07.03.1928
Efri deild: 41. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3451 í B-deild Alþingistíðinda. (3210)

112. mál, vörutollur

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg býst við, að það verði mörgum mönnum úti um land, sem vilja með alvöru fylgjast með málefnum þjóðarinnar, að bera saman það, sem fram kom við ræðu hv. 5. landsk., og þá afstöðu, sem forráðamaður Íhaldsflokksins hefir hjer, hv. 3. landsk., að ógleymdri framkomu tveggja flokksbræðra hans, sem eiga sæti í fjvn. Nd.

Hv. 5. landsk. viðurkennir nauðsyn þess að hafa tekjuhallalausan ríkisbúskap frá ári til árs, en það er það sama sem við Framsóknarflokksmenn höfum altaf stefnt að í þau fjögur ár, sem við höfum verið í andstöðu við stjórnarflokkinn. Við höfðum altaf opin augu fyrir þeirri ábyrgð, sem á okkur hvíldi, að láta ríkisbúskapinn vera forsvaranlegan. Við tókum ábyrgð á okkur um það að leggja á þá skatta, að það væri fullkomlega forsvaranlegt að afgreiða fjárlög. Jeg vil meira að segja fullyrða það, að við, sem áttum sæti í fjvn., höfum ekki síður en samverkamenn okkar þar, stjórnarmenn þáverandi, verið okkur þeirrar ábyrgðar fullkomlega meðvitandi.

Nú hefir hv. 5. landsk. lýst yfir því, að hann vill hjálpa til þess, að nú sje afgreidd til bráðabirgða sú viðbót við skattalöggjöfina, sem er nauðsynleg til þess að halda ríkisbúskapnum tekjuhallalausum. En frá Íhaldsflokknum kemur í báðum deildum fram alveg það gagnstæða. Hv. 3. landsk. hefir sannarlega ekki iðrast eftir þá játningu, sem hann ljet koma fram á þinginu 1922, er hann sagði, að stjórnin ætti ekki skilið að fá tekjuhallalaus fjárlög. Hann mat það meira að reyna að ná sjer niðri á stjórn andstæðinganna en að gera skyldu sína sem þingmaður. Fulltrúar Íhaldsflokksins í Nd, hafa einnig lýst því yfir, að þeir ætli að bera fram gjaldatillögur á fjárlögunum, þótt þeir viti það fullkomlega eins og ástatt er; að af því muni leiða tekjuhalla fyrir ríkissjóð. Jeg álít þetta lýsa óforsvaranlegu ábyrgðarleysi hjá Íhaldsflokkinum og hans forráðamönnum, og jeg ætla að vona það, að Íhaldsflokkurinn sje ekki svo illa farinn, að hann með ráðnum huga ætli í þessu að fylgja foringja sínum, hvorki hjer nje í Nd. Jeg býst líka við, að það verði tekið eftir þeim mun á ábyrgðartilfinningu, sem kemur í ljós hjá Alþýðuflokknum og hjá Íhaldsflokknum. Það er ríkari ábyrgðartilfinning, sem kemur fram hjá hv. 5. landsk., en jeg álít það fullkomið ábyrgðarleysi, sem kemur fram hjá hv. 3. landsk. og þeim mönnum, sem Íhaldsflokkurinn hefir kosið í fjvn. í Nd.

Út af þeim orðum, sem hv. 5. landsk. beindi til okkar, þeirra tveggja ráðherra, sem hjer erum staddir, vil jeg segja það af hálfu landsstjórnarinnar og Framsóknarflokksins, að við munum fúsir að taka það til athugunar, hvort ekki verði hægt um leið og nú er fenginn tekjuauki að ljetta að einhverju leyti þeim sköttum, sem sárast hvíla á almenningi. Jeg get að vísu ekki sagt, hvernig það verði gert, en við munum taka það til velviljaðrar athugunar.

Um leið og hv. þm. gat þess, að hann væri óánægður með þær aðferðir, sem nú væru notaðar til að afla ríkissjóði tekna, spurði hv. þm., hvort ekki gæti komið til mála að setja nefnd til þess að athuga skattakerfið í heild sinni. Mun háttv. þm. minnast þess, að slík tillaga var borin fram í fyrra af Framsóknarflokknum á þingi, og enn er í ráði að bera slíka tillögu fram.