05.03.1928
Efri deild: 39. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3605 í B-deild Alþingistíðinda. (3330)

92. mál, síldarbræðslustöðvar

Frsm. (Erlingur Friðjónsson):

Jeg ætla að byrja með því að segja mína skoðun á því, hver eigi að eiga verksmiðjuna. Jeg álít, að ríkið eigi að eiga hana og hafa sinn eðlilega hag af. Það ætti að verða til að hækka verðið á síldinni, sem hefir verið óeðlilega lágt, þegar hún er lögð inn til bræðslu. Hefi jeg bent á þetta áður og skal því ekki fjölyrða um það nú.

Jeg ætla þá að víkja að háttv. 3. landsk. þm., sem hefir gert áætlun fyrir ríkisins hönd um byggingu og rekstur síldarverksmiðju. Hann efast um, að hægt sje að gera ráð fyrir 22 smál. af olíu úr 1000 málum af síld, og vill halda sjer við þær 19 smálestir, sem hann fylgdi í áætlun sinni. Hann segist byggja á síðasta sumri, en viðurkennir, að síldin hafi verið í magrara lagi. Að þessu leyti getum við verið sammála; það fást ekki heldur 22 tonn af olíu úr 1000 málum síldar í öllum árum. Jeg byggi á eigin reynslu og um leið á því, að útgerðarmaður, sem lagt hefir fyrir þingið nú tilboð um að reisa verksmiðju, gengur líka út frá þessu sem meðallagi. En mína reynslu hefi jeg frá því að jeg starfaði við eina síldarverksmiðju, að sönnu með líka aðstöðu til athugunar á þessu atriði eins og óbreyttur verkamaður.

Enn er það eitt atriði, sem styrkir mig í þeirri trú, að hv. 3. landsk. sje óþarflega varkár í áætlun sinni. Síðastliðið haust, þegar útgerðarmenn á Norðurlandi gátu ekki komið síldinni í bræðslu hjer, buðu þeir hana í Noregi, og Norðmenn vildu greiða 14 krónur fyrir málið komið til Noregs. En það varð aldrei úr, að færi nema eitt skip með síld til Noregs. Útbúnaður var illur og vitanlega fór það ekki vel með síldina, að hún var flutt umbúðalaus í lest skipsins. En sem sagt var boðið í síldina 4 kr. meira en hv. 3. landsk. heldur, að gera megi ráð fyrir, ef gengið er út frá því, að kostnaðurinn við bræðsluna sje sá sami í Noregi og hjer. Tvö önnur skip fóru að vísu af stað, en þau fórust bæði. svo að þar fjekkst engin reynsla. Annað fórst við Langanes og hitt kom aldrei fram.

Þetta voru nú athugasemdir við síðustu ræðu hv. 3. landsk. En jeg er ekki búinn að gera allar mínar athugasemdir við áætlun hans.

Jeg skal þá fyrst nefna það, að hv. 3. landsk. hefir í áætlun sinni um rekstur síldarverksmiðju reiknað 2% umboðslaun af mjöli og olíu, sem verksmiðjan framleiðir. Þessi umboðslaun verða 377 kr. á hver 1000 mál síldar. Jeg sje ekki ástæðu til að reikna umboðslaun af sölu mjöls og olíu, þar sem fyrir framkvæmdarstjórn og skrifstofuhald er reiknað 33 þús. og verð olíunnar og mjölsins er reiknað cif. útlendri höfn. Það verður ekki betur sjeð en að stjórn verksmiðjunnar geti auðveldlega annað því, sem ætlast er til, að umboðslaunin sjeu greidd fyrir.

Þá hefir hv. 3. landsk. einnig reiknað lögákveðið útflutningsgjald. Það er að sönnu rjett, ef um einstaklingsrekstur er að ræða, en fyrir ríkið er útflutningsgjaldið eins og hver annar hagnaður af fyrirtækinu, þar sem við síldarverksmiðjuna mundi aukast framleiðsla á síldinni og útflutningsgjaldið í þessu tilfelli verða nýjar, auknar tekjur fyrir ríkissjóðinn. Jeg get því ekki fallist á að telja útflutningsgjaldið kostnað við rekstur verksmiðlunnar, heldur tekjur af fyrirtækinu.

Jeg sje ekki heldur neina ástæðu til þess að reikna umbúðir, poka og olíuföt með smásöluverði. Að sjálfsögðu er hægt að fá slíkar vörur ódýrari en hv. 3. landsk. áætlar. Jeg ætla þó að ganga framhjá að gera sjerstaka athugasemd við þetta of háa verð á umbúðunum og ýmsu fleiru í áætluninni, nema sjerstakt tilefni gefist til þess.

Þá kem jeg að því atriðinu í áætlun hv. 3. landsk., sem jeg er að sönnu ekki óánægður með að eiga kost á að leiðrjetta fyrir hann, en sem því miður gefur ástæðu til að álíta, að nokkuð mikið hafi verið kastað höndunum að samningu þessarar áætlunar.

