11.02.1928
Efri deild: 20. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3542 í B-deild Alþingistíðinda. (3285)

40. mál, bæjarstjórn í Neskaupstað í Norðfirði

Frsm. meiri hl. (Ingvar Pálmason):

Eins og nál. bera með sjer, hefir allshn. ekki getað orðið sammála um þetta frv. Hinsvegar viðurkennir öll nefndin þó, að það fyrirkomulag, sem nú er um stjórn sveitarmálefna á Norðfirði, sje ekki viðunandi, en nefndarhlutana greinir á um það, hvernig úr því skuli bætt. Jeg ætla ekki að fara út í nál. minni hl. að svo stöddu, en skal nú færa nokkur rök að niðurstöðu meiri hl. Við lítum svo á, að önnur lausn á þessu máli sje ekki fullnægjandi en sú, sem farið er fram á með frv., með öðrum orðum, að svo sje komið í þessu kauptúni, að ekki verði fullkomlega úr bætt á annan hátt.

Jeg verð að álíta, að allflestir hv. þdm. sjeu of lítið kunnugir högum og háttum á þessum stað; fæstir þeirra munu hafa komið þar, en sumir aðeins í svip, og er sú þekking, sem við það fæst, altaf mjög ófullkomin.

Jeg hygg, að jeg muni vera sá maðurinn, sem mesta þekkingu hefir í þessu efni, og er það enda eðlilegt, þar sem jeg hefi verið búsettur í þessu kauptúni altaf síðan það fór að vaxa. Jeg vil þá með örfáum orðum lýsa vexti þessa kauptúns í stórum dráttum. Skal jeg þá fyrst minnast á mannfjöldann. Í árslok 1890 er íbúatala innan takmarka Neshrepps um 80 manns, og það lítur út fyrir það af skýrslum, að sú íbúatala hafi haldist óbreytt um nokkur ár. Árið 1895 eða 1896 mun Nes hafa verið löggiltur verslunarstaður og árið 1900 er íbúatalan orðin tæp 300, og fer svo stöðugt vaxandi. Í árslok 1910 er hún orðin 480, 1920 rúm 700, 1925 940, 1926 994 og 1927 1040.

Þegar litið er á þessar tölur, er auðsjeð, að vöxtur er orðinn jafn og stöðugur. Þessi mannfjölgun hefir orðið á tvennan hátt, bæði af innflutningi til bæjarins og svo af eðlilegum mismun á tölu fæddra og dáinna. Nú hin síðari árin hafa fæðingar verið um 40, en dauðsföll 4–10 á ári, og skapast þannig fjölgun, sem nemur 30–40 manns árlega, þótt enginn innflutningur ætti sjer stað. Þegar litið er á þetta og þessar tölur lagðar til grundvallar, lætur nærri að ætla, að 1930 verði íbúatalan orðin tvöföld við það, sem hún var 1920.

Með kauptún, sem er í svo hröðum vexti, verður löggjöfin vel að gæta þess að vera ekki alt of langt á eftir tímanum með heimildir til bætts skipulags.

Þá er næst að líta á fjárþörf sveitarfjelagsins til opinberra þarfa. Er þá rjett að athuga í því sambandi fjárhagsreikning þessa hrepps síðan 1913, er Neshreppi var skift úr Norðfjarðarhreppi og hann gerður að sjerstöku sveitarfjelagi. Eins og menn vita, gátu, samkvæmt sveitarstjórnarlögunum frá 1905, þau kauptún, sem höfðu 300 íbúa, krafist þess að verða sjerstakt hreppsfjelag. Mjer var það þá þegar ljóst, að það væri hin mesta rjettarbót fyrir kauptúnið að losast úr tengslum við hinn hluta hreppsins, og hreyfði jeg því fyrst 1908. En úr því varð ekki þá, vegna þess að í hinum hluta hreppsins var stærsti gjaldandinn í sveitinni, sem sje hvalveiðastöð. En smátt og smátt fóru augu manna að opnast fyrir því, að það mundi fara að styttast í veru þessa gjaldanda, og 1913 varð svo úr skiftingunni, og var hún framkvæmd á þann hátt, að við fjárskifti milli hreppanna var ekkert tillit tekið til þessa gjaldþegns, sem dvalið hafði í hreppnum síðustu 11 ár. Það kom í minn hlut að verða oddviti hreppsins 1913, og get jeg sagt það með nokkrum rjetti, að jeg hefi verið kunnugur fjárreiðum hans síðan og alt til þessa dags. Fyrsta reikningsárið, 1913–'14, var umsetningin 4000 kr., 1920–'21 40000, 1925–'26 70000, og frá fardögum 1926 og til ársloka 1927 140000 kr.

