21.02.1928
Efri deild: 28. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3426 í B-deild Alþingistíðinda. (3199)

112. mál, vörutollur

Flm. (Ingvar Pálmason):

Mjer skildist á hv. 3. landsk., að hann telja faðerni þessa frv. vafasamt. En jeg get nú glatt hann með því, að þó að flm. þess sje aðeins einn, þá kemur það bert fram í greinargerð frv., að það er flutt eftir tilmælum hæstv. fjmrh. og í fullu samræmi við skoðanir hans, svo að því leyti má um það segja, að það sje ekki getið í meinum. (JÞ: En kannske í lausaleik?). Ónei, ekki mun það heldur sagt.

Hv. 3. landsk. vildi andmæla því, að alment væri viðurkent, að þessum sköttum, sem hjer er um að ræða, hefði verið of snemma ljett af. Það getur verið, að jeg hafi ekki orðað þetta nógu ljóst, og skal jeg þá til frekari skýringar geta þess, að það væri innan þingsins, að þetta væri alment viðurkent; hitt segir sig sjálft, að þjóðinni í heild getur ekki enn sem komið er verið jafnljóst um fjárhagsafkomu ríkisins 1926 og 1927 eins og okkur, sem hjer eigum sæti, og meðal annars til þess að kynna okkur slík mál.

Út af niðurlagsorðunum í ræðu hv. þm. um skilgetin og óskilgetin stjfrv., sem fram eru komin sem útgjaldaauki fyrir ríkissjóð, finn jeg ekki ástæðu til að orðlengja um, enda á jeg fátt af þessum frv. og læt því hv. 3. landsk. eftir að halda uppi sínum prjedikunum sem siðafræðari deildarinnar.

Yfirleitt vil jeg segja það, að eins og málið horfir við, held jeg, að enginn vafi geti leikið á því, að það sje svo mikið mál, að það eigi heimting á að athugast vel og gaumgæfilega. Um hitt verður vitanlega að skeika að sköpuðu, hvernig um málið fer, eftir að það hefir verið tekið til nánari athugunar.