23.03.1928
Neðri deild: 55. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3634 í B-deild Alþingistíðinda. (3352)

92. mál, síldarbræðslustöðvar

Sveinn Ólafsson:

Mjer kom satt að segja á óvart, að þetta 15. og síðasta mál á dagskrá skyldi verða tekið til umræðu á undan 14. máli, sem er einkasala á útfluttri síld. Það er nú svo, að líta má á slíkt frv. sem þetta, eða ráðstöfun þá, sem það víkur að, eins og eðlilega afleiðingu af einkasölu á síld. Jeg álít, að það stappi nærri skyldu fyrir ríkið að tryggja það, þegar einkasalan er komin á, að síldarverksmiðjur komi upp jafnframt. Þegar einkasalan er komin á og menn geta ekki lengur flutt út síld eftir því sem þeir afla, þá er í voða stefnt, ef menn geta ekki gert sjer fje úr síldinni á annan hátt. Þegar jeg minnist á þetta mál, þá geri jeg það með þeirri hugsnn, að einkasalan verði lögleidd fyrst, þótt hún gangi ekki á undan hjer, og lít jeg á þetta mál sem eðlilega afleiðingu af þeirri samþykt.

Eins og þingskjöl bera með sjer. náðist ekki samkomulag um þetta mál í sjútvn., og ber þar margt á milli. Báðum stefnum hefir verið lýst hjer af framsögumönnum, og þarf jeg ekki að skýra þann mun frekar. En jeg vil fyrir mitt leyti taka það fram, að þegar svo er komið, að einkasölufyrirkomulag er í uppsiglingu og auðsjeð er, að því muni verða komið á, þá virðist ekki geta verið um annað að ræða en að ríkið annist þessa framkvæmd, sem hjer um ræðir. Mjer virðist, sem tilviljun ein muni ráða framkvæmd þessa máls, ef ríkið fer að leggja fje af mörkum til einstakra manna í þessu efni eða til stofnunar síldarbræðslu. Minni hl. vill sem sje veita stjórninni heimild til þess að útvega þetta fje handa fjesýslumönnum, hafa það á reiðum höndum, bíða með framboðið fje, þar til einstakir menn vilja reisa bræðslustöðvarnar, og þá fyrst að reisa þessar stöðvar, ef þeir gefast upp eða geta ekki sett nægilega tryggingu fyrir því láni, sem þeir kynnu að fá. Þetta er því hreint Lokaráð, sem minni hl. bendir á, svo óvíst og reikult sem mest má verða. Það virðist harla undarlegt hjá minni hl. að vilja byggja svo á atvikum og tilviljun um það, hversu einkasölufyrirkomulagið gefst, að koma því á án þeirrar nauðsynlegu tryggingar, sem bræðslustöðvarnar eru því. Frsm. minni hl. hyggur, að fyrirtækinu muni betur borgið í höndum útgerðarmanna en í höndum ríkisvaldsins. Þetta er meira en vafasöm tilgáta, og jeg tók ekki eftir því, að hv. frsm. styddi þessa skoðun með nokkrum frambærilegum rökum, og verð jeg því að álíta þetta fullyrðingar einar, og þær hafa margar heyrst áður. Það fer auðvitað alt eftir mönnunum, sem fyrir fyrirtækinu standa, hversu til tekst um árangurinn (ÓTh: Jeg leiddi þá hlið málsins alveg hjá mjer og færði alt önnur rök fyrir máli mínu.), en altaf getur svo við borið, að misjafnlega hæfir menn veljist til starfans. Jeg get því ekki lagt mikið upp úr þessum fullyrðingum hv. frsm. Mjer finst einmitt, að byggja eigi á því um leið og einkasalan kemst á að ríkið geri svo ábyggilegar og vissar ráðstafanir um það atriði, að einkasalan þurfi ekki að eiga undir tilviljun eða dutlungum einstakra manna, sem með það fyrirtæki ættu að fara. Það þarf ekki að ræða þá spurningu, hvort fyrirtækið sje arðvænlegt eða ekki. Það er upplýst af sjerfróðum mönnum, að svo er, ef vel er á haldið, meðal annars af hv. frsm. minni hl., að á síðustu árum hefir afkoma bræðslustöðvanna verið góð. (ÓTh: Jeg sagði aðeins á síðasta sumri).

Hv. frsm. minni hl. benti rjettilega á það, að ef veiðin væri svo lítil, að stöðvarnar hefðu ekkert að gera, þá leiddi af því tjón fyrir fyrirtækið, en jeg get ekki sjeð, að áhættan verði minni fyrir því, þótt um sje að ræða. fyrirtæki einstakra manna, en ríkisins. nema síður sje.

Hv. frsm. minni hl. benti á, að afurðir bræðslustöðvanna væru fallandi í verði á síðustu tímum og því væri ekki eins álitlegt að ráðast í þetta: fyrirtæki nú og verið hefði. Það er líklega eitthvað til í þessu, en jeg hygg, að ennþá megi líta á afurðir síldarbræðslustöðvanna sem auðselda og trygga vöru. Þess vegna má ekki aftra því, ef einkasala kemst á, að þessi sjálfsagða og nauðsynlega ráðstöfun um bræðslustöðvar verði framkvæmd. Jeg sje ekki ástæðu til þess að skifta mjer af því, sem hv. frsm. minni hl. sagði um stefnumun framsóknarmanna og jafnaðarmanna annarsvegar og íhaldsmanna hinsvegar; það skiftir ekki miklu máli og er margendurtekinn hjegómi; læt jeg það alveg liggja milli hluta. En jeg endurtek, að þar sem telja má víst, að einkasöluráðstöfunin verði gerð, þá sje ekkert undanfæri að samþ. þetta frv., eins og meiri hl. hefir lagt til. En jafnalvarlega verð jeg að leggja á móti því, að fyrirtæki þessu verði gloprað í hendur einstakra manna. Skal jeg svo ekki fjölyrða um þetta frekar, enda hygg jeg, að hjer fari eins og oft vill verða, að langar umr. geri lítið til þess að ákveða úrslit málsins.