23.03.1928
Neðri deild: 55. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3638 í B-deild Alþingistíðinda. (3353)

92. mál, síldarbræðslustöðvar

Frsm. minni hl. (Ólafur Thors):

Þegar hvalafrv. var á ferðinni hjer í deildinni, var vegið svo að einum stórfiskinum hjer, að búast hefði mátt við, að honum yrði það minnisstætt, í nokkra daga að minsta kosti. Svo rækilega skrúfaði hv. þm. V.-Ísf. niður í hv. 4. þm. Reykv., sem þá eins og oftar talaði af meiri hávaða en þekkingu. Jeg sá, að þetta hafði haft einhver áhrif tvo fyrstu dagana, en því miður hefir sýnt sig, að þau áhrif eru ekki deildinni til blessunar lengur. Jeg verð að kvarta yfir því í fullri alvöru, að mjer finst óskemtilegt að verða að hafa framsögu á hendi, þegar þessi hv. þm. er annarsvegar. Jeg skal játa það, að mjer þykir skemtilegra að deila við marga aðra, og þar á meðal flokksbræður hans hjer í deildinni.

Jeg þarf ekki að svara hv. 1. þm. S.-M. mörgu. Hann benti á, að ef lítið veiddist af síld, væri jafnan nokkur áhætta á rekstri slíkra fyrirtækja, en sú áhætta væri ekki meiri, þótt verksmiðjan væri eign ríkisins en viðskiftavinanna. Við skulum nú hugsa okkur, að þetta sje rjett. En ef svo er, að hjer sje um áhættu að ræða, virðist liggja miklu nær, að hún lendi á viðskiftamönnum fyrirtækisins, en vegna þeirra er fyrirtækið stofnsett, heldur en landsmönnum í heild, úr því að viðskiftamennirnir vilja taka hana á sig.

Auk þess er það ekki rjett, að áhættan sje jöfn, hvor leiðin sem farin er. Jeg hefi sýnt fram á það áður, að miklu minni líkindi eru til, að verksmiðjan verði hart úti í aflaleysisárum, ef viðskiftamennirnir eiga hana sjálfir. Jeg þarf ekki að endurtaka fyrri ummæli mín um þetta atriði. En jeg vil benda á það, að síðustu 14 ár hefir síldaraflinn verið um 110 þús. mál að jafnaði, en síðastl. sumar fór nær sexfalt meiri síld í bræðslustöðvarnar. Hjer var um einstakt aflaár að ræða. Þetta sýnir, að aðalástæðan til að reisa þessa fyrirhuguðu bræðslustöð er ekki sú, að bræðslustöðvar vanti hjer á landi, heldur hin, að bræðslustöðvar þær, sem nú eru, eru að mestu í höndum útlendinga, og þeir gæta aðeins eigin hagsmuna. Þetta er ástæðan til þess, að jeg er því fylgjandi, að ný bræðslustöð verði sett upp.

Jeg hefi áður sýnt fram á það, hve mikið veltur á því, að bræðslustöð sem þessi hafi næga síld til vinslu. Í áliti því, sem hv. 3. landsk. hefir sent frá sjer, sannar hann, að ef stöðin fái aðeins 60 þús. mál til vinslu, verði hvert mál einnar krónu minna virði heldur en ef hún fær 120 þús. mál. Svo mikið veltur á því, að nægilegt síldarmagn sje fyrir hendi, þótt það megi hinsvegar ekki vera of mikið, því að þá er hætt við, að síldin spillist í þrónum, áður en hún getur komist í bræðslu.

Þá vil jeg víkja lítið eitt að staðleysum hv. 4. þm. Reykv. Hann sagði, að það væri gripið úr lausu lofti, að síldarmjöl hefði fallið niður í 11£ smálestin. Mjer er kunnugt um þetta, því að sjálfur átti jeg 100 smálestir óseldar af síldarmjöli, og fjekk tilboð um þetta verð, en neitaði að selja, og get nú fengið 12£ fyrir smálestina. (SÁÓ: Jeg hefi skeyti, sem sannar þetta). Frá hverjum er það skeyti? — Þá var hann eitthvað að tala um „Ameríku og önnur stórveldi hjer í álfu“. Hann talaði um, að 200 þús. smál. af síldarmjöli vantaði í Ameríku. Óskiljanlegt er, að verðfall ætti sjer stað, ef svo væri, því að venjulega hækkar mikil eftirspurn verðið.

Hv. þm. sagði, að jeg hefði haft hótanir í frammi fyrir hönd útgerðarmanna í garð verksmiðjunnar, ef hún yrði ríkiseign. Þetta er með öllu rangt. En jeg benti á það, að ef verð hækkaði á saltsíld um veiðitímann, væri meiri hætta á, að menn hefðu tilhneigingu til að smeygja fram af sjer samningum við verksmiðjuna, ef þeir ættu hana ekki sjálfir.

Hv. þm. sagði, að afkoma þessara fyrirtækja hefði verið góð undanfarið. Jeg skal viðurkenna, að afkoma þess fyrirtækis, sem jeg er kunnugastur. var mjög góð síðastl. sumar, enda var síldarmagn það, er sú verksmiðja fjekk til vinslu. hæfilegt. Hitt er ekki rjett, að hagur þessara, fyrirtækja sje góður yfirleitt. Hv. þm. vill sanna það með því að benda á, að útlendingar hafi ráðist í þennan atvinnurekstur hjer. Auðvitað hafa þeir gert það af því, að þeir hafa gert sjer von um gróða, en það er nú ekki ávalt, að reynslan staðfesti vonir manna, enda hafa mörgum brugðist ágóðavonir í sambandi við þennan atvinnurekstur. Hitt dettur mjer ekki í hug að segja, að atvinnurekstur þessi sje svo hættulegur, að frágangssök sje að stunda hann. Þetta er heilbrigður atvinnurekstur, sjerstaklega ef þeir, sem eiga framleiðslutækin, eru eigendur bræðslustöðvanna.

Það var rjett hjá hv. þm., en þó ekki nema að nokkru leyti, að menn neyddust til að selja síld mjög lágu verði í verksmiðjurnar í nokkra daga í sumar á Siglufirði. Slíkt getur auðvitað altaf komið fyrir, því að ekki er hægt að búast við því, að verksmiðjurnar geti verið við því búnar að taka á móti því mesta magni, sem að getur borist, því að þá yrðu meðalárin þungbær. Jeg vil einnig benda á, að innlendu verksmiðjurnar guldu ekki lægra en 8 kr. fyrir málið.

Hv. þm. var að tala um, að hjer væri um stórgróðafyrirtæki að ræða, og væri því eðlilegt, að jeg vildi fremur láta útgerðarmenn hirða arðinn en hið opinbera, eins og hann sjálfur kveðst kjósa. Jeg lít nú svo á, að stofnun þessarar bræðslustöðvar sje fremur gerð sem öryggisráðstöfun en í gróðaskyni. En væri um stórgróða að ræða, ætti hann ekki að vera því mótfallinn, að viðskiftavinir verksmiðjunnar ættu hana sjálfir. Honum ætti að vera umhugað, að sjómenn sjálfir nytu góðs af þessum gróