28.03.1928
Neðri deild: 59. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3484 í B-deild Alþingistíðinda. (3233)

112. mál, vörutollur

Frsm. minni hl. (Ólafur Thors):

Minni hl. fjhn. þótti ástæða til að taka tillit til fjárlagafrv. eins og það var afgreitt frá þessari hv. deild, og eins og kunnugt er, þá fór það hjeðan til Ed. með 670 þús. kr. tekjuhalla. Við vildum því stuðla til þess, að fjárlögin verði afgreidd tekjuhallalaus og gerum ráð fyrir því, sem talið er líklegt að verði, að Ed. auki ekki við tekjuhallann. Við nána athugun á tekjuliðum fjárlagafrv. er það bert, að áhættulaust er að hækka áætlun tekjuliðanna talsvert. Við höfum þó ekki viljað ganga lengra en það að taka út úr tvo tekjuliði. Hefir okkur virst þeir liðir vera sýnilega of lágt áætlaðir og leggjum til, að þeir verði hækkaðir. Munum við bera fram brtt. um það, er fjárlögin koma aftur til einnar umræðu í þessari hv. deild, en þessir tveir liðir eru tekjur af tekju- og eignarskatti og tekjur af áfengisversluninni. Tekju- og eignarskattur hefir numið að meðaltali 1137 þús. kr. á ári síðan 1921. Samkvæmt fjárlögum fyrir árið 1928 var þessi tekjuliður áætlaður 950 þús. kr., og var það síst of hátt áætlað, en í fjárl. fyrir árið 1929 er þessi tekjuliður áætlaður aðeins 850 þús. kr., og verður ekki sjeð annað en að það sje alveg að ástæðulausu, því að yfirleitt hækka þessar tekjur með hverju ári í samræmi við þróun atvinnulífsins í landinu, og væri því í rauninni ástæðulaust að áætla þær undir 6 ára meðaltali, eða 1137 þús. kr. Að vísu er eitt af þessum 6 árum einstakt góðæri, 1924, og eru því tekjur af þessum gjaldstofni mjög háar það ár, en því til jafnaðar hafa og nokkur áranna verið óvenju rýr og ljeleg fyrir þjóðarbúskapinn. En svo allir skilji, að í hóf er stilt, viljum við þó vera svo varfærnir að áætla tekjur af þessum gjaldstofni aðeins 950 þús. kr., í stað 850 þús. kr., eins og áætlað er í fjárlagafrv. fyrir 1929.

Við höfum einnig lagt til, að tekjur af áfengisversluninni verði áætlaðar 400 þús. kr., í stað 300 þús. kr. Er sama að segja um þennan gjaldstofn og hinn fyrri, að meðaltalstekjur af honum hafa verið meiri en 300 þús. kr., ekki 375 þús. kr., eins og hv. þm. V.-Húnv. sagði, heldur 450 þús. kr., eins og við höfum getið um í nál.

Hv. frsm. meiri hl. miðar við þær tekjur, sem áfengisverslunin hefir skilað ríkissjóði, en gætir þess ekki, að áfengisverslunin hefir af tekjum sínum safnað sjer rekstrarfje, 777 þús. kr., og varasjóði, 122 þús. kr., en skilað ríkissjóði 1843000 kr. Því er mjög í hóf stilt, er við leggjum til, að tekjur verði áætlaðar 400 þús. kr., því að þær hafa verið yfir 450 þús. kr. að meðaltali, ef miðað er 6 síðustu árin, en 560 þús. kr. að meðaltali 3 síðustu árin.

Nú hafa verið leiddar að því líkur af hv. frsm. meiri hl., að ástæða sje til að ætla, að þessar tekjur fari heldur minkandi. Benti hann á, að árið 1927 hafi tekjurnar verið minni en árið 1926, sem aftur var rýrara að tekjum en 1925. — Fyrir þessu liggja hinar sömu ástæður og rýrnun á öðrum tekjum ríkissjóðs.

Eins og kunnugt er, var árið 1924 eindæma gott ár fyrir allan atvinnurekstur landsmanna, og eru því tekjur ríkisjóðs mjög miklar 1925. Árið 1925 var að vísu góðæri, en þó lakara en 1924, og þar af leiðandi urðu tekjur ríkissjóðs minni 1926 en 1925.

