07.03.1928
Efri deild: 41. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3432 í B-deild Alþingistíðinda. (3206)

112. mál, vörutollur

Frsm. 2. minni hl. (Ingvar Pálmason):

Það er nú svo með þetta mál, að erfitt er að ræða það nema í sambandi við næsta mál, sem er á dagskránni (verðtollinn), fyrir það að nál. grípa mjög hvort inn í annað. Vænti jeg, að ekki komi að sök, þó jeg í ræðu minni komi nokkuð við það mál. Það er ljóst, að fjhn. er þríklofin í máli þessu. Að vísu mun meiri hluti nefndarinnar vilja ganga að frv. að nokkru leyti, en einn nefndarmanna, hv. 5. landsk., hefir þó ekki viljað ákveða sig og ekki óskað að skrifa undir nefndarálit okkar, nje heldur skrifa sjerstakt nál. En það, að hv. 5. landsk. muni að einhverju leyti fylgja frv., ræð jeg af brtt., sem hann hefir borið fram. Að svo stöddu skal jeg ekki fara frekar inn á aðstöðu hans. En um hina tvo nefndarmennina, sem hafa sent frá sjer sjerálit, gegnir nokkuð öðru máli. Ástæður sínar fyrir því, að þeir vilja fella frv., bera þeir aðallega fram í nál. um mál það, er verður tekið fyrir næst á eftir (verðtollinn) .

Aðalástæða háttv. minni hl., sem jeg svo kalla, fyrir því að hann vill ekki fallast á þessi frv., er sú, að þeir telja ekki þörf á tekjuauka fyrir ríkissjóð. Kemur mjer það þó kynlega fyrir sjónir, sjerstaklega vegna þess, að annar þeirra tveggja í minni hl. er háttv. 3. landsk., sem átti sæti í fyrverandi stjórn og hafði fjármálastjórn landsins á hendi þar til í ágústmánaðarlok síðastliðið, er stjórnarskifti urðu. Og jeg þykist hafa ábyggilegar heimildir fyrir því, að þá þegar hafi verið komið í ljós, að talsverður tekjuhalli yrði á rekstri þjóðarbúsins það ár. Eftir því sem hæstv. fjmrh. skýrir frá, varð hann alls ca. 800 þús. kr.

Þegar litið er á afkomu ársins 1927, gefur það alvarlegar bendingar um, að eitthvað svipað kunni að fara á þessu ári, 1928. Það má auðvitað segja sem svo, að árið 1926 hafi verið erfitt ár fyrir atvinnuvegina og því hafi árið 1927 reynst svo tekjurýrt. En þess er að gæta, að þótt áhrifa afkomunnar gæti nokkuð eftir á, þá er það ekki svo mikið sem sumir vilja vera láta. Tekjur ríkissjóðs miðast mest við það ár, sem yfir stendur, því að þær liggja aðallega í tolli af inn- og útfluttum vörum og innheimtast jafnóðum, eða því sem næst. En þær tegundir ríkistekna, sem greiðast í ríkissjóð árið eftir, eru aðallega tekju- og eignarskattur, sem miðast við eign manna og tekjur undanfarið ár. Um aðra skatta gætir þess dálítið, en þó minna.

Jeg veit ekki betur en háttv. 3. landsk. hafi haldið því fram fyrrum, að lífsnauðsyn væri, að ekki yrði halli á þjóðarbúinu. Jeg minnist þess, að fyrir og um stjórnarskiftin 1924 gerði þessi háttv. þm. sjer mikið far um að brýna fyrir þjóð og þingi, að stefnubreyting þyrfti að verða, þannig að ríkið gæti farið að borga skuldir, í stað þess að safna skuldum. Jeg segi þetta til lofs háttv. þm., því að þetta var og er rjett kenning. Jeg var honum sammála þá og hygg, að það megi fara í gegnum þingtíðindin og fá sannanir fyrir því, að tekjuaukafrv., sem samþykt voru á þinginu 1924, áttu ekki síður upptök sín hjá þáverandi andstöðuflokki stjórnarinnar.

