07.03.1928
Efri deild: 41. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3446 í B-deild Alþingistíðinda. (3209)

112. mál, vörutollur

Jón Baldvinsson:

Jeg er staki maðurinn í fjhn. í þessu máli og hefi ekki gert neitt nál., en látið bóka í gerðabók fjhn., að jeg myndi taka afstöðu til tekjuaukafrv. þeirra, er fyrir liggja, í heild sinni.

Jeg álít það ekki hægt á annan hátt en þann, að mynda sjer skoðun um það, hvað sje nauðsynlegt að auka tekjurnar á þessu og næsta ári og hvernig þeim megi koma sem best fyrir, svo að sem ljettast verði fyrir landsmenn að bera þá skatta, er á þarf að leggja. Nú hefir hæstv. fjmrh. skýrt frá því, þegar hann lagði fram fjárlagafrv., að tekjuhalli á árinu 1927 myndi verða um 700–800 þús. kr., og jeg ætla nú, að víst sje, að hann verði ekki minni en 800 þús. Þessi tekjuhalli, sem orðið hefir á síðastliðnu ári, gefur heldur bendingu um það, að árið, sem er að líða, muni heldur ekki skila sjer tekjuhallalaust. Enda hefir mjer skilist það á hæstv. fjmrh., að hann óttist mjög, að árið 1928 muni verða halli á ríkisbúskapnum, og að sá halli muni eigi verða minni en hálf miljón króna. Það gerir í sjálfu sjer ekki svo mikið til, þó að halli verði eitt og eitt ár, en þegar halli verður ár eftir ár og miklar skuldir safnast fyrir, þá er hætt við að gripið verði til örþrifaráða, eins og gert var árið 1924, og þá dembt á tollum, sem ganga alt of nærri gjaldþoli hins fátækari hluta þjóðarinnar, því að tekjur ríkissjóðs eru hjá okkur að mestu leyti tollar á nauðsynjum. Jeg hefi lýst því áður, að það væri rangt að taka inn tekjur ríkissjóðs á þann hátt, og jeg hefi lýst því að nokkru, hvernig við Alþýðuflokksmenn hugsum okkur að ná tekjum í ríkissjóð.

Ríkisbúskapurinn á að bera sig yfirleitt, jafnvel þó það sje ekki nauðsynlegt að hlaupa upp til handa og fóta og leggja á nýja skatta, þótt tekjuhalli kunni að verða á einhverju einstöku ári; en ef sjeður er tekjuhalli fram undan, þannig að skuldir vaxi ár frá ári, þá verður að bæta úr því. Því er, sem sagt, slegið föstu, að nú sje þörf á tekjuauka, og það jafnvel án þess að ráðist verði í þær framkvæmdir, sem mörgum leikur hugur á og fyrir liggja í frv. og tillögum, sem komnar eru lengra eða skemra hjer á þinginu. Jeg er fylgjandi mörgum af þeim, og jeg vildi ekki missa af ýmsum þeim nauðsynlegu framkvæmdum, sem þar eru á ferðinni. Jeg skal nefna örfá, eins og t. d. landnámssjóðinn og sundhöllina í Reykjavík, og ef að einhverju leyti þyrfti að leggja fram fje til landsspítalans, svo að hann yrði bygður fyr en ella mundi. Margar fleiri framkvæmdir mætti nefna. Með þetta alt fyrir augum getum við Alþýðuflokksmenn fallist á að samþykkja tekjuaukafrv. til þess að halda ríkisbúskapnum í horfinu og til að inna af hendi þær framkvæmdir, sem menn telja nauðsynlegar. En þó að fallist sje á þetta alment, er samt deila um leiðirnar til að ná tekjunum. En þótt við Alþýðuflokksmenn viljum ná sem mestu af tekjunum með beinum sköttum og ríkisrekstri, þá játum við, að eitthvert tímabil þarf að vera á milli þess, að okkar stefna komist á og þess, að tollarnir hverfi. Getum við því nú í bili orðið ásáttir um það, að samþykkja álögur, en þó svo, að þær komi sem ljettast niður, og með því móti, að numdir verði úr lögum þeir tollar, sem að okkar áliti hvíla þyngst á fátækasta fólkinu í landinu.