Loks er árið 1926 mjög ljelegt fyrir atvinnuvegi landsins, og er því ekki nema eðlilegt, að tekjur ríkissjóðs sjeu rýrari 1927 en árið á undan. Þetta er hin viðurkenda regla, að tekjur ríkissjóðs miðast fyrst og fremst við afkomu atvinnurekstrar landsmanna á undanförnu ári. Nú telur háttv. frsm. meiri hl., að tekjur ríkissjóðs af áfengisversluninni muni minka drjúgum sökum þess, að núv. stjórn hafi tekið áfengismálið svo sterkum tökum. Jeg verð að segja, að mjer virðast þessi ummæli hv. frsm. næsta brosleg, því að ekki hefir orðið vart annara áhrifa stjórnarinnar en ef hún skyldi sjálf hafa neytt minna víns en verið hefir, en vart trúi jeg, að það hafi veruleg áhrif á tekjur ríkissjóðs. Ef hv. frsm. hefir átt við það, að stjórnin muni taka áfengissmyglun föstum tökum í framtíðinni, þá get jeg ekki annað sjeð en að það muni fremur verða til þess að auka viðskifti við áfengisverslunina en að draga úr þeim. Þessi rök hv. frsm. virðast því heldur til þess að styðja áætlun okkar minnihlutamanna.

Jeg þykist nú hafa leitt nokkrar líkur að því, að ekki muni óvarlegt af okkur minnihlutamönnum að fara fram á það, að þessir tekjuliðir í fjárlögunum verði hækkaðir. Ef það er gert, er þó enn eftir að sjá ríkissjóði fyrir 470 þús. kr. tekjuauka, sem svarar þeim halla, er þá verður eftir á fjárlögunum. Þetta höfum við lagt til, að gert verði með því að hækka verðtollinn samkv. þskj. 213. Sú hækkun mundi færa ríkissjóði 460 þús. króna tekjuauka, ef miðað er við síðasta ár, en með því að það ár var með tekjurýrari árum fyrir ríkissjóð, þykir okkur ekki óvarlegt að áætla tekjur hans 500 þús. kr. af hækkun verðtollsins. Þegar við þannig höfum sjeð fyrir tekjuhallalausum fjárlögum, þá finst okkur, að gjalda beri varhuga við að leggja þyngri skatta á þjóðina, einkum þar sem atvinnurekstur landsmanna hefir á síðari árum vart getað risið undir hinum þungu skuldaböggum og álögum, sem hafa verið langt úr hófi fram. Því að auk þess að gjalda til þarfa ríkissjóðs hefir atvinnurekstur landsmanna orðið að stríða við hina þungu örðugleika gengishækkunarinnar og greiða margar milj. kr. af lausaskuldum ríkissjóðs. Fyrir því finst okkur alveg óverjandi að ganga lengra í skattaálögunum, þar sem sterkar líkur eru fyrir því, að fjárlögin verði með þessum hætti afgreidd tekjuhallalaus. Hinsvegar virðist þingmeirihlutinn líta öðruvísi á, þar sem hann ber fram mörg og margvísleg tekjuaukafrv. Er þar fyrst að nefna hækkun á tekju- og eignarskatti, hækkun á verðtolli og vörutolli, sem talið er víst, að muni verða samþ., og loks liggur fyrir frv. um stimpilgjald, sem mjer þó heyrðist á flm., að hann teldi hæpið, að samþ. yrði. Gat hann þess, að tekjur af því mundu ekki renna í ríkissjóð, heldur sjóð, sem stofnaður yrði til eflingar strandferðum. Jeg get ekki sjeð, að á þessu sje neinn munur, því að hin sama hlið veit að skattþegnunum og sjóðurinn verður til þess að ljetta á ríkissjóði í þeim efnum. Ef svo fer, að þessir tekjuaukar verða samþ., verða fjárl. afgr. með yfir 600 þús. kr. tekjuafgangi, eins og við höfum sýnt fram á á þskj. 589. Er slík afgreiðsla ekki aðeins einstök í sinni röð, heldur og alveg óverjandi, þar sem landsmenn geta ekki risið undir meiri álögum en brýnustu þarfir ríkissjóðs heimta. Þar að auki má ætla, að þessir blóðpeningar muni ganga til framkvæmda, sem ekki er nauðsyn á að verði unnar eins og sakir standa. Síðan fjhn. hafði mál þetta til meðferðar, hafa þau tíðindi gerst hjer í hv. Nd., sem engan ugði, að numinn hefir verið úr lögum gengisviðauki á kaffi- og sykurtolli, sem nemur 190 þús. kr. tekjurýrnun. Hv. frsm. meiri hl. taldi, að við hefðum mátt gera ráð fyrir þessu, þegar við skrifuðum undir nál., svo framarlega sem við hefðum viljað afgreiða málið með samviskusemi, eins og hann orðaði það, en ef við vildum aldrei og undir engum kringumstæðum ganga inn á það að afgreiða fjárlögin með tekjuhalla, getur meiri hl. þingsins notað sjer það og numið úr gildi þá gjaldstofna, er hann vill ekki hafa, en heimtað síðan atkvæði okkar til þess að samþ. gjaldstofna, er við teljum rangláta.