Nú virðast mjer nokkur veðrabrigði ætla að verða hjá hv. þm. Það er kominn tekjuhalli á þjóðarbúið og miklar líkur til þess, að svo haldi áfram. Í nál, hv. minni hl. virðist hann vilja færa sönnur á, eða að minsta kosti líkur fyrir, að ekki sje um mikla hættu að ræða, með því að setja upp yfirlit yfir tekjur ríkissjóðs síðastl. 3 ár, og fær út meðaltalsupphæð, er hann telur, að muni nægja. Við þetta er það athugavert, að þessi meðaltalsupphæð, sem hv. 3. landsk. trúir svo mjög á, er ekki sem tryggust og verður að beita með varúð. Jeg sakna þess, að þeirri varúð hefir ekki verið beitt sem skyldi við útreikningana. Helmingur þess tíma, sem tekinn er til dæmis og lagður til grundvallar, nýtur tekjuauka, er feldur var niður á þingi 1926. (JÞ: Það er tekið tillit til þess og sá tekjuauki dreginn frá). Já, að nokkru, en ekki öllu leyti. (JÞ: Svo?). Árið 1925 er næsta árið á eftir því, sem verið hefir eitthvert hið mesta veltiár, sem komið hefir yfir þetta land. Bæði var það aflaár með afbrigðum og hagstætt verð á sjávarafurðum. En það er vitanlegt, að tekjur ríkissjóðs fara nær eingöngu eftir afkomu sjávarútvegsins. Árið 1925 nýtur áhrifa ársins 1924. En um leið og því er haldið fram, að 1925 sje eitt með tekjumestu árum fyrir ríkissjóð, er sjálfsagt að játa, að hin árin hafi verið tekjurýrari. Þó er ekki ástæða til að ætla, að þau hafi verið tekjurýrari en næstu 2 komandi ár, að óbreyttum gjaldstofnum. Árið 1926 var fremur rýrt aflaár og því fremur erfið afkoma sjávarútvegsins það ár, en þó er þess að gæta, að hin ljelega afkoma var ekki aðallega árferðinu að kenna, heldur stafaði hún af öðrum ástæðum, er við þekkjum allir mætavel, en það er gengisbreytingin 1925. Því verður tæplega neitað. Þótt bent sje á ljelega afkomu þess árs, þá er það ekkert harðindaár hvað aflabrögð snertir. Það má vel kallast meðalár.

Einnig er þess að gæta, að þeir tímar eru fram undan, að erfitt verður að komast hjá töluverðum samdrætti í sjávarútveginum. Því er ekki þaðan að vænta aukinni tekna.

Nú verður maður að kannast við það tvent, að tekjuhalli alltilfinnanlegur varð á síðasta ári, og líkur eru til, að eins muni fara á næstunni, ef ekki er að gert. Annaðhvort er því að láta alt velta sem verið hefir eða grípa til gamla þrautaráðsins — sem jeg skal fúslega játa, að er ekkert skemtilegt, að leggja nýjar álögur á landsmenn.

Jeg veit vel, að hv. minni hl. og fleiri segja, að þriðja leiðin sje til, sú, að minka útgjöld ríkissjóðs. Jeg skal ekki neita því, að sú leið er til. En við skulum rjett aðeins athuga, hvað af því leiðir, ef hún er valin. Svo er um flesta útgjaldaliði fjárlaganna búið, að þeir hnútar verða ekki leystir í fljótu bragði. Aðalútgjaldaliðirnir eru vitanlega bundnir með lögum og verða því ekki feldir niður. Það, sem fyrst verður fyrir að spara á, eru verklegu framkvæmdirnar. Nú er mikið álitamál, hvort rjett sje að spara fje til framlaga verklegum framkvæmdum, svo að landslýður bíði tilfinnanlegan hnekki við það. Við höfum undanfarið lagt mikið kapp á verklegar framkvæmdir, meira en nokkru sinni fyr, og tímarnir krefjast þess. Þótt mörgum kunni að sárna nýjar skattabyrðar, þá efa jeg ekki, að fleirum mundi sárna, ef farið væri að skera við neglur sjer fjárveitingar í þessu skyni.

Þetta þing verður að gera eitt af tvennu, annaðhvort afla nýrra tekna í ríkissjóð eða þá færa niður fjárveitingar til verklegra framkvæmda, ekki aðeins eins og nú er gert ráð fyrir í fjárlagafrv. hæstv. stjórnar, heldur enn meira. Hygg jeg, að hv. minni hl. og flokksmenn þeirra sjeu ekkert óðfúsir til þess að færa niður fjárveitingar til framkvæmda í verklegum efnum. Að minsta kosti er svo að heyra af því, sem fram er komið á þessu þingi.

