28.03.1928
Neðri deild: 59. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3584 í B-deild Alþingistíðinda. (3315)

40. mál, bæjarstjórn í Neskaupstað í Norðfirði

Frsm. meiri hl. ( Gunnar Sigurðsson):

* Jeg vil byrja á hæstv. forsrh. Mjer fanst hann geta unað vel við mínar undirtektir. Hann sagði, að nefndin hefði ekki gert neinar brtt., sem rjett er. Og hún gerir þær brtt., sem fram hafa komið, að engu kappsmáli.

Mjer þótti leitt að heyra það frá hæstv. forsrh., að mig brysti skilning á þjóðernismálum. Jeg er þjóðrækinn, en hitt er satt, að „humbugs“-hlið þjóðrækninnar liggur mjer fjarri, eins og þegar menn t. d. vilja fara að taka upp fornbúninga. Jeg játa að vísu, að þetta er ekki alveg sambærilegt, en þó er það skylt því að vilja taka upp eldgömul nöfn. (MG: Nafnið er lifandi). Jeg vil endurtaka það, að jeg hygg, að það sje mjög erfitt að fá menn til þess að kalla t. d. Ísafjörð Eyri við Skutulsfjörð.

Þá vildi jeg víkja nokkrum orðum að háttv. þm. Borgf. Honum þótti það sárt, sem jeg sagði um Akranes, og vildi rökstyðja það með vitnisburði þeirra, sem væru þar kunnugri en jeg. En hann hefir ekki afsannað neitt af því, sem jeg sagði um afstöðumismun þessara tveggja kaupstaða. Eftir sögu og skýrslum ábyggilegra manna er flutt út frá Norðfirði fyrir 2 milj. árlega, en af Akranesi fyrir 1 milj., eftir því, sem hv. þm. Borgf. segir. Mjer er kunnugt um aðflutninga til Akraness. Jeg hefi verið skemstan tíma í Rangárvallasýslu. (PO: Þm. er þó bóndi þar). Það er rjett; jeg hefi verið þar bóndi í fjögur ár, en aðeins með annan fótinn, og oft hjer í Reykjavík og á Akranesi, meira að segja heima hjá þm. sjálfum. Og mismunurinn er mikill. Fram á síðustu ár hafa mestallar vörur verið fluttar frá Akranesi til Reykjavíkur, og er svo enn að miklu leyti. Til Norðfjarðar koma árlega um 200 fiskiskip og útgerðin þar stenst fyllilega samanburð við Akranes. Þá þarf ekki að rökstyðja það, að verra sje að ná til yfirvalds á Norðfirði en Akranesi. Það vita allir. (PO: Hvað er það langt?). Fjórar stundir. (PO: svipað á Akranesi). Og auk þess er yfir tvær rastir að fara. (PO: Milli Akraness og Borgarness er einhver hin versta siglingaleið, sem hugsast getur). Mjer er sama. Annars tók jeg það fram, að jeg vildi ekkert hafa á móti því, að Akranes fengi kaupstaðarrjettindi. En jeg vona, að deildin sjái, að það stendur sjerstaklega á með þetta kauptún og að Norðfjörður verður að sjálfsögðu að vera í fyrstu röð.

(*Ræðuhandr. óyfirlesið.)