07.03.1928
Efri deild: 41. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3464 í B-deild Alþingistíðinda. (3216)

112. mál, vörutollur

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg ætla ekki að þessu sinni að fara nema lítið út í málið, af því að sá maður, sem jeg helst vildi svara, hefir lokið sjer af, enda mun gefast tilefni við annað skylt mál á morgun. En jeg vildi leiðrjetta nokkrar villur, sem jeg hefi heyrt, þegar jeg hefi komið inn í deildina.

Hv. 3. landsk. skildist mjer halda fram — eins og blöð hans flokks halda fram —, að sjerstaklega mín stjórnardeild hafi lagt til svo mikla eyðslu, að það þyrfti ekki einungis að leggja á nýja skatta, heldur rjettlættist þess vegna sú nýstárlega kenning, að andstöðuflokkur stj. eigi að neita um stuðning við fjárauka, þannig að það geti skapast tekjuhalli.

Hver er þessi eyðsla? Það eru þrenn heimildarlög, sem jeg hefi lagt til. Ein eru um það, að landið leggi fram 100 þús. kr. til heilsusamlegrar stofnunar hjer í bænum, og sú veiting komi á tvö ár. Um þetta held jeg, að hv. 3. landsk, sje samdóma, að það er hið nauðsynlegasta mál, enda álíta bæði læknar og aðrir mætir menn, að þessar 100 þús. kr. margborgist í aukinni heilsu. Og jeg tel það ekki alveg drengilega framkomu gagnvart þeim flokki, sem aðallega á rætur sínar í sveitinni, að þegar hann ótilknúður leggur til að veita úr ríkissjóði til framfara í Reykjavík, að vera sí og æ að reyna að ófrægja þá þingmenn út um landið, eins og gert er í blöðum Íhaldsflokksins. Jeg held, að það verði heldur ekki til neinnar frægðar fyrir hv. 3. landsk. að halda fram, að ekki sje leyfilegt að leggja á einhverja smáskatta til þess að bæta heilsu manna.

Annað atriði er byggingar- og landnámssjóður. Um það er þingið alt nokkurnveginn sammála, 200 þús. kr. ný útgjöld á ári. Það hefir áður verið deilumál, en er það ekki nú orðið. Þetta eru útgjöld, en útgjöld, sem jeg býst við, að borgi sig fyrir þjóðina að inna af hendi.

Þá kem jeg að einu atriði enn, heimildarlögunum um það að verja 100 þús. kr. til þess að koma upp nýju hegningarhúsi. Fyrst og fremst eru þetta ekki nema heimildarlög. Og það er mála sannast, að ef sú stefna verður ofan á í þinginu, að allir, sem ekki eru framsóknarmenn, greiði atkvæði þannig um tekjulög landsins, að bersýnilegt væri, að sami halli yrði á þjóðarbúinu eins og þegar háttv. 3. landsk. skildi við, þá dettur engum manni í stjórnarflokknum í hug að hreyfa hönd eða fót til þess að byggja þetta bráðnauðsynlega hús. En þegar við framsóknarmenn, sem vorum á síðasta kjörtímabili í minni hl., reyndum að hjálpa til að auka tekjur og bæta aðstöðu stj. til að sinna kröfum þjóðfjelagsins, og á hinn bóginn oft og tíðum reyndum að halda við þeim tekjustofnum, sem meiri hl. vildi ekki hafa, þá getum við náttúrlega ekki skoðað það eins og heiðursmannaframkomu að launa okkur svo, þegar við erum í meirihlutaaðstöðu, að vilja fella niður skattstofnana, þannig að það sje bersýnilegt, að ekki einungis verði tekjuhalli, heldur verði ómögulegt að sinna nauðsynlegum framkvæmdum. Vöntun á fangelsi er hjer orðin svo ógurlega tilfinnanleg, þar sem fangarnir bíða fjölmargir á öllum tímum árs eftir að komast í hegningarhúsið, af því að húsrúm er ekki til, og þar sem marga fanga er ekki hægt að taka í þetta hegningarhús vegna heilsufars þeirra, og þeir afplána því aldrei sína sekt. Það er kominn hreinn og beinn skrælingjabragur á þjóðfjelagið að þessu leyti. Þess vegna er það, að bæjarfógetinn í Reykjavík er með því að gera hverja skynsamlega tilraun til umbóta, sem hægt er, af því að hann finnur, að þetta er ómenningarástand, sem hjer er haldið við. En þetta, að við í stjórninni vinnum að umbótum með bæjarfógetanum í Reykjavík og öðrum dugandi mönnum, þótt andstæðir sjeu í stjórnmálum, það er notað sem dauðasök. Við erum affluttir svo að segja á hverjum degi í blöðunum fyrir það, að við sjeum að eyðileggja þjóðfjelagið með því að gera það, sem heiður og sæmd þjóðfjelagsins krefst.

