28.03.1928
Neðri deild: 59. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3576 í B-deild Alþingistíðinda. (3311)

40. mál, bæjarstjórn í Neskaupstað í Norðfirði

Frsm. meiri hl. (Gunnar Sigurðsson):

* Hv. frsm. minni hl. er fljótsvarað, því að okkur ber lítið á milli, enda mælti hann af sanngirni. Það, sem skilur meiri hl. og minni hl., er aðeins það, að meiri hl. telur ekki, að það fyrirkomulag, sem hv. frsm. minni hl. talar um, geti átt við um Norðfjörð. En hann felst á, að millistig það, sem um hefir verið rætt, geti komið að notum víða annarsstaðar.

Það, sem einkum gefur Norðfirði sjerstöðu í þessu efni — og vil jeg með því svara hv. þm. Borgf. —, eru hinar miklu siglingar þangað. Eftir þeim upplýsingum, sem jeg hefi aflað mjer, komu til Norðfjarðar árið 1924 alls 164 skip, en 1925 voru þau 280. sjest af þessu, að þarna ríður mjög á tvennu, nefnilega, að ríkið eigi þar öruggan trúnaðarmann, sem ekki láti bera rjett þess fyrir borð, og að ávalt sje lögreglustjóri til taks. Er miklu meiri þörf þessa hvorstveggja á Norðfirði en á Akranesi, en að því mun jeg víkja síðar.

Það tek jeg fram, að jeg vil alls ekki gera lítið úr því millistigi, sem hv. þm. Borgf. aðhyllist. Aðeins álít jeg, að það geti ekki átt við á Norðfirði. Það er ekki óeðlilegt, að hv. þm. renni blóðið til skyldunnar, þar sem Akranes er, og þess gæti í afstöðu hans til þessa máls. En jeg tók tillit til Akraness í framsöguræðu minni, þar sem jeg ljet þau orð falla, að þegar íbúar einhvers þorps væru orðnir fleiri en 1000, væri gamla fyrirkomulagið óhafandi — líka á Akranesi. En á Akranesi og Norðfirði er mjög mikill munur, sjerstaklega um siglingar. Að vísu er allmikið flutt út frá Akranesi, en lítið inn. Þá hafa þessi tvö kauptún mjög ólíka aðstöðu til þess að ná til yfirvalds. Hv. þm. gerir meira úr íbúatölu Akraness en er, því að munurinn er eitthvað á annað hundrað. Og þó að því fari fjarri, að jeg óski, að íbúum Akraness fækki, hygg jeg, að fólki muni fjölga meir á Norðfirði en þar í náinni framtíð. Þó að Seyðisfjörður hafi ágæta höfn, hefir íbúum hans fækkað hin síðari ár jafnframt því, sem Norðfjörður hefir aukist. En þetta er af því, að Norðfjörður liggur svo sjerstaklega vel við siglingum. En jeg er sammála hv. þm. Borgf. um að breyta til á Akranesi. Þetta gamla fyrirkomulag með lágt launuðum mönnum, sem eiga að vinna þessi störf í aukavinnu, er gersamlega óhafandi, bæði vegna mannanna sjálfra, sem gegna þeim, og þó öllu fremur vegna staðanna, sem búa við þetta skipulag. En þá kemur til greina sú leið, sem minni hlutinn bendir á. Og geri hv. þm. sig ánægðan með þessháttar rjettarbót handa Akranesi, mun jeg fylgja henni. En á Norðfirði á hún ekki við.

Hv. þm. Borgf. ber saman Þingeyri og Norðfjörð. En það nær engri átt, þar sem Þingeyri hefir ekki nema á 4. hundrað íbúa.

Að fengnum upplýsingum hjá hv. 2. þm. S.-M. veit jeg, að ummæli hv. þm. Borgf. um skipulagsuppdráttinn eru ekki með öllu rjett. Og hann hefir misskilið það, sem jeg sagði um orð landlæknis. Þar var náttúrlega átt við framkvæmdirnar sjálfar. Samþyktir eru að litlu gagni, ef ekkert er gert til að framkvæma þær. Þetta benti landlæknir rjettilega á. Og sjeu engir til að sjá um framkvæmdirnar, fer vitanlega alt í ólestri. Um þetta eru þeir mjer sammála, hv. frsm. minni hl. og hv. þm. Borgf., því að þeir álíta, að þegar þorp eru orðin nokkuð fjölmenn, sje gamla skipulagið úrelt.

Hv. þm. Borgf. endaði ræðu sína á því að telja líklegt, að neyðin muni reka til þess að draga úr starfsmannahaldi ríkisins. Mjer þætti mjög æskilegt að fækka starfsmönnum, ef hægt væri. En jeg vil benda á, að ekki á að byrja á fækkuninni á þeim stöðum, þar sem fólki fer fjölgandi. Á það hefir verið bent, að sumstaðar fari fólki fækkandi. En á Norðfirði er ástæða til að ætla, að því muni fjölga. Annars vil jeg benda á það, að oft hafa verið uppi tillögur um að fjölga sýslumönnum, en ekki tekist, og er jeg í vafa um, að slíkar ráðstafanir sjeu framkvæmanlegar.

Sje jeg svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um málið að þessu sinni.

(*Ræðuhandr. óyfirlesið.)