16.02.1928
Efri deild: 24. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3589 í B-deild Alþingistíðinda. (3325)

92. mál, síldarbræðslustöðvar

Fjmrh. (Magnús Kristjánsson):

Vegna þess, að jeg hefi áður haft dálítil afskifti af samskonar máli og þetta er, ætla jeg að segja um það nokkur orð. Það ætti að vísu að vera óþarfi, því að jeg álít, að það geti ekki komið annað til mála en að það fái að fara til 2. umr. og nefndar. Það, sem jeg vildi sjerstaklega taka fram, er í stuttu máli þetta: Frv. það, sem hjer hefir verið til umr. í dag í þessari hv. deild, stendur að mínu áliti í svo nánu sambandi við þetta mál, að það er varla hægt að tala um annað nema menn komi einnig að hinu. Og jeg verð að segja það, að jeg teldi það lítið happ, að frv. um síldareinkasölu kæmist í gegnum þingið, nema þetta frv. væri einnig samþ. Það er kunnugt, að fram að þessu hefir verið svo ástatt um það mál, sem þetta frv. fjallar um, að allar bræðslustöðvar hjer á landi hafa verið eign útlendra manna. Afleiðing þess hefir verið sú, að þeir menn hafa getað skapað það verð síld til bræðslu, sem þeim hefir þótt við eiga. En það verð hefir verið svo lágt, að menn hafa ekki með nokkru móti sjeð sjer fært að gera út skip til síldveiða með það fyrir augum að selja síld til bræðslu fyrir það verð. Þess vegna hafa menn leiðst út á þá braut að salta meira eða minna af eigin framleiðslu til útflutnings, og það er kunnugt, hversu misjafnlega heppilegt það hefir orðið. Mitt álit er það, að hvort sem stöðvarnar yrðu fleiri eða færri, þá sje það aðalskilyrði, að þær komist upp, til þess að hægt sje að hagnýta það verðmæti, sem á land berst. Því að hitt er stórtjón, að veitt sje og hrúgað á land, kannske vitandi það, að mikill hluti vörunnar verði ekki einasta verðlaus, heldur geti jafnvel bakað framleiðendum stórtjón. Það er því ekki önnur leið fyrir hendi en að breyta þessu svo, að síldin verði hagnýtt á þennan hátt. Þá fyrst getur það orðið áhættulítið að leggja út í síldarsöltun fyrir þá, sem það vildu reyna.

En það eru fleiri hliðar á þessu máli. Jeg hefi hjer farið út í þá fjárhagslegu hlið málsins, sem að útveginum snýr, sýnt, hvers hann þarfnast, ef hann á ekki að verða þeim til tjóns, sem hann stunda, og landinu í heild. Hin hlið málsins, sem má kalla nokkurskonar sjálfstæðismál, er sú, að við sjeum sjálfir færir um að annast þann hluta starfsins við framleiðsluna, sem erlendir menn hafa hingað til haft á höndum; menn, sem hafa verið svo framtakssamir, að þeir hafa meira að segja flutt sig úr öðru landi til þess að stunda þetta starf, sem þeir hafa álitið svo arðvænlegt. En við, sem höfum haft öll skilyrði betri en þeir, höfum ekki treyst okkur til þess að keppa við þá að nokkru leyti, heldur má tvímælalaust segja, að þeir hafi haft leyfi til þess að vera einir um það að ausa af þessari óþrjótandi auðsuppsprettu vorri; jeg leyfi mjer að segja óþrjótandi, því að það væri hún, ef hún væri rjettilega notuð.

Það hefir að vísu sjaldan verið kvartað yfir þessu ástandi, enda hefir ef til vill aldrei kveðið eins ramt að ólaginu eins og síðastliðið sumar. Jeg verð að segja það, að mjer rann til rifja, þegar jeg kom til Siglufjarðar í sumar og sá með eigin augum, hvernig þar var ástatt í þessu efni. Það leit í fyrstu út fyrir hið mesta góðæri fyrir sjávarútveginn. Veðurblíða og framúrskarandi aflabrögð virtust ætla að fara saman. En þetta stóð ekki lengi, því að þegar fyrstu dagana kom það í ljós, að þessar bræðslustöðvar, sem til voru, annaðhvort gátu ekki eða vildu ekki taka á móti þeirri síld, sem á land barst, af þeim, sem þær voru bundnar samningum við um bræðslu síldar. Það var því ekki annað að gera fyrir þá, sem samningum voru bundnir, en annaðhvort að bíða eftir afgreiðslu dögum saman, eða kannske heila viku, eins og kom fyrir, eða þá að moka aflanum í sjóinn. Það munu allir viðurkenna, að þetta er alvarlegt ástand. En það, sem kannske er allra tilfinnanlegast í þessu máli, er það, að íslensku skipin urðu að gerast hornrekur fyrir þeim útlendu, sem oft og tíðum virtust njóta einhverskonar forrjettinda um afgreiðslu. En eins og jeg hefi þegar sagt, var oft ekki annað að gera fyrir þá, sem með innlendu skipin höfðu að gera, en annaðhvort að liggja og bíða þangað til síldin var grotnuð niður og orðin úldin, eða kasta henni þegar í sjóinn.

Jeg verð að segja það, að þegar jeg varð þessa var, datt mjer í hug vísa, sem þó kannske þykir ekki eiga við í þessu máli, en ætti kannske betur við um landbúnaðinn, þegar hann er í nauðum staddur. Jeg ætla þó, með leyfi hæstv. forseta, að hafa hana yfir hjer, því að mjer finst þetta tvent a. m. k. hliðstætt. Ungur maður, sem þektur er af fornsögum vorum, –hann hefir verið nefndur Víga-Glúmur — kom heim til átthaga sinna eftir langa fjarveru. Sá hann þá, að nágrannarnir höfðu þröngvað mjög kosti móður hans, meðan hann var burtu. Skáldið lætur honum verða þessi vísa af munni, er hann sá vegsummerki, og mjer datt einmitt sama í hug, þegar jeg sá, hversu ástatt var um okkar hag í þessu efni, sem jeg hefi nú rætt um. Vísan er svona:

„Þokað er grænum garði,

get jeg sjeð það bert,

meira en mig of varði

minn um hluta skert,

Þverár frjóvri ekru á

þrælar verstu varmenna

Vitazgjafa sá“.

Hvort sem þessi lýsing á við eða ekki, þá finst mjer, að hún eigi við þannig, að við höfum verið hornrekur útlendinga á þessu sviði. En það megum við auðvitað ekki vera með nokkru móti, ef við eigum að geta talist menn með mönnum.

Jeg verð því að halda því fram, þótt undarlegt kunni að virðast, að hjer sje um að ræða eitt af okkar meiri háttar sjálfstæðismálum. Þess vegna vona jeg, að þetta frv. fái góðar undirtektir.