13.04.1928
Neðri deild: 70. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1331 í B-deild Alþingistíðinda. (331)

1. mál, fjárlög 1929

Gunnar Sigurðsson:

Nefndinni er þetta kærkomið tilefni til að lýsa yfir því, að henni hefir þótt tilgangslaust, að málið kæmi frekar til umræðu, þar sem vegamálastjóri hefir lýst sig andvígan öllum breytingum á vegalögum, nema helst þeirri, er jeg hefi borið fram, það er brtt. um veginn frá Garðsauka inn Fljótshlíð að Teigi, og þaðan yfir Þverá og Aurana austur yfir Markarfljót. En jeg beygði mig þó fyrir meiri hl. nefndarinnar, og vænti jeg, að hv. þd. sje okkur þakklát fyrir að gera ekkert til þess, að þetta mál þvælist fyrir henni og tefji umræður dögum saman. Vegamálastjóri var sem sagt á móti öllum breytingum, en taldi þó, að taka mætti mína tillögu til athugunar til næsta þings.