Þetta alt ber að sama brunni; það sannar hinn hraða vöxt kauptúnsins. Þegar reikningsumsetningin er orðin 100 þús. kr. á ári, þá . er reikningshald og gjaldheimta orðin svo umfangsmikið starf, að þess er ekki að vænta og það er ekki hægt að ætlast til þess, að lítt undirbúnir menn með ljelegum launum geti leyst það af hendi svo að vel sje.

Jeg vil bæta því við, að jeg tel það mæla með þessu frv., að árið 1920 var stofnaður sparisjóður í kauptúninu, og hefir hann eflst mjög síðan. Sjóðurinn var stofnaður 1. september 1920, en í árslok það ár voru innlög í hann orðin 11 þúsund kr. Við síðustu áramót voru innlögin orðin 150 þús. Er það að vísu ekki stór peningastofnun, en ákaflega mikið hefir hún bætt viðskiftalíf kauptúnsins nú síðustu árin. Auðvitað væri það mín heitasta ósk, að sjóður þessi væri ekki aðeins 150 þús., heldur 1 miljón og 500 þús. Þá yrði ekki á móti því mælt, að bærinn gæti staðið á eigin fótum fjárhagslega. En alt stendur til bóta, og mín trú er það, að stofnun þessi verði áður mörg ár líða aðalviðskiftastofnun kauptúnsins.

Jeg skal svo ekki þreyta hv. þdm. á lengra vaxtaryfirliti, en eitt skal jeg minnast á enn, sem í rauninni er mikið atriði í þessu sambandi, sem sje það fjárhagstjón, sem sýslufjelagið bíður við það, að Norðfjörður sje gerður að sjerstöku lögsagnarumdæmi út af fyrir sig. Það er nú fyrst, að það er mikið fje, sem Neshreppur er búinn að gjalda sýslusjóði Suður-Múlasýslu, en hinsvegar stendur þannig á, að hann getur ekki notið neinna fjárframlaga úr sýslusjóði, nema þeirra, sem beint eru ákveðin með lögum, sem eru aðeins útgjöld vegna berklavarnalaganna. En í sýslusjóð hefir hreppurinn greitt 7–9 þús. kr. árlega. Það verður því að líta á það líka, þegar athugaður er sá galli, sem þessu fylgir fyrir sýsluna, að það er eigi síður fjárhagslegt tjón fyrir kauptúnið að vera í tengslum við hana.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að taka fleira fram um þessi atriði að svo stöddu. Jeg hygg, að hver maður, sem hefir af eigin reynslu kynst ástæðum þessa kauptúns, hljóti að viðurkenna, að þau atriði öll, er jeg nú hefi tekið fram, sjeu rjett, og einnig, að þau sanni, að hjer er aðeins um sanngirniskröfu að ræða.

Þá vil jeg ennfremur benda háttv. deild á ummæli landlæknis og skipulagsnefndar, sem dvöldu á Norðfirði nokkurn tíma sumarið 1926, nefndin til að undirbúa skipulagsuppdrátt af kauptúninu og landlæknir í embættiserindum. En þau ummæli eru, að stofnun bæjarfógetaembættis á Norðfirði sje brýn nauðsyn og fylsta sanngirni.

