28.03.1928
Neðri deild: 59. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3572 í B-deild Alþingistíðinda. (3310)

40. mál, bæjarstjórn í Neskaupstað í Norðfirði

Pjetur Ottesen:

Jeg vakti athygli á því við 1. umr., að það hlyti að reka að því víðar annarsstaðar en á Norðfirði, að betra skipulagi og eftirliti þyrfti að koma á í kauptúnum landsins.

Það leiðir vitanlega af sjálfu. sjer, að í mannmörgum kauptúnum liggur mjög mikill starfi í oddvita- og hreppstjórnarstörfum, en eins og þau störf eru launuð, er engin von, að menn geti offrað eins miklum tíma í þau og þyrfti, ef vel ætti að vera. Það er því töluvert alment mál að leysa úr því vandamáli, hvernig þeim störfum verði best fyrir komið.

Því hefir verið haldið fram, að það standi alveg sjerstaklega á með Norðfjörð í þessu efni, enda er það altaf vanaviðkvæðið, þegar slík frumvörp sem þetta eru borin fram, þótt færðar sjeu sönnur á, að eins standi á og víða annarsstaðar. Jeg skal strax benda á Akranes, sem jeg held, að sje fyllilega sambærilegt við Norðfjörð. Á Norðfirði eru íbúar um 1000, en um 1200 á Akranesi, og mannfjöldi vex þar hröðum fetum. Sú breyting hefir orðið þar á síðustu árum, að aðstaðan til útgerðar heima fyrir hefir batnað ákaflega mikið, þar sem nú er hægt að stunda útgerð að heiman á öllum tímum árs, vegna breytinga, sem gerðar hafa verið til mikilla bóta á bryggjum og lendingu.

Jeg held því, að það sje mjög lítill munur á þessum tveim stöðum að þessu leyti, því að þótt ef til vill komi nokkru fleiri skip til Norðfjarðar, þá er mannfjöldinn meiri á Akranesi.

Það er því fullkomin ástæða til þess að koma hjer á ódýru og heppilegu skipulagi þessara mála, og því álít jeg mjög heppilegt að vísa málinu til stjórnarinnar til undirbúnings, eins og hjer er fram komin till. um.

Jeg veit ekki betur en að kaupstaðirnir vaxi upp á mjög skömmum tíma, eftir því sem skilyrði eru fyrir hendi. Samkvæmt þeim upplýsingum, sem jeg hefi fengið, þá var til skamms tíma mjög fátt fólk á Norðfirði, en svo hefir þetta breytst á mjög skömmum tíma. Ef það verður nú samþykt, að sett verði á stofn bæjarfógetaembætti á Norðfirði, sem jeg tel nú allar horfur á að verði, þá sýnist mjer því um leið slegið föstu, að þau kauptún, sem svipað stendur á um, eigi einnig að fá sömu úrlausn þegar að þeim kemur. En það yrði vitanlega mjög dýrt, og þótt lág laun sjeu sett í byrjun, þá leitar það undireins jafnvægis, sbr. Siglufjörð. Og eftir þeim upplýsingum, sem jeg hefi fengið, þá er bæjarstjórafyrirkomulagið mjög dýrt, og verður því mikill baggi lagður á bæjarfjelagið og ríkissjóð með þessum nýju embættum.

Því var haldið fram í hv. Ed., að enginn útflutningur væri frá Akranesi, en jeg get bent á, að á síðasta ári voru fluttar út vörur frá Akranesi fyrir um 1 miljón kr., og eftir því sem á horfist um vöxt og viðgang þess kauptúns, þá geri jeg ráð fyrir, að útflutningurinn vaxi einnig hröðum fetum.

Hv. frsm. meiri hl. taldi nauðsynlegt að láta Norðfjörð fá bæjarstjórn og bæjarstjóra vegna heilbrigðiseftirlits og reglu í byggingum. Þetta út af fyrir sig er ekkert aðalatriði í þessu máli. Hv. frsm. hefir ekki athugað það, að til eru lög um sjerstaka nefnd, sem sjer um skipulag kauptúna um alt land. Og það mun vera búið að ákveða skipulagið á Norðfirði eins og á Akranesi, og sjerstök heilbrigðisreglugerð mun vera til fyrir Norðfjörð. Og það er óþarfi að blanda því inn í þetta mál, sem landlæknir segir um þessi atriði, og segja, að það sje þungt á metunum í þessu máli.

Viðvíkjandi hinum miklu skipakomum til Norðfjarðar, sem hjer er lagt mjög mikið upp úr, þá get jeg bent á annað kauptún, sem sje Þingeyri við Dýrafjörð, þar sem eru mjög miklar skipakomur, en þar er aðeins hreppstjóri, og hefir ekki verið kvartað undan, að það starf væri ekki vel af hendi leyst.

Jeg held, sem sagt, að þessi vandkvæði megi leysa með annari og ódýrari skipun. Það er að vísu ekki von, að hreppstjórar geti offrað miklum tíma til þessa eftirlits, með þeim lágu launum, sem þeir hafa. En það hafa komið fram tillögur um að fækka sýslumannaembættum og láta hreppstjóra gegna ýmsum störfum þeirra, öðrum en dómarastörfum, og það hafa engar sönnur verið færðar á það, að þetta sje ekki framkvæmanlegt. Jeg held, að þær tillögur sjeu í fullu samræmi við það tal og þá hugsun, sem verið hefir um það að reyna að fækka opinberum starfsmönnum. En það verð jeg að telja nauðsynlega ráðstöfun til þess að ljetta eitthvað á ríkissjóði.

Jeg held þess vegna, að það sje mjög misráðið að samþykkja þetta frv., því að með því er lögð mjög þung byrði bæði á ríkissjóð og viðkomandi bæjarfjelag, og að það sje gert án þess að sannreynt sje, hvort ekki megi leysa þessi vandkvæði á öðrum og heppilegri grundvelli. Og jeg býst við því, að það geti farið svo hjer, að nauður beri til að ljetta gjöldum af ríkinu. Þá skilst mönnum sennilega, að rjettara hefði verið að hrapa ekki að afgreiðslu þessa máls án þess að athuga aðrar og ódýrari leiðir. Það er augljóst mál, að sá tími kemur, að ekki verður undan komist að athuga leiðir til þess að lækka hin lögboðnu gjöld. Er nú teflt nokkuð djarft í því að reyna á gjaldþol manna, þegar tekið er tillit til þess, hve nauða lítið fer til annars en að halda uppi opinberri starfrækslu. Væri þess þó full þörf að leggja fram ríflegar en nú reynist kleift til verklegra framkvæmda.

Vona jeg að endingu, að hv. deild taki þetta til alvarlegrar íhugunar og gefi frest um úrslit máls þessa til næsta þings, svo hægt sje a. m. k. að gera tilraun til að finna aðra og heppilegri leið.