10.03.1928
Efri deild: 44. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3531 í B-deild Alþingistíðinda. (3263)

113. mál, verðtollur

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Málið hefir ekki skýrst mikið við síðustu ræðu. hv. 3. landsk. Breytingin getur, eins og nú stendur á, ekki náð nema til Reykjavíkur. Jeg sje því, að þessi brtt. hv. 3. landsk. er aðeins fleygur í sparnaðarfrv. það, sem hjer var til umr. í gær.

Stjórnin vill koma fram allsherjar niðurskurði á bitlingunum við þessi embætti. Takist henni það, er till. hv. 3. landsk. algerlega óþörf að því er til þeirra kemur. Hinsvegar er ekki skýrt tekið fram í þessari till., að hún nái til allra innheimtumanna, og er hún því einungis eins og selbiti í vasann. Formlega nær hún aðeins til Reykjavíkur, en líkur eru til, að þar þurfi ekki á henni að halda. Því álít jeg, að rjett sje að fella hana, svo að hún þvælist ekki fyrir öðrum meiri sparnaðartillögum, sem fram koma síðar á þinginu.