23.03.1928
Neðri deild: 55. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3627 í B-deild Alþingistíðinda. (3350)

92. mál, síldarbræðslustöðvar

Frsm. minni hl. (Ólafur Thors):

Við athugun þessa máls er fyrst að því að spyrja, hvort Sjávarútvegsins vegna sje þörf á, að reistar sjeu í bráðina fleiri bræðslustöðvar hjer á landi. Jeg álít, að ef þær stöðvar, er fyrir eru, væru eign Íslendinga, nægðu þær fyllilega þörfum landsmanna, en með því að flestar þeirra eru eign erlendra manna, sem til þessa hafa einungis gætt eigin hagsmuna, höfum við minnihl.menn getað aðhylst, að frv. þetta næði fram að ganga, ef brtt. okkar verða samþ.

Tillögur okkar eru þær, að í stað þess, að stöðvarnar verði stofnaðar og starfræktar fyrir reikning ríkissjóðs, þá hafi ríkissjóður þau ein afskifti af málinu, að hann útvegi útvegsmönnum fje til slíks starfa, ef þeir mynda með sjer samlag í því augnamiði og geta sett nægar tryggingar fyrir lánunum.

Teljum við fullvíst, að ekki standi á útgerðarmönnum um fjelagsmyndun, en geti þeir ekki sett tilsettar tryggingar, getum við sætt okkur við þá bráðabirgðaráðstöfun, að ríkið stofni og starfræki stöðvarnar, en þó því aðeins, að starfrækslan verði með alveg sjerstökum hætti, þeim, að ríkið kaupi ekki síldina, en taki hana aðeins til bræðslu af útgerðarmönnum fyrir þeirra reikning og á þeirra áhættu.

Rekstur slíkra stöðva getur verið mjög áhættusamur, og það er sjálfsagt, að sá, sem nýtur góðs af stofnun þessara stöðva, beri einnig áhættuna af þeim, eigi síst þegar svo er sem hjer er, að með þeim hætti er sjálfu fyrirtækinu alveg tvímælalaust best borgið.

Við minnihl.menn erum nú yfirleitt þeirrar skoðunar, að flestri starfrækslu sje betur borgið í höndum einstaklingsins en ríkisins, en þótt þessum grundvallarstefnumun sje slept, er hitt auðsannað, að þessi sjerstöku fyrirtæki standa alt öðruvísi og miklu betur að vígi, ef sjálfir framleiðendurnir — viðskiftavinirnir — eiga þau, heldur en í eign ríkisins og starfrækt fyrir þess reikning. En það er vegna þess, að aðaláhætta slíkra fyrirtækja er sú, að eigi fáist hæfilegt síldarmagn til vinslu við hæfilegu verði. Eigi ríkið stöðvarnar og starfræki þær með sama hætti og einstaklingarnir, er hjer eiga slíkar stöðvar, hvílir áhættan á ríkinu með alveg sama þunga. Eigi hinsvegar útvegsmenn stöðvarnar sjálfir, dregur mjög úr þessari áhættu.

Það er staðreynd og viðurkent af öllum, sem nokkra þekkingu hafa á þessu máli, að aflabrögð eru afar misjöfn frá ári til árs einmitt um þessa veiði, og miklu meiri aflamunur en t. d. á þorskafla. Reynsan hefir sýnt, að þegar vel aflast, berst mjög mikið af síld til bræðslustöðvanna, enda verður síldin þá verðminni til söltunar. En þegar illa aflast, er hún verðmikil til söltunar og menn reyna þá að komast í kringum gerða samninga við síldarbræðslustöðvarnar. Mætti gera ráð fyrir því, að ætti ríkið stöðvarnar, hefðu útgerðarmenn sömu freistinguna til þess að reyna eins að hliðra sjer hjá óhagstæðum samningum við þetta fyrirtæki eins og ef skift er við einstaka menn. Hinsvegar, ef tillaga minni hl. er samþ. og útgerðarmenn eru sjálfir eigendur fyrirtækisins, hafa þeir meira aðhald og áhuga á því að sjá fyrirtækinu borgið, og eru þá líkurnar miklu meiri til þess, að fyrirtækið gæti borið sig. Með þessu vil jeg leiða athygli hv. þm. að því, að í fyrsta lagi er hjer um áhættufyrirtæki að ræða, og í öðru lagi, þótt slept sje grundvallarstefnumun hjá meiri og minni hluta, þá er sjálft fyrirtækið öruggara, ef það er eign viðskiftavinanna sjálfra en ef það er eign ríkisins.

