21.02.1928
Efri deild: 28. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3429 í B-deild Alþingistíðinda. (3200)

112. mál, vörutollur

Fjmrh. (Magnús Kristjánsson):

Jeg vil aðeins geta þess út af orðum hv. 5. landsk., að við höfum áður heyrt þess getið, að hann og hans skoðanabræður sjeu heldur mótfallnir tollum, eða svokölluðum óbeinum sköttum, en telji sjálfsagt að ná sem mestu af tekjunum með beinum sköttum. (JBald: Eða ríkisrekstri). Ójá, jeg býst nú ekki við, að það þurfi að vera svo mikið bil á milli okkar í því, því að við getum sjálfsagt verið sammála um það að afla ríkinu tekna með ríkisrekstri, en jeg býst ekki við, að neinar þær till. komi fram nú, svo vel undirbúnar, að hægt verði að bjarga fjárhagsástandinu fyrir árið 1929.

En um þá hugsjón, að afla ríkissjóði sem mestra tekna með beinum sköttum, verð jeg að segja það, að jeg er þar á annari skoðun. Það virðist svo, sem margir menn geri sjer ekki fullkomlega ljósan þann mikla mun, sem er á ástandinu hjer á landi og í öðrum löndum, þeim fólksmörgu og auðugu, þar sem um virkilegar stóreignir er að ræða, sem geta borið stórkostlegar skattabyrðar. En jeg veit, satt að segja, ekki til, að það sje neinn hægðarleikur að benda á slíka einstaklinga eða sjerstakar stofnanir hjer, sem hægt sje að skattleggja með nokkurri sanngirni, svo að það geti bætt úr tekjuþörf landsins að nokkrum mun, ef tollarnir eða óbeinu skattarnir ættu að leggjast niður. Jeg verð að segja það strax, að hjer erum við gagnólíkrar skoðunar, og þess vegna get jeg enga von gert mjer um, að hægt sje að bæta úr tekjuþörfinni, svo nokkru nemi, með þeirri aðferð.

En þótt hv. 5. landsk. taki nú ekki betur í þetta mál en hann gerði, þá þykist jeg þess fullviss, að hann sje svo athugull og sanngjarn maður, að hann við nánari athugun sjái, að hjer sje stefnt algerlega rjett, því að jeg geri ráð fyrir, að hv. þm. sje jafnframt framfaramaður, sem vilji stuðla að því, að hagur almennings geti orðið bættur, enda þykist jeg hafa sjeð vott um það í frv. þeim, sem hann hefir borið fram hjer á þingi, að hv. þm. ætlast til þess, að hægt sje að inna af hendi fjárframlög til ýmsra nytsamlegra hluta, og er því rjettara að taka ekki alt of óliðlega í mál sem þetta. Ef á að gera það, þá er hætt við, að það verði minna úr ýmsum þeim framfarahugsjónum, sem nú eru að líða niður á jörðina, bæði frá þessum háttv. þm. og öðrum.

Jeg vona, að þetta frv. gangi greiðlega til 2. umr. og nefndar, og ennfremur, að þegar hv. þm. hafa athugað málið, þá sjái þeir, að þetta sje vægasta leiðin, sem fær er, og að þetta frv. geti orðið svo úr garði gert, að sæmandi sje þinginu að láta það frá sjer fara.