Á bls. 27 reiknar hv. 3. landsk. út verð 19 smálesta af síldarolíu á 505 kr. smálestina, og mjer og sennilega öðrum til mikillar undrunar fær hann ekki út nema 8585 kr. — Hvert meðalgreint skólabarn hefði þó að sjálfsögðu fengið 9595 kr. út úr því dæmi, ef það hefði verið spurt, hvað 19 sinnum 505 krónur væru margar krónur.

Jeg gat þess áðan, að jeg væri ekkert óánægður með það, að eiga kost á að leiðrjetta hjá hv. 3. landsk. útkomu þessa dæmis. Jeg skal segja frá því strax, hvers vegna mjer er það sönn ánægja að leiðrjetta þetta mjög svo auðvelda dæmi fyrir hann. Hv. 3. landsk. er að reikna út tekjur af hverjum 1000 málum síldar, og honum reiknast þær, þegar búið er að breyta þessum 1000 málum í olíu og mjöl, 16145 kr., en hann reiknar tekjurnar af olíunni úr þessum 1000 málum 1010 kr. minni en þær eiga að vera, af því að hann hefir reiknað dæmið skakt. Afleiðingin af þessu er sú, að á áætluninni er óeyddur fjársjóður, sem nemur kr. 1.01 á hvert mál síldar, sem inn í verksmiðjuna kemur, og myndast af þessu hreinn hagnaður af rekstri verksmiðjunnar, sem nemur til dæmis á 60 þús. málum 60600 kr. — Hagnaðurinn af síldarverksmiðjunni verður því nálega helmingi hærri, þegar búið er að leiðrjetta reikningsskekkju hv. 3. landsk., en hann hefir fengið út í áætlun sinni.

Jeg hefi því þetta við áætlun hv. 3. landsk. að athuga, og vil jeg biðja hann að viðurkenna það hjer í hv. deild, svo að með hans góða samþykki sje hægt að skila áætlun hans út úr þinginu, leiðrjettri til mikilla bóta frá því, sem hún var, þegar hún kom inn í þingið:

1. Að hann færir á áætluninni umboðslaun, sem telja má ástæðulaust að reikna.

2. Að hann færir útflutningsgjald af útfluttum vörum verksmiðjunnar henni til gjalda, en þar sem hjer er um ríkiseign að ræða, er útflutningsgjaldið, sem greitt er í ríkissjóð, tekjur af verksmiðjunni.

3. Að hann reiknar skakt einn tekjupóstinn um 1010 kr., en það veldur því, að í stað þess að hann telur hagnað verksmiðjunnar 1 kr. 4½ e. af hverju máli á fyrstu 60 þús. málunum, sem verksmiðjan vinnur úr, verður hagnaðurinn 2 kr. 5½ e.

4. Að hann hefir reiknað 3 smálestum minni olíu í hverjum 1000 málum síldar en viðurkent er af öllum, sem þekkja til og vilja segja satt frá, að er meðal-olíuframleiðsla.

Jeg ætla þá að setja hjer upp dæmi um hagnað af síldarverksmiðju eins og jeg tel, að það eigi að vera, bygt á því, sem sagt er hjer að framan. Ef unnið er úr 60 þús. málum síldar, er hagnaðurinn þessi:

1. Ofreiknuð umboðslaun af 3. landsk. 22620 kr.

2. Ofreiknað útflutningsgjald af sama 21600 kr.

3. Leiðrjetting á reikningi hv. 3. landsk. 60600 kr.

4. Of lágt áætluð olía 76800 kr. Leiðrjetting alls 181620 kr. Áætlaður hagnaður af hv. 3. landsk. 62700 kr. Áætlaður hagnaður alls 244320 kr., eða rúmlega 4 krónur á hvert mál síldar, sem verksmiðjan vinnur úr.

Hv. 3. landsk. hefir gert áætlun yfir vinslu 100 þúsund mála af síld. Jeg ætla til fróðleiks að leiðrjetta þá áætlun á sama hátt og jeg hefi gert með áætlun 60 þús. málanna.

Ef unnið er úr 100 þús. málum af síld, yrði hagnaðurinn þessi:

1. Ofreiknuð umboðslaun (rúmlega laun allra ráðherranna) 37700 kr.

2. Ofreiknað útflutningsgjald 36000 kr.

3. Leiðrjetting á reikningi háttv. 3. landsk. 101000 kr.

4. Of lágt reiknuð olía 128000 kr.

Leiðrjetting alls 302700 kr.

Áætlaður hagnaður af hv. 3. landsk. 196500 kr.

Hagnaður alls 499200 kr., eða tæpar 5 kr. á hvert mál síldar.

Jeg ætla að láta sitja við þetta í bili og sjá, hvað hv. 3. landsk. vill fallast á marga pósta, sem jeg nú hefi bent honum á.