Alt ætti þetta að vera hv. deildarmönnum ljósara, ef þeir hafa veitt athygli framsöguræðu hv. frsm. meiri hl. Aðalrök í ræðu hans voru þau, að ríkið ætti að kaupa síld útgerðarmanna hærra verði en aðrir vildu greiða og þannig hækka gangverð síldarinnar til bræðslutöðvanna. Á síðasta ári var hagur bræðslustöðvanna yfirleitt góður og höfðu flestar þeirra tekjuafgang. Var hvert mál af síld keypt á 8–11 kr. í bræðslu. Eins og kunnugt er, hefir hv. 3. landsk. gert nákvæma rannsókn á þessu máli að tilhlutun hæstv. stjórnar, og komst hann að þeirri niðurstöðu, að hvert mál síldar sje 11–12 kr. virði, eða frá kr. 11.04 til kr. 12.19, eftir því hve verksmiðjunum berst mikið af síld og ef miðað er við bestu tæki. Ef það verðfall á síldarmjöli hefði þá verið komið á, sem nú er, ber að lækka þessa tölu um kr. 2.50, og er þá málið kr. 8.50–9.50 virði, en yfirleitt var hærra verð greitt á síðastliðnu sumri fyrir hvert mál. Með öðrum orðum, ef það verðfall hefði verið skollið yfir, sem nú er, hefði þessi atvinnuvegur ekki orðið arðvænlegur. Jeg vil leiða athygli hv. deildarmanna að því, að þetta er ekki áhættulaust fyrirtæki, og sjerstaklega ef hlutverk þess á að vera að hækka verð síldarinnar til bræðslu. Það er ekki nóg að líta á hag annars aðiljans í þessu máli.

Ríkið á ekki aðeins að leggja fram 1 milj. króna til þess að stofna þetta fyrirtæki, heldur einnig að reka það með slíkri óvissu, sem hlýtur að verða eftir tillögum meiri hl. Jeg veit ekki, hvort það er stefna bændaflokksins að eyða fje ríkissjóðs til þarfa sjávarútvegsins, en þó mjer beri ekki að mæla á móti því, að sú atvinnugrein sje styrkt, vil jeg þó ekki hætta fje ríkissjóðs að nauðsynjalausu.

Jeg hygg, að jeg hafi nú aðeins drepið á nokkur höfuðatriðin, sem mæla með því, að tillaga okkar minnihlutamanna nái fram að ganga. Auk þeirrar megintillögu, að fyrirtækið verði eign einstakra manna og starfrækt af útgerðarmönnum sjálfum, fremur en af ríkinu, hefir minni hl. borið fram tvær aðrar brtt. Hin fyrri er brtt. við 3. gr. frv., að ríkisstjórninni sje heimilað að taka lán fyrir hönd ríkissjóðs. Þetta er að vísu aðeins orðabreyting, en mjer finst hugsunin skýrari eftir brtt. minni hl. Minni hl. hefir einnig lagt til að breyta fyrirsögn frv., hvort sem frv. verður samþ. eða aðaltillagan, þá heiti frv. ekki frv. til laga um stofnun síldarbræðslustöðva á Norðurlandi, heldur frv. til laga um stofnun síldarbræðslustöðva, þar sem gert er ráð fyrir, að heimilt sje að byggja bræðslustöðvarnar víðar en á Norðurlandi.

Sje jeg ekki ástæðu til að fara ítarlegar út í þetta mál, en mun að sjálfsögðu athuga þau gögn, sem frsm. meiri hl. kann að bera fram.