Þá vil jeg víkja nokkrum orðum að þeim breytingum, sem meiri hl. allshn. hefir komið fram með við frv. Vil jeg fyrst geta þess, að frv. var borið undir einn af lögfræðingum þessa bæjar, sem jafnframt er prófessor í lögum við háskólann. Hann athugaði frv., aðallega frá formsins hlið, og fann ekkert verulegt við það að athuga. Jeg verð því að líta svo á, að frá þeirri hlið sje ekki ástæða til að gera neinar breytingar. En meiri hl. nefndarinnar hefir þó komið fram með nokkrar breytingar, sem allar skifta litlu máli, að einni undantekinni, er fjallar um launagreiðslu þessa embættismanns, ef til kæmi, að málið næði fram að ganga.

Fyrsta brtt. nefndarinnar er við 4. gr. frv. og gengur út á að koma fyrir launum væntanlegs bæjarfógeta á Norðfirði á svipaðan hátt og annara embættismanna. Er svo til ætlast, að byrjunarlaunin verði nokkuð lægri en frv. gerir ráð fyrir, og hækki svo á 10 árum upp í fulla hæð. Er þetta sett með hliðsjón af launum bæjarfógetans á Siglufirði. Í þessu sambandi vil jeg minnast á brtt. á þskj. 135, sem gerir ráð fyrir 1000 króna lægri byrjunarlaunum, og þar með líka 1000 kr. minni lokalaunum. Jeg skal nú viðurkenna, að ekki er ósennilegt, að nægja mundu lægri laun en jeg hefi tiltekið í frv., en þá aðeins með hliðsjón af þeim launum, sem greidd yrðu úr bæjarsjóði. En mjer finst tillagan ganga of langt. Annars vil jeg ekki deila frekar um þetta, en láta deildina skera úr við atkvæðagreiðsluna.

Þá er það brtt: 2, við 7. gr. frv., sem er þess efnis, að í stað „þegar“ komi: þá. Þetta þarf lítillar skýringar við, en veldur þó nokkurri efnisbreytingu, því að eins og frv. hljóðar nú má skilja sem svo, að þegar skuli fara fram kosningar, er einhver fulltrúi fer frá áður en kjörtímabil hans er út runnið, enda þótt kosningar standi alveg fyrir dyrum.

Þá kem jeg að þriðju breytingunni, sem er við 8. gr. Er það þá fyrst, að niður falli orðin í þriðju málsgrein „ef því verður við komið“. Því að ekki er nema sjálfsagt, að oddviti skýri fulltrúunum frá því á undan fundum, hver málefni komi fyrir. Síðari liður þessarar brtt. er leiðrjetting, að í stað „samþykkir“ komi: staðfestir. Það á betur við, þegar um stjórnarráðið er að ræða.

Þá er það fjórða breyting, sem sömuleiðis er leiðrjetting. Í frv. stendur, að bæjarstjórnin skuli gera tillögur um „sáttasemjara“, en það orð er nú orðið lögfest á alt öðru starfi, og því þykir rjett að nota heldur orðið sáttanefndarmenn.

Kem jeg þá að brtt, við 19. gr., þess efnis, að orðin „með öllum fylgiskjölum“ í niðurlagi greinarinnar falli niður. Þessi breyting er gerð samkv. bendingu frá minni hl. nefndarinnar í þá átt, að sending fylgiskjalanna væri í sjálfu sjer þýðingarlítil og gæti haft illar afleiðingar, jafnvel þær, að fylgiskjölin týndust.

Þá er það 6. brtt., við 22. gr. Hún skýrir sig sjálf, því að það er gefið mál, að vera verður stafur fyrir því í lögum, að ákveða megi sektir í reglugerðinni.

Loks er það sjöunda og síðasta brtt., við 23. grein, um það, hvenær lögin gangi í gildi. Það þótti gleggra að taka það fram í sjálfu frumvarpinu. Hinsvegar sjer stjórnin eftir sem áður um það, að lögin komi til framkvæmda. Orðalag frv., eins og það er nú, er hvorki eins viðfeldið nje eins heppilegt og við leggjum til.

sje jeg svo ekki ástæðu til að orðlengja þetta frekar, enda hygg jeg, að lengri umræður hafi ekki mikið að þýða. Það hafa verið lögð fram skýr rök og sanngjörn fyrir málinu.