Jeg hefi nú í nál. skrifað um þessi mál, eftir þeim horfum, sem þá voru á afgreiðslu fjárl. En hv. frsm. meiri hl. hefir viljað kalla reynsluna til vitnis og spyr, hverjar líkur sjeu um afkomuna í reyndinni, en ekki á pappírnum, eins og á fjárlagafrv. Jeg er reiðubúinn til þess að ræða þá hlið málsins við hann. Jeg skal gera honum það til geðs við þá umr. að taka tillit til niðurfellingar gengisviðauka af kaffi- og sykurtolli og gera fyrir þeim tekjumissi, sem nú er bert, að af muni hljótast. Sömuleiðis skal jeg gera ráð fyrir þeim umframgreiðslum, er hann vill telja 15% af áætluðum útgjöldum fjárl., og þá telur háttv. frsm., að útgjöld ríkissjóðs verði 12400000 kr. Jeg skal ganga inn á þetta og reyna að gera grein fyrir tekjunum, ef miðað er við líkur og dæma má eftir reynslu undanfarinna ára. Ef teknar eru meðaltalstekjur þriggja undanfarinna ára og ef miðað er við, að sú tekjulöggjöf hefði þá gilt, sem nú gildir að öllu óbreyttu, þá hefðu þær orðið þessar:

Árið 1925 …… 13,71 milj. kr.

— 1926 ...... 11,48 — —

— 1927 ...... 11,00 — —

eða að meðaltali 12,06 milj. kr. Við þetta á svo að bætast, að á þessum árum hefir áfengisverslun ríkisins safnað sjer varasjóði, m. ö. o. hefir haft tekjur, sem hún ekki hefir skilað ríkissjóði, en sem hún nú getur farið að skila. Þessar tekjur hafa numið rúmlega 0,2 milj. kr. árlega. Má því segja, að raunverulegar meðaltalstekjur ríkissjóðs á þessum þrem árum sjeu 12,26 milj. króna.

Ef nú verðtollurinn verður hækkaður, eins og við leggjum til að gert verði, verða tekjur af því árlega alt að 0,5 milj. kr. Að þeim tekjum viðbættum verða því tekjur ríkissjóðs 12,76 milj. kr., og þar sem hv. frsm. sló því föstu, að gjöldin mundu verða 12,4 milj., er þá eftir tekjuafgangur, sem nemur 360 þús. kr. Hvort heldur sem dæmt er eftir fjárlögunum á pappírnum eða reynslu undanfarinna ára, þá virðist sæmilega trygð afkoma ríkissjóðs án þess að samþ. sjeu tekjuaukar, aðrir en verðtollurinn.

Í þessu sambandi má benda á það, að þótt framlagið til landsspítalans verði greitt af tekjum þessa árs, eru allar líkur til, að það muni kleift, og jeg tel sjálfsagt, að það gangi fyrir letigarði og ýmsum framkvæmdum öðrum, sem stjórnin er fylgjandi. (HJ: Það vantar tekjur í þessi áætluðu fjárframlög). Jeg vil benda hv. frsm. á það, að jeg sýndi, að með þessu móti yrði 360 þús. kr. tekjuafgangur eftir reynslu fyrri ára.

Jeg skal svo að endingu drepa á það, að hv. frsm. vitnaði í það, sem hinn glöggi fjármálamaður formaður Íhaldsflokksins (JÞ) sagði í ársbyrjun 1927. Það var sjálfsagt í ársbyrjun 1927 að brýna það fyrir mönnum að spara, því að þá var víst, að afkoma ársins 1926 var mjög ljeleg fyrir atvinnurekstur landsmanna, og þar af leiddi það, að tekjur ríkissjóðs hlutu að verða mjög rýrar árið 1927. Nú vitum við, að afkoma atvinnuveganna 1927 var mjög sæmileg, en af því vitum við, að tekjur 1928 verða einnig mjög sæmilegar og miklu meiri en tekjurnar 1927. Eftir þeim líkum, sem fyrir hendi eru, er hægt að segja, að horfurnar fyrir sæmilegri afkomu á þessu ári sjeu mjög sæmilegar, a. m. k. að því er verðlag snertir. Jeg skal að vísu játa, að aflabrögð togara hafa ekki verið góð, en ennþá er ekki sjeð, hvernig þau kunna að verða, sökum þess að skamt er liðið á vertíð.

Jeg vil svo enda mál mitt með því að slá því föstu, að verði till. minni hl. samþ., munu fjárl. tekjuhallalaus, en reyndin verða sú, að allverulegur tekjuafgangur verður. Verði hinsvegar till. meiri hl. fylgt, verður stórvægilegur tekjuafgangur, sem varið mun til ýmsra framkvæmda, sem sumar eru miður nauðsynlegar. Þykir minni hl. það því viðsjárverðara, sem hagur landsmanna er þannig, að þeim er ekki kleift að gjalda nema til brýnustu þarfa ríkissjóðs.