28.03.1928
Neðri deild: 59. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3498 í B-deild Alþingistíðinda. (3237)

112. mál, vörutollur

Frsm. minni hl. (Ólafur Thors):

Hv. frsm. meiri hl. taldi, að jeg hefði farið þeim orðum um breytingar þær, er gerðar hafa verið eða munu verða á skattalöggjöfinni á þessu þingi, og þá aðallega þær, að fella niður gengisviðauka af kaffi- og sykurtolli, en hækka tekju- og eignarskatt, að með þessu væri verið að gerbreyta skattalöggjöfinni. Þetta sagði jeg nú ekki, enda þótt það mætti til sanns vegar færa. En jeg sagði, að ef heimta mætti af okkur stjórnarandstæðingum, að við værum með nýjum skatti í staðinn fyrir hvern þann tekjustofn, sem stjórnarliðið feldi niður, bara af því að við vildum ekki fjárlög með tekjuhalla, þá mætti gerbreyta skattalöggjöfinni með okkar atkv., en þvert á móti stefnu okkar.

Hv. frsm. þóttist hafa staðið háttv. 3. landsk. að mikilli hugsunarvillu, en það fór að líkum, að hugsunarvillan var hjá hv. frsm. sjálfum. Dæmið, sem hann tók og átti að sanna þetta, var það, að á þingi í fyrra hefði háttv. 3. landsk., sem þá var fjmrh., slegið því föstu, að tekjur ársins 1926 yrðu 4 milj. kr. minni en ársins 1925. Hinsvegar á sami hv. þm. að hafa sagt nú í nál. í Ed., að ef tekjustofnarnir hefðu verið þeir sömu 1925 og þeir eru nú, mundi ríkið hafa haft 2,3 milj. kr. minni tekjur en það hafði það ár. Þetta þótti hv. þm. V.-Húnv. undarlegt í meira lagi og taldi skakka þarna 1,7 milj. kr. En hv. þm. hlýtur að sjá, að hjer er ólíku saman að jafna. Annarsvegar er verið að tala um tekjurnar 1926, en hinsvegar um það, hverjar tekjurnar hefðu orðið 1925, ef ekki hefðu verið þeir tekjustofnar, er feldir voru niður 1926.

Hv. frsm. þykir enn, að við minnihlutamenn áætlum óvarlega tekjur áfengisverslunar, þegar við viljum hafa áætlunina 400 þús. kr., í stað 300 þús. kr. í frv. Bendir hann á það, að þær tekjur, sem áfengisverslunin hafi skilað ríkissjóði, hafi verið að meðaltali 330 þús. kr. á ári. Jeg hefi áður bent á það, sem máli skiftir, þ. e. hverjar hinar raunverulegu tekjur áfengisverslunar hafa verið. Nokkrum hluta þeirra hefir verið varið til að mynda sjóð, sem hæfilegur mætti teljast fyrir rekstrarfjárþörf stofnunarinnar, og nokkuð hefir runnið í varasjóð. Þar sem báðir þessir sjóðir hafa nú náð þeirri fjárhæð, að ekki þykir þurfa að auka þá í bili, mega tekjur áfengisverslunar renna óskertar í ríkissjóð. Og hinar raunverulegu tekjur hafa verið 450 þús. kr. á ári að meðaltali, ef miðað er við öll árin, en 560 þús. kr., ef tekið er meðaltal þriggja síðustu ára. Ef hv. frsm, óskar nánari sundurliðunar á þessu, þá getur hann fengið að heyra hana.

Nettóágóði áfengisverslunar hefir verið þessi :

Árið 1922 …. 270 þús. kr.

— 1923 .... 298 — —

— 1924 .... 495 — —

— 1925 .... 830 — —

— 1926 .... 504 — —

— 1927 .... 346 — —

Nettóágóði af rekstri verslunarinnar hefir þannig verið 2743 þús. kr. öll árin samtals. Þar af hafa verið greiddar í ríkissjóð 1843 þús. kr. Varasjóður er 122½ þús. kr. og rekstrarsjóður 777½ þús. kr.

Þess vegna er það óhrekjanlegt, að með engu móti getur talist óvarlegt að áætla tekjurnar 400 þús. kr., og að ástæðulaust er að hafa þá áætlun ekki hærri en 300 þús. kr. — Það er næsta broslegt, þetta, sem hv. frsm, talaði um, að hæstv. landsstjórn hefði gert svo mikið til að draga úr áfengisnautn í landinu. Einkum verður broslegt að heyra þetta, þegar menn minnast þess, að einna mesti áhrifamaðurinn í hæstv. stj. hefir skrifað rammaukna hvatningargrein til manna um að drekka vín eins og kaffi. Ef tekið verður alment tillit til þessarar greinar, hlýtur það að verða til þess, að áfengisstraumurinn vaxi í tíð núverandi hæstv. stj. eins og á í vorleysingum. — Þegar hæstv. ráðh. skrifaði þessa hvatningargrein, var það auðvitað með það fyrir augum, að nú væri hann kominn í stjórn landsins og yrði að ná sem mestum tekjum í ríkissjóð, til þess að geta komið fram áhugamálum sínum. Hæstv. ráðherra hafði veitt því athygli, að hófleg drykkja spánskra vína væri mönnum einkar holl, og því gaf hann út áskorun um það, að hvenær sem tveir menn hittust, skyldu þeir skvetta í sig nokkrum bollum af spánarvínum, — eins og þeir væru að drekka kaffi. Með þessu móti gætu þeir helst gerst samkvæmishæfir. Það verður því ekki með nokkrum sanni sagt, að starfsemi hæstv. stj. hafi miðað að því að draga úr áfengisnautninni. — Jeg sje á öllum hv. þdm., að þeim þykir jeg hafa mikil rök að mæla, enda er það svo.

Háttv. frsm. kveður nokkurn grun liggja á um það, að af því að jeg sje í stjórnarandstöðu, vilji jeg ekki skamta ríkissjóði ríflegri tekjur en svo, að lausar skuldir safnist, og síðan vilji jeg hallmæla hæstv. stjórn fyrir það. Þetta er úr lausu lofti gripið. Við minnihlutamenn höfum tekið þátt í því að leggja nýja skatta á þjóðina, af því að við viljum tryggja ríkissjóði tekjur til brýnna þarfa. En við höfum kveðið upp þann dóm, að lengra megi ekki ganga. Hv. meiri hl. segir sem svo, að auk þessa þurfi tekjur til að greiða tekjuhalla undanfarinna ára og væntanlegan tekjuhalla 1928. Tekjuhalla undanfarinna ára er auðvelt að greiða, ef farið er að ráðum hv. minni hl. fjhn. í Ed., sem sje að greiða hann með því fje, sem losnar, þegar landsverslun er lögð niður. Fyrir tekjuhalla á þessu ári þarf varla að sjá, því að telja má nokkurnveginn fullvíst, að á árinu verði sæmilegur tekjuafgangur, nema hæstv. stj. haldi með fádæmum illa á og greiði óhófsamlega umfram fjárlagaveitingar. En það mætti æra óstöðugan, ef gera ætti við afleiðingum slíks austurs.

Hv. þm. hjelt, að ekki mundu margir þingmenn fara ánægðir heim, ef þeir þyrftu að bera bann boðskap, að nú væru skuldir ríkissjóðs að aukast og lausar skuldir að safnast. Jeg tek undir með hv. þm., að það væri sorgarboðskapur. En hitt er ekki heldur neinn gleðiboðskapur, sem menn fá áreiðanlega að heyra, að nú sje verið að gera leik að því að nauðsynjalausu að skattleggja þá til þess að reisa letigarð og byggja strandferðaskip með 200–300 þús. kr. árlegum tekjuhalla. Fleira mætti telja, og er sumt að vísu þarft, en margt miður, og ekkert að minni hyggju bráðnauðsynlegt. — Enda mun það hafa verið svo um okkur háttv. þm. V.-Húnv. báða, eins og alla aðra frambjóðendur, að við hjetum kjósendum því, að við skyldum ekki gera okkur leik að því að leggja á fólkið nýjar álögur. En hvort sem litið er á fjárlagafrv. á pappírnum eða þá reynslu, sem vænta má að verði, eru allar líkur til, að á árinu 1929 verði nokkur tekjuafgangur, þótt álögurnar verði ekki meiri en minni hl. fjhn. leggur til.

Hjer er komin fram brtt. frá hv. 3. þm. Reykv. Með því að mjer láðist í fyrri ræðu minni að skýra frá afstöðu minni hl. til hennar, og hv. meiri hl. hefir heldur ekki gert grein fyrir afstöðu sinni, vil jeg nú fara um hana fáeinum orðum. Brtt. hv. þm. fer fram á, að sú breyting verði gerð á kolatollinum, að hann sje aðeins hækkaður um 1 kr., en ekki 2 kr., eins og f frv. segir. Nái þessi brtt. fram að ganga, munu, eftir líkum að dæma, fiárlögin verða afgreidd þannig, — ef hv. Ed. eykur ekki útgjöldin til muna — : Tekjuhalli eftir 3. umr. Í Nd. 670 þús. kr.; afnám gengisviðauka af kaffi- og sykurtolli 190 þús. kr. samtals 860 hús. kr. — Til jafnaðar við þetta kemur: Hækkun á áætlun af tekju- og eignarskatti 100 þús. kr., hækkun á áætluðum tekjum áfengisverslunar 100 þús. kr., hækkun á verðtolli 500 þús. kr., hækkun á vörutolli: 1) kolatollur eftir till. hv. 3. þm. Reykv. 115 þús. kr., 2) tunnutollur 80 þús. kr. samtals 895 þús. kr.

Fjárlögin yrðu þá afgr. með 35 þús. kr. tekjuafgangi, sem í reyndinni yrði miklu meiri, sakir þess, hve varleg tekjuáætlunin er. Vegna afgr. fjárlagafrv. er því alveg óhætt að samþ. brtt. hv. 3. þm. Reykv. Minni hl. fjhn. álítur jafnvel óhætt að fella algerlega hækkunina á vörutollinum.

Þeim mun meiri ástæða er til að gæta hófs í kolatollinum, sem hjer er um að ræða framleiðsluskatt, sem miðast ekki að neinu leyti við aflabrögðin. Hár salttollur er sök sjer, því að salteyðslan er altaf í hlutfalli við aflann. Að því leyti sem kolatollurinn lendir á öðrum en framleiðendum, eru það nær eingöngu Reykvíkingar, sem greiða hann. Jeg vænti, að allir hv. þm. Reykv. geti verið fylgjandi brtt. háttv. 3. þm. Reykv., með því að hækkunin bitnar að 60–70% eða meira á Reykvíkingum einum. Þegar hv. 2. og 4. þm. Reykv. athuga þetta, vænti jeg, að þeir rifti ofurlítið baktjaldasamningnum við stjórnarliðið og hjálpi til að ljetta nokkuð þennan óbilgjarna skatt á umbjóðendum þeirra.