05.03.1928
Efri deild: 39. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3613 í B-deild Alþingistíðinda. (3332)

92. mál, síldarbræðslustöðvar

Fjmrh. (Magnús Kristjánsson):

Jeg var svo óheppinn, að jeg gat ekki verið viðstaddur umræður þær, sem nú hafa farið fram, en eftir því, sem jeg get ráðið af því, sem fram er komið, hygg jeg, að hv. 3. landsk. sje í sjálfu sjer mjög hlyntur því, að hafist verði handa og því fyrirtæki, sem frv. gerir ráð fyrir, verði komið á stofn. Hinsvegar þykir hv. 3. landsk. varhugavert, ef slík stofnun yrði að einhverju leyti rekin á þann hátt, að kalla mætti ríkisrekstur. Mjer þykir þetta óþarflega mikil viðkvæmni hjá hv. þm., því að við vitum allir, að við erum ekki hreinir af því, að hjer eigi sjer stað ýmiskonar ríkisrekstur, og geti orðið framvegis.

Mig furðaði á því, að hv. 3. landsk. skyldi vilja halda því fram, að svör mín við fyrirspurn hans hefðu verið loðin eða óljós. Jeg benti hv. þm. á þrjár leiðir, sem allar væru vel framkvæmanlegar og allar stefndu að sama marki, en það væri aðalatriðið, að markinu yrði náð. Jeg gat þess ennfremur, að jeg mundi sætta mig við hverja leiðina, sem tekin yrði. Jeg þykist því ekki hafa gefið tilefni til, að hv. þm. þurfi að fráfælast það að veita frv. sinn stuðning, enda mundu hans áhrif ná svo langt, að hann gæti komið að brtt. síðar meir, ef honum þætti lífsnauðsyn til bera. En jeg vil taka það skýrt fram, að jeg álít ekki heppilegt að fara að gera þetta atriði að neinu sjerstöku deiluefni eins og nú er ástatt; það gæti leitt til þess, að móti frv. skapaðist andúð, svo að það næði ekki fram að ganga.

Annars get jeg lýst yfir því, háttv. 3. landsk. til geðs, að jeg býst við, að jeg gæti sætt mig við hverja sem væri af þessum leiðum. En jeg myndi verða eindregið á móti tillögu, sem færi í þá átt að binda þetta alveg við rekstur einstakra manna, en þó að gert sje ráð fyrir, að það gæti átt sjer stað, að einstaklingum væri falinn þessi atvinnurekstur, hefi jeg ekkert við að athuga, því að jeg tel alls ekki ómögulegt, að það gæti komið til mála; þó því aðeins, að ríkissjóður fengi upp borinn allan sinn kostnað, ekki aðeins framlag og stofnkostnað, heldur og líka vexti og hvað eina, sem honum bæri með rjettu.