09.03.1928
Efri deild: 43. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3477 í B-deild Alþingistíðinda. (3223)

112. mál, vörutollur

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Það er nú komið að því, eins og oftast verður, þegar tekið er ofan í hv. 3. landsk., að hann fellur frá fyrri fjarstæðum sínum og reynir að vera góða barnið. Þetta er nú auðvitað allra góðra gjalda vert. Hann reynir nú að gleyma, að árás hans á peningamál þjóðarinnar 1922 var önnur og meiri en sú, að hann bæri fram skilyrðisbundna till. um fjárveitingu til símalagninga. Hv. 3. landsk. lýsti þá yfir því í þingræðu, að stjórnin verðskuldaði ekki; tekjuhallalaus fjárlög. Það er því ekki annað en ósvífni og vísvitandi fals að halda því fram nú, að hjer hafi aðeins verið um skilyrðisbundna fjárveitingu til síma að ræða. Það var þessi ósvífni uppreisnarhugur, sem jeg áfeldist rjettilega.

Hv. 3. landsk. getur ekki varið, og reynir ekki að verja, að hann skildi sjálfur við fjárlögin með tekjuhalla og kastaði tekjum frá sjer. Hefði að vísu verið afsakanlegt, þótt tekjuhalli hefði verið á fjárlögunum, ef tekjurnar hefðu verið skildar eftir. Ef hv. 3. landsk. hefði nú viljað vera góður borgari, þá hefði hann átt að viðurkenna, að tekjuhalli hefði áð vísu orðið hjá sjer, fyrir vöntun á framsýni, en nú vildi hann vera með tekjuaukningu til framkvæmda. Þessa afstöðu hefði hann átt að taka, ef nokkurri vitglóru hefði verið fyrir að fara. En nú hefir hann lýst yfir því, að hann vilji ekki vera með neinni álagningu til að afstýra tekjuhalla, hvað þá til nýrra framkvæmda. En það er alveg eins um hv. 3. landsk. og hina uppreisnarmennina, flokksbræður hans, að hann heldur, að sjer muni haldast uppi athæfi sitt og verði ekki látinn bera ábyrgð á framkomu sinni, þótt hann vilji setja landið á hausinn. Hjer kemur það sama fram og þegar Pjetur Oddsson og Einar M. Jónasson hjeldu, að þeim gæti haldist uppi að sparka í lög landsins og svívirða rjettvísina. Hv. 3. landsk. hagar sjer eins og Einar M. Jónasson. En honum verður haldið í skefjum og hann verður látinn bera ábyrgð á gerðum sínum.

Jeg get ákaflega vel skilið það, að hann vilji ekki hafa mig fyrir dómsmálaráðherra. Þeir, sem sannir eru að sök um atkvæðafalsanir og sjóðþurð, eru ekki ánægðir með mig heldur. Hv. 3. landsk. fullkomnar myndina, með því að skipa sjer í flokk þessara manna og annara, sem jeg hefi komið óþægilegast við: landhelgibrjóta, fyllirafta, þjófa, eyðsluklóa og ýmiskonar lögbrjóta. Engir þessara manna vilja hafa mig í ráðherrasæti, en með því er ekki sannað, að jeg sitji þar í óþökk góðra manna.