10.03.1928
Efri deild: 44. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3529 í B-deild Alþingistíðinda. (3261)

113. mál, verðtollur

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Út af byrjuninni á ræðu hv. 3. landsk. vil jeg taka það fram, að þegar verið var að undirbúa fjárlagafrv. fyrir jólin. hafði stj. yfirlit yfir það, hve mikill tekjuhallinn mundi verða á síðasta stjórnarári hv. 3. landsk. Þar sem mjög óvíst var um það, hvort þingið mundi samþ. tekjuaukafrv., tók stj. það ráð að miða útgjöld í frv. við sömu tekjulög og verið höfðu, þannig að komist yrði hjá tekjuhalla, jafnvel þó að svo færi, að engir tekjuaukar yrðu samþyktir. Jafnframt undirbjó stj. tekjuaukafrv., og um sum þeirra er líklegt, að þau nái samþykki þingsins, en önnur þeirra ef til vill ekki.

Þegar fjvn. Nd. sá, hvernig þessi hv. deild tók í þessi frv., taldi hún óhætt að hækka útgjöldin. Þó skilst mjer, að meiri hluti hennar hafi gert það með þeim fyrirvara, að ef tekjuaukafrv. fjellu, þá mundi hann skera niður að sama skapi þau útgjöld, sem nú kunna að verða samþ. við 3. umr. fjárlaganna í Nd. Jeg tek þetta fram til þess að það sjáist, að stjórnarflokkurinn ætlar að gæta þess, að ekki verði tekjuhalli. Hann ber fram tekjuaukafrv. til þess að hægt verði að sinna verklegum framkvæmdum. Falli tekjuaukafrv., hlýtur það að koma að meira eða minna leyti niður á hinum verklegu framkvæmdum.

Út af brtt. hv. 3. landsk. vil jeg taka það fram, að jeg hefði talið hana góðra gjalda verða, ef hann hefði komið fram með hana í fyrra. En honum hefir einhvernveginn ekki dottið það í hug fyr en nú, þegar stj. er búin að bera fram frv. í þá átt að fella niður aukatekjurnar hjer í Reykjavík. Ef samræmi væri í till. hans, ætti hann að leggja til, að þetta gjald fjelli alstaðar niður og gera ráð fyrir því, að stj. bætti sýslumönnunum, sem ekki eru oflaunaðir, skaðann. En nú eru allar líkur til þess, að frv. um embættaskiftinguna í Reykjavík, sem sker niður alla bitlinga við þau embætti, verði samþ. Þá er alveg tilgangslaust að bera nú fram slíkar minni háttar breytingar á launakjörum þessara manna. En fari svo, að hin meiri umbót nái ekki fram að ganga, þá er altaf hægurinn hjá að koma viðbótarákvæði inn í þetta frv. í Nd.