En það má náttúrlega segja, að þeir menn í Íhaldsflokknum, sem sjá betur en hv. 3. landsk., ættu að gera meira til þess að halda flokki sínum frá skemdarverkum í þessu efni en þeir gera.

Þá er það þriðja málið, sem Íhaldsflokkurinn og blöð hans hafa beitt sjer á móti, frv. um, að byrja að byggja yfir skrifstofur ríkisins. Jeg sagði, þegar jeg lagði það frv. fram í Nd., að jeg legði ekki mikla áherslu á það; og af því að húsameistari var ekki í bænum, þá var það ekki tekið fyrir í nefndinni.

Þetta mál er ekkert annað en sparnaðarmál fyrir landið. Jeg býst við, að hv. 3. landsk. sje af sinni lífsreynslu og sem ráðherra og þingmaður búinn að læra um þann einfalda mun, sem er á þeim útgjöldum ríkissjóðs, sem lögð eru í arðberandi fyrirtæki, og hinum, sem lögð eru í fyrirtæki, sem ekki gefa arð. Ef fje er lagt í síldarverksmiðju, þá er það til þess að græða peninga; prentsmiðjan er til sparnaðar, og ef landið byggir skrifstofur, þá er það til þess að eyða minni peningum í húsaleigu heldur en með því að leigja hjá einstökum mönnum. Það er vitanlega aðeins búmenska og gróði.

En jeg hefi ekki getað lagt sjerstaka áherslu á að ýta þessu máli fram; en það skal hv. 3. landsk. vita, að hvernig sem hann reynir að ófrægja þetta mál — máske þeim í vil, sem okra á húsnæði —, þá er hann ekki búinn að kæfa það. Þegar lagðar verða fram skýrslur um það, hvað landið borgar fyrir húsnæði, ljós, hita og ræstingu hjer í Reykjavík, þá væri ekki ótrúlegt, að hv. 3. landsk. vildi hafa eitthvað ótalað af því, sem hann hefir sagt um þetta mál. Þá kemur það í ljós, hvílík fjefletting á sjer stað hjá mörgum, sem leigja hús hjer í Reykjavík. Annars virðist eftir framkomu hv. 3. landsk., að honum gangi ekki annað til en halda við því ófremdarástandi, sem er. Jeg veit, að þetta er ekki fyrir fáfræði; honum hlýtur að vera ljóst, að það er gróði fyrir landið að taka 200 þús. kr. lán og borga af því vexti og afborganir, borið saman við leigu í bænum. Hann vill halda við atvinnu fyrir kunningja sína, sem eiga þessi hús; það eru ekki merkilegri ástæður en þetta, sem hann hefir. Og jeg segi hv. 3. landsk. það, að þær yfirlýsingar, sem hann gaf 1922 og hefir nú látið sína flokksmenn gefa í Nd. viðvíkjandi tekjuhalla á fjárlögum, það er svo mikil vansæmd, að engin dæmi eru um annað slíkt í allri þingsögunni. Með þessum yfirlýsingum hefir hv. 3. landsk. gert sig að siðferðislegum og borgaralegum útlaga í þjóðfjelaginu. Ef hann og hans flokksmenn ætla að halda áfram þeirri aðferð, sem upp er tekin, þá er óvandari eftirleikurinn. Þá væri alveg rjett að hreinsa út úr fjárlögunum alt það, sem lauslegt er hægt að finna, sem ætlað er að ganga til þeirra manna, sem eru svo ólukkulegir að hafa kosið þessa ábyrgðarlausu glanna á þing. Ef partur af þjóðfjelaginu segist ekkert vilja nema hefnd og brúkar ofbeldi og níðingsskap hvenær sem hann getur, jafnvel þegar hann er í minni hl., þá er ekki annað en láta þessar siðferðislegu vanmetaskepnur finna aflsmuninn. Við framsóknarmenn höfum okkar skjöld hreinan í þessu efni; við beittum ekki þeirri aðferð meðan við vorum í minni hluta, að reyna að setja landið á hausinn með því að neita um skatta til þess að hægt væri að halda uppi nauðsynlegum framkvæmdum þjóðfjelagsins. Við höfum þess vegna nú þann fullkomna siðferðislega rjett til þess að ganga eins hart að andstæðingum okkar eins og við viljum og sjáum okkur fært. Því að ef þeir ætla sjer að brúka það skelmistak, sem formaður flokksins hefir leyft sjer að benda á, þá vil jeg minna háttv. 3. landsk. á þessi fornu orð, sem einn góður fornmaður sagði við einn nafnkendan uppreistarmann: Fyrir hvern einn mann, sem þú drepur af mjer, skulu þrír drepnir af þjer. — Þó að hjer sje ekki gert ráð fyrir mannvígum, getur líkingin að einhverju leyti frætt íhaldsmenn um, hvaða aðstöðu þeir eru að skapa sjer.