Þessi afstaða okkar Alþýðuflokksmanna er ekki síður til orðin vegna þess, að við teljum okkur ekki alveg ábyrgðarlausa um það, að hafa komið að þeirri stjórn, er nú á að sjá um fjárhag landsins, og í öðru lagi af því, að mikilsráðandi menn í Íhaldsflokknum, sem þó ekkert greinir á við núv. stjórn um leiðir í skattamálum, hafa haft í hótunum um að vinna að því, að fjárlögin verði afgreidd með tekjuhalla. Jeg held, að jeg hafi ekki heyrt slíka hótun áður á þingi, nema frá þáv. 1. þm. Reykv., núv. 3. landsk. (JÞ). En til sönnunar því, sem jeg nú hefi sagt, þá skal jeg benda á, að tveir menn úr fjvn. háttv. Nd., sem báðir eru fulltrúar Íhaldsflokksins í nefndinni, hafa í nefndaráliti lýst yfir því, að þeir muni koma með tillögur til útgjalda, þótt af því kunni að leiða halla á fjárl., og skýringuna á þessari framkomu íhaldsmanna í fjvn. Nd. virðist mega finna í grein eftir þm. þann (JÞ), er áður er á minst, þar sem hann nýlega í blaðagrein endurprentar ummæli sín frá 1922, en þau hljóða svo, með leyfi hæstv. forseta: „Á slík stjórn sem þessi og ekki skilið, að henni sjeu afhent tekjuhallalaus fjárlög“. Og nú árjettar þessi hv. þm. þessi ummæli sín í einu flokksblaðinu, gerir þau að vísu nokkuð mildari, en aðalhugsunin er þó sú sama og 1922. Nú segir hv. þm. í Mgbl. 26. febr. þ. á., með leyfi hæstv. forseta:

„Verðskuldar sú stjórn að fá tekjuhallalaus fjárlög, sem hleður ónauðsynlegum og jafnvel alóþörfum útgjöldum á landið, en vill fá fjárveitingar til nauðsynlegustu framkvæmda stórum lækkaðar, til þess að jöfnuður haldist?“

Þetta verður naumast skilið öðruvísi en svo, að svo mikil sje andstaða hv. þm. gegn stjórninni, að hann vilji stuðla að því, að stjórnin fái ekki afgreidd tekjuhallalaus fjárlög.

Jeg hefi viljað benda á þessa bardagaaðferð andstæðinga stjórnarinnar, og þessi bardagaaðferð þeirra gerir okkur Alþýðuflokksmönnum ekki óljúfara að hjálpa til að koma nauðsynlegum tekjuaukafrumvörpum gegnum þingið.

En svo vil jeg beina því til beggja þeirra ráðherra, sem hjer eru viðstaddir, hvort þeir myndu ekki sjá sjer fært, þegar á þessu ári, að skipa nefnd til þess að íhuga skattalöggjöf landsins, því að mjer sýnist, eftir því hringli, sem nú er með skattalöggjöfina, afnám skatta í ár, sem svo eru lagðir á aftur að ári, að full þörf sje að koma á fastri löggjöf um það mál. En þingnefnd hefir ekki tíma til að ganga frá slíku máli, heldur verður stjórnin samkvæmt heimild frá þinginu að skipa nefnd, eða þingið verður að kjósa hana.

En viðvíkjandi þeim frv., sem hjer liggja fyrir, sagði jeg þegar við 1. umr. málsins, að það gæti ekki komið til nokkurra mála, að við gætum samþykt þau óbreytt, því að það eru ýms ákvæði í þeim, sem leggja nýja tolla á mestu nauðsynjavörur manna. Að vísu má segja svo um kolin, að þau sjeu nauðsynjavara fyrir fjölda manna, en ennþá brýnni nauðsynjavara er þó kornvaran, sem tollur er lagður á samkvæmt 1. gr. frv. Jeg hefi nú, ásamt hv. þm. Ak., flutt brtt. um að fella niður toll af kornvörum, og ennfremur að lækka salttollinn, en það hefir víst tekist svo til með þessa brtt., að hún er ekki nægilega fullkomin til að verða samþykt eins og hún er. Það þarf að bæta því við, að í síðustu málsgr. falli niður orðin „ennfremur kornvörur“. Við gerum skriflega brtt. um það, að aftan við brtt. okkar á þskj. 411 komi: „c. orðin „ennfremur kornvörur“ í síðustu málsgr. falli niður“. Og er það í sambandi við þá brtt., sem við gerum um niðurfellingu d-liðs 1. greinar.

Jeg held, að jeg hafi minst á það, sem jeg vildi taka fram við þessa umr., og lýst þeirri afstöðu, sem við Alþýðuflokksmenn höfum til þessara frv., og jeg vil leggja áherslu á það, að jeg tel ekki gerlegt að samþykkja slík tekjuaukafrv., nema einhver tilhliðrun fáist á annari löggjöf í þessu efni, svo sem niðurfelling skatta, sem við teljum, að gangi of nærri almenningi eins og nú er, og eins og myndi verða, ef sú löggjöf ætti að standa óbreytt.