Eitt vil jeg enn benda á í þessu sambandi, og það er það, að nú liggja fyrir þingi nokkur frv., er fara fram á allmiklar fjárupphæðir til framkvæmda, sem ríkinu er lagt á herðar að inna af hendi á næstu árum, án þess að gert sje ráð fyrir þeim útgjöldum í fjárlögum. Jeg ætla ekki, að frv., sem binda ríkissjóði fjárútlát á bak, sjeu fram komin án þess að meint sje með þeim, að fjeð eigi að leggja fram. Það væri þá ljelegt augnagaman fyrir landsmenn, ef þingið ljeki sjer að því að samþykkja falleg og vel útlítandi lög án þess að baki stæði einhver vilji og von um að geta framfylgt þeim. Jeg er ekki að lasta þá viðleitni, sem í þessum frv. felst, að færa landsmönnum nytsamar og þarfar framkvæmdir og skapa þægindi, sem hafa lífsgildi fyrir þjóðina. En menn verða að vera heilir og vilja einhverju fórna til þess að sjá þessum tilraunum farborða.

Þá vil jeg víkja nokkrum orðum að efni frv. Það fer í þá átt að leggja aftur á þann toll, sem afnuminn var af vissum vörutegundum 1926. Þótt jeg játi, að það sje ekkert gleðiefni að þurfa að grípa til þessa ráðs, þá sje jeg ekki, að önnur leið heppilegri verði farin. Jeg verð að segja það rjett eins og það er, að miklar kvartanir hafa ekki heyrst út af þessum tolli, meðan hann hjelst, þótt landslýður hafi eflaust fundið til hans. En það kemur til af því, að þjóðin sá, að nauðugur var einn kostur að gangast undir hann og sætta sig við hann, til þess að geta rjett við fjárhaginn.

Þjóðin sættir sig yfirleitt mjög við það, þótt hún þurfi að leggja fram fje, ef hún veit, að því er varið til þess að framkvæma það, sem er þarflegt og gott.

Jeg tel heppilegra að færa vörutollinn aftur í það horf, sem var, heldur en fara að brjóta upp á nýungum. Enda má yfirleitt segja, að vörutollurinn sje ekki neitt ákaflega hár tiltölulega við verðmæti þess, sem hann er lagður á. Salttollurinn er t. d. 50 aurar af smálest. Sjá allir, að það getur ekki haft nein veruleg áhrif á sjávarútveg landsmanna, hvort þessi tollur er tekinn ellegar ekki. Mjer reiknast svo til, að hann nemi sem næst 8–9 aurum á hvert skpd. Svo er á það að líta, að þessi tollur miðast altaf við framleiðsluna. Enginn notar salt nema hann framleiði, og því meira sem hann notar, því meiri er framleiðslan. Svipað má segja um kolatollinn. Þó er þar dálítið öðru máli að gegna, því að þar stendur tollurinn ekki altaf í hlutfalli við arð útgerðarinnar, ef kolin eru notuð til skipa, er stunda veiðiskap.

Jeg verð að minnast stuttlega á framkomna brtt., sem jeg mun sætta mig við, þótt jeg telji það hinsvegar ekki rjett, eins og brtt. á þskj. 411 fer fram á, að fella niður salttoll og kornvörutoll. Verði brtt. samþ., dregur það strax úr þeim tekjum, sem við flm. gerðum okkur vonir um að ná. Salttollurinn nemur að vísu ekki verulegri upphæð, en aftur á móti er það miklum mun meira, sem tapast við niðurfelling d-liðs í 1. gr. frv.

Jeg sje ekki ástæðu til að segja öllu meira í þessu máli. Má öllum ljóst vera, að það verður að telja mjög óvarlegt af þinginu, ef það ætlar sjer að ljúka svo afgreiðslu fjárlaganna, að ekki sje fengin trygging fyrir tekjuauka. Jeg ætla ekki að kveða sterkara að orði en svo, að það verði að teljast óvarlegt.

Það var hv. 3. landsk., sem benti á það árið 1924, út á hvaða braut þá var komið. Það er nú ekki lengra síðan 1924 en svo, að við ættum að gjalda varhuga við að lenda aftur inn á sömu braut. En það er þegar byrjað að stíga spor í þá átt, og það alldrjúglega. Við hv. 1. þm. Eyf. höfum í nál. okkar getið þess, að við teljum, að svo þyrfti að ganga frá fjárlögunum nú á þessu þingi, að hægt sje að greiða á næstu tveimur árum, 1928 og 1929, þann tekjuhalla, sem varð á árinu 1927. Jeg játa, að vel er, þótt ekki náist svo langt. Það er tæplega við því að búast, að takist að fá þann tekjuauka, er nægi bæði til þess að halda í horfinu og líka til þess að greiða orðinn tekjuhalla. En við verðum að vera á varðbergi, að ekki haldi áfram að safnast skuldir.