08.03.1928
Efri deild: 42. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3521 í B-deild Alþingistíðinda. (3254)

113. mál, verðtollur

Frsm. 1. minni hl. (Jón Þorláksson):

Minni hl. fjhn. ber hjer fram brtt. á þskj. 371 við frv. það, sem hjer er til umræðu, að í staðinn fyrir 15% á almennum verðtollsvörum komi 12½%, og að sá liður, sem samkvæmt núgildandi lögum er 20%, verði látinn standa óbreyttur. Með þessu, að ganga að nokkru leyti inn á frv. þetta, vill minni hl. sýna, að svo framarlega sem þörf sje fyrir tekjuauka, þá sje þó með því borið niður á rjettum stað, því að vörur þær, sem tollur þessi hvílir á, eru þó ekki allar bráðnauðsynlegar.

Háttv. frsm. 2. minni hl. taldi þetta alls ekki nægilegan tekjuauka, eftir því sem nú stæðu sakir, og eftir að hafa heyrt áætlun hans um tekjuauka af frv. þessu, get jeg vel skilið þetta. Hann gerir sem sje ekki ráð fyrir meiri tekjum af því en 300 þús., enda þótt núgildandi verðtollslög hafi gefið 1927, samkvæmt skýrslu fjármálaráðherrans, 926 þús., og þó er tollurinn alt það ár ekki nema 10% á lægri liðnum og 20% á þeim hærri.

Þegar farið er fram á að hækka verðtollinn úr 10% upp í 15% og úr 20% upp í 30%, þá má ætla, að það gefi tekjuaukningu, sem nemi um 460 þús. kr., eða helming þeirrar upphæðar, 926 þús. kr., er hann nam 1927, til viðbótar, eins og hækkun tollsins nemur helmingi þess tolls, sem fyrir var. En það mun þó nær sanni, sem við gerum ráð fyrir í okkar nál., að tekjuaukningin eftir brtt. okkar muni nálgast 300 þús. kr.; að minsta kosti má gera ráð fyrir tekjuvoninni 240 þús. kr., og er það þá nálægt því, sem 2. minni hl. ætlar sjer.

Ástæðan til þess, að við teljum það varhugavert að hækka verðtollinn úr 20% upp í 30%, er ekki sú, sem hv. frsm. 2. minni hl. hjelt, að við gerum ráð fyrir, að innflutningur minkaði að mun við það, heldur hitt, að þar sem í þessum flokki eru sjerstaklega vörur, sem eru tiltölulega fyrirferðarlitlar, en verðmætar, þá erum við hræddir um, að með okkar ónóga tolleftirliti verði hækkunin ef til vill til þess, að ótollaður innflutningur á þessum vörum aukist.

Margar af vörutegundum í þessum flokki eru ekki fyrirferðarmeiri en það, að ferðamenn og skipverjar geta hæglega haft þær í vösum sínum. Við höldum það ekki heppilegt að tolla þessar vörur með 30%, og enda ekki ástæðu til þess, þar sem það eru yfirleitt fáar vörutegundir, sem undir þennan tollflokk heyra, og við gerum ekki ráð fyrir, að það, sem til skila mundi koma af þessum háa tolli, mundi nema eins miklu og verið hefir. Okkur er þetta að vísu ekki kappsatriði, en okkur þykir það, af þeim ástæðum, sem jeg hefi nú greint, varhugavert að fara hærra en upp í 20%.

Jeg held, að að öðru leyti hafi verið gerð grein fyrir ástæðum okkar í umræðum og í nál. á þskj. 371, svo og nokkuð í gær við umræðurnar um breytingu á lögum um vörutoll, svo að jeg held, að jeg geti látið hjer staðar numið að sinni.