þó held jeg vafasamt, að svo verði, og því varhugavert fyrir okkur hina að treysta því. Mig minnir, að það hafi komið í ljós hjá þessum hv. þm., að það, sem mest ríður á, að aðgætt sje í tíma, sje það, að tekjur og gjöld ríkisins standist á og að heldur væri tekjuafgangur en hitt. Þess vegna kæmi mjer það mjög undarlega fyrir sjónir, ef hann lítur svo á frv. þetta, að hjer sje um vandræðaráðstafanir að ræða.

Jeg skal játa, að það væri kannske hægt að benda á aðrar leiðir til þess að afla ríkissjóði tekna. En jeg er alveg sannfærður um, að þau tvö frv., sem nú eru á dagskrá, eru þær sjálfsögðustu leiðir til að bæta úr ástandinu eins og það er, og jeg skal bæta því við, að það getur ekki talist alþjóð manna ofvaxið að greiða þennan skatt; þess vegna lít jeg svo á, og held því fast fram, að það sje ekkert óráð, og því síður örþrifaráð, eins og hv. 3. landsk. gaf í skyn, að samþ. bæði þessi tekjuaukafrv. í því formi, sem þau liggja fyrir.

Jeg skal aðeins benda á, að á þinginu 1924 áleit sá flokkur, sem þá var í meiri hl. og fór með völdin, vel forsvaranlegt að auka tekjur ríkissjóðs með slíkum sköttum og hjer er farið fram á.

Annars býst jeg ekki við, að ástæða sje til að færa frekari varnir fyrir frv. eða mæla kröftuglega með því, svo sjálfsagt er, að það nái fram að ganga. Því að þrátt fyrir þá góðu fjármálastjórn, sem rjeði hjer mestan hluta síðasta árs, er samt útkoman sú, að ekki munar langt frá, að miljón króna skorti á til þess að tekjur og gjöld ríkissjóðs standist á.

Eins og jeg drap á áður, skal jeg ganga inn á, að ýmsar aðrar leiðir geta líka verið færar í þessu skyni, að auka tekjur ríkissjóðs, en óþarft að vera að ræða um þær fyr en svo ólíklega tækist til, að frv. þetta næði ekki samþykki þingsins.

En fari svo, að þessi frv. nái ekki fram að ganga, þá treysti jeg mjer til að benda á aðra leið, en síst vinsælli hjá alþjóð, en jeg leiði hjá mjer að þessu sinni að fara frekar út í það.