09.03.1928
Efri deild: 43. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3470 í B-deild Alþingistíðinda. (3219)

112. mál, vörutollur

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg heyri sagt, að hv. 3. landsk. hafi notað sjer það að segja ósatt í von um, að jeg væri ekki viðstaddur í deildinni og gæti því ekki leiðrjett hann. Hann hafði þó kjark í sjer 1922 að hefna sín á andstæðingastjórninni og hann þagði meðan miljón kr. tekjuhallinn var að myndast, og nú hefir hann lýst yfir því í blaði sínu, að, hann sje tilbúinn að leika sama leikinn enn á ný og hefir í þeim tilgangi látið 2 af fylgismönnum sínum í Nd. bera fram till. til þess að stofna til tekjuhalla á fjárlögunum. En það er alveg undraverður skortur á þekkingu, að þekkja ekki þá málmynd, sem jeg notaði í þessu sambandi við umr. síðast, úr Sturlungu, hvernig Jón Loftsson knjesetti einhvern óstýrilátasta íhaldsmann sinnar samtíðar með þeim orðum, er jeg tilfærði. Sama máli er hjer að gegna. Hv. 3. landsk. er búinn að segja það, að hann ætli sjer að hefja að nýju þann leik, er hann ljek um og eftir 1922. Það er vitanlegt, að þetta átti að vera herkænska, til þess að hefna sín á stjórninni. Þessu verður að taka á sama hátt og Jón Loftsson fór að við Hvamms-Sturlu. Ef form Íhaldsflokksins vill stuðla að því að demba svo miklu í fjárlögin, að á þeim verði tekjuhalli, þá verður að koma krókur á móti bragði, — og hvað er þá eðlilegra en að spara á þeim ófullkomnu heilum, sem gátu látið sjer detta þá fásinnu í hug að kjósa íhaldsmann á þing? Hjer verður að láta framkomu þeirra bitna á þeim sjálfum.

Hv. 3. landsk. verður að skilja, að mönnum líðst ekki alt. Þeir ofsa- og ofstopamenn í Hnífsdal, sem settu sig upp á móti lögunum, verða látnir sæta hegningu. En eins og þörf er á að setja suma menn í betrunarhús, eins þarf að setja aðra í skyrtu, sem heldur að þeim, þegar þeir með óstjórn sinni ætla að steypa öllu um koll.