13.04.1928
Neðri deild: 70. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1325 í B-deild Alþingistíðinda. (322)

1. mál, fjárlög 1929

Magnús Guðmundsson:

Jeg get auðvitað ekki verið á sama máli og hv. þm. Dal. (SE) í þessu máli. Skal jeg þó ekki víta hann fyrir skoðun hans á því, þar sem hann heldur nú því sama fram og í fyrra, en þá var þetta mál samþ. með 2/3 hlutum þings. En út af ræðu hæstv. forsrh. þarf jeg að segja nokkur orð. Hann sagði, að hægt væri að reka á eftir fjelaginu í eitt ár enn, eða til 1. maí 1929, með það að útvega fje, áður en sjerleyfið væri veitt. Þetta er að vísu rjett. En jeg hefi lítla trú á því, að fjelagið geti útvegað fjeð fyr en sjerleyfið er fengið. En hver mánuður og jafnvel hver vika, sem líður hjer frá, dregur úr líkunum fyrir því, að hægt sje að útvega fjeð. Þá spurði og hæstv. forsrh., hvers vegna þessu hefði ekki verið hreyft fyr á þinginu. Því hefir verið hreyft áður, og það var aðeins vegna þess, að Klemens Jónsson hafði óskað eftir, að því yrði ekki hreyft aftur nema í samráði við hann, að jeg vildi ekki hreyfa því aftur að fyrra bragði. Svipað mun hann hafa sagt við hæstv. forsrh.; að minsta kosti skildi jeg hann svo. Það er hinn mesti misskilningur hjá hæstv. forsrh., að sama sje, þó þetta dragist til næsta þings, því eins og jeg hefi áður sagt, dregur það úr líkunum fyrir því, að fjelagið fái fje, ef það dregst, að það fái sjerleyfið í hendurnar. Það er alt annað að hafa í höndum sjer lög, er heimila, að sjerleyfi sje veitt, eða að hafa sjerleyfið sjálft, því í sjerleyfið er hægt að setja skilyrði, er ekki standa í lögunum, þar sem þau eru aðeins heimildarlög. Hv. 2. þm. Rang. (GunnS) skildi, hvaða munur er á þessu. Og það er mjög skiljanlegt, að ekki sje gott að fá fje, nema vitað sje, hver skilyrðin eru frá ríkisstjórnarinnar hálfu. Hæstv. ráðh. spurði, hví jeg hefði ekki veitt sjerleyfið. Hvað það snertir get jeg vísað til þess, er hv. 1. þm. Árn. sagði. Jeg gat auðvitað ekki veitt það fyr en um það hafði verið sótt.

Hæstv. ráðherra þótti gott, að jeg skyldi kalla svar hans goðsvar. En jeg vil minna hæstv. ráðh. á það, að goðsvör voru jafnan talin tvíræð. Og ef þetta svar á að vera uppfylling á því loforði, sem hann gaf á eldhúsdaginn, þá er það vissulega goðsvar, sem skilja má á tvo vegu. Af því er ómögulegt að álykta, hvort hann ætlar að veita sjerleyfið eða ekki. Þó þykir mjer líklegra, að hann veiti það ekki, því hann sagðist vera sömu skoðunar og í fyrra. En ef svo er, þá ætti hann að segja það hreinskilnislega, svo fjelagið sje ekki að eyða tíma í að draga sig eftir þessu og reyna að sanna, að það hafi fje. Það, að hæstv. forsrh. vill ekkert segja um framtíðina, ef fjeð yrði þá til staðar, sýnir, að hann vill ekki gefa ákveðið svar. Og þegar hann segir, að engin trygging sje fyrir því, að fjelagið fái peninga, ber það vott um, að hann álítur ekkert mark takandi á brjefi því, er honum hefir verið sýnt. En í brjefi þessu er ábyggilegt loforð um svo háa upphæð, að hún nægir til meira heldur en að byggja járnbrautina.

Þá kem jeg að því, er hv. 1. þm. Árn. sagði. Hann lýsti því yfir, að hann væri sömu skoðunar og í fyrra, og má því undarlegt heita, að við, sem þá vorum sömu skoðunar, skulum vera að yrðast á nú, því ekki hefi jeg breytt um skoðun. Hann tók það fram — og vil jeg ekki gera honum neinar getsakir um, að hann hafi ekki meint það —, að hann vildi ekki gera neitt, er yrði þessu máli til hindrunar. En jeg vil benda honum á það, að þessi áskorun til hæstv. forsrh. getur einmitt orðið notuð sem átylla fyrir því að veita ekki leyfið. Með henni er það líka lagt á valdi hæstv. ráðh. að skera úr um það, hvenær fjeð er til, og má búast við því, að hann verði mjög strangur, fyrst hann gerir ekkert úr þessu brjefi, sem áður hefir verið nefnt. Hv. þm. (JörB) sagði, að hæstv. forsrh. gæti ekki varið sig með þessu skjali, ef öll skilyrði væru uppfylt. En eftir skoðun hæstv. forsrh. að dæma, mun hann ekki álíta neitt fullkomna sönnun, nema peningarnir liggi svo gott sem á borðinu fyrir framan hann.

Það er ekki nóg fyrir fjelagið að hafa þessi lög ein, því ennþá hefir það engan rjett og getur því alls ekki fengið peninga hjá peningamönnum. Og þar sem það hefir ekkert leyfi í höndunum, getur það aðeins fengið loforð um fje, eins og það líka hefir þegar fengið. (Forsrh. TrÞ: Það er ekki rjett). Það er þó í þessu umrædda brjefi. (Forsrh. TrÞ: Það er ekkert á því að byggja). Það er ekki rjett; þetta stendur í brjefinu; jeg hefi sjálfur sjeð það.

Jeg gat ekki varist því að skilja hv. 1. þm. Árn. svo, sem hann vildi nú gera tortryggileg ýms ummæli mín frá í fyrra. Þykir mjer mjög leitt að heyra það, og það því fremur, sem hann segist vera sömu skoðunar nú og þá. Í fyrra talaði hann um það, að fyrst skyldi krefja fjelagið fjárins, er það hefði fengið sjerleyfið. Þá væri fyrst hægt að búast við, að það gæti fengið fje. En nú hefir hann komið því til leiðar með þessari áskorun, að sjerleyfið verður varla veitt, nema peningarnir liggi á borðinu. Það er leiðinlegt, að hv. þm. skyldi ekki sjá það í fyrra, ef hróður landsins er skertur með því, að útlendingar fái þetta sjerleyfi í hendur.

Jeg hefi ekkert á móti því, að heimtað sje, að fjelagið sýni öll gögn um það, að það geti fengið peninga, en jeg vil aðeins ekki láta það stranda á því, þó að lögfræðilega sönnun vanti, ef fyrir liggja loforð frá mönnum, sem ekki er ástæða til þess að rengja. Jeg skildi hv. 1. þm. Árn. svo, sem hann hefði iðrast þess, að þessi lög voru samþ. í fyrra. En til þess hefir hann enga ástæðu, því engar líkur eru til, að neitt frekar hefði verið gert í járnbrautarmálinu. Og heimildarlögin voru alls ekkert því til fyrirstöðu. Hefði hv. þm. viljað hrinda járnbrautarmálinu áfram á einhvern annan hátt, þá var honum í lófa lagið að bera fram frv. þess efnis á þessu þingi, því ekkert var því til hindrunar. Titan hefir enn engan rjett fengið. Jeg get vel tekið undir, að ef við hefðum innlenda peninga til fyrirtækisins, þá væri það betra. En jeg er því miður ekki viss um, að unt verði að útvega þá á næstu árum. — Þótt jeg vildi gjarnan hafa tíma til að fara nánar út í ræðu hv. þm., held jeg, að jeg megi til með að sleppa því að sinni. Hv. 2. þm. Árn. (MT) mælti hjer fáein orð og kvað sig hafa greitt atkvæði í fyrra á mína ábyrgð. Jeg hjelt nú, að hv. þm. hefði þann sið að greiða atkvæði á eigin ábyrgð, en ef þessi hv. þm. er undantekning frá þeirri reglu, þá vænti jeg, að hann haldi áfram að hafa sannfæringuna í sömu vistinni. Jeg kann ekki við, að hann sje að hringla með hana sitt á hvað, og vildi gjarnan, að hann greiddi áfram atkvæði á mína ábyrgð. (MT: Hjer liggur ekki fyrir nein atkvæðagreiðsla!). Það er nú sama sem, þegar hv. þm. sendir hæstv. stj. áskorun um að breyta þvert á móti því, sem hann vildi láta hana gera í fyrra. — Jeg veit ekki, hvað farið hefir á milli hv. þm. og Klemensar Jónssonar, en mjer finst það koma þinginu lítið við, þó að það hafi verið einhver ónot. En út af ummælum hans um mig og hv. þm. Borgf. vil jeg minna hann á, að sá hv. þm. hefir ætíð verið mjög eindregið á móti járnbrautarmálinu, svo að það er a. m. k. ekki sönnun fyrir, að hann trúi meira á mig en hv. 2. þm. Árn., nema síður sje.