16.02.1928
Efri deild: 24. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3588 í B-deild Alþingistíðinda. (3324)

92. mál, síldarbræðslustöðvar

Flm. (Erlingur Friðjónsson):

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að meira og víðtækara ólag er á atvinnurekstri þeim, sem nær til síldveiðanna hjer við land, en það, sem um var talað í sambandi við einkasölufrumvarp það, sem hjer var til umræðu áðan.

Það er nefnilega alkunnugt, að meiri hl. þeirrar síldar, sem veidd er hjer við land, er seld útlendingum til bræðslu; fer því hagnaðurinn, sem af bræðslunni er, allur til útlendinga. Til þess að ráða bót á þessu, er hjer farið fram á, að bygðar verði að tilhlutun ríkisstjórnarinnar síldarbræðslustöðvar á Norðurlandi. En þar sem ekki er farið fram á að verja í þessu skyni nema 1 milj. kr., ræður af líkum, að ekki getur orðið um margar stóðvar að ræða. Hygg jeg, að þessi vísir gæti orðið til þess að auka verð síldarinnar, því að útlendingar þeir, sem síldina kaupa, ráða algerlega verði hennar.

Reynsla undanfarinna ára bendir fyllilega í þá átt, að nauðsyn sje á því að ljetta undir með þeim mönnum, sem þessa atvinnu stunda, með að gera sjer verð úr þeirri miklu síld, sem hjer er við land á sumrum og hægt er að veiða. Síðastliðið sumar kom það fyrir, að sum skip urðu að bíða dögum saman, og það munu jafnvel dæmi til þess, að skip urðu að bíða upp undir viku eftir því að fá sig afgreidd, vegna þess að svo mikið barst að af síld, að bræðslustöðvarnar höfðu ekki við að afgreiða. Þegar mikið berst á land af síld á degi hverjum, þá fyllist fljótlega það rúm, sem stöðvarnar hafa, og það hefir verið svo, að þær, sem flestar eru eign útlendra manna, hafa látið útlend skip ganga fyrir, svo að Íslendingar hafa orðið að knjekrjúpa þeim til þess að fá sig afgreidda. Þetta ástand þarf að laga, og þetta frv., sem hjer liggur fyrir, gengur í þá átt.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta mál við þessa umr., nema eitthvað það komi fram við umr., sem nauðsyn sje að svara. Jeg óska svo að endingu, að frv. verði að þessari umr. lokinni, vísað til 2. umr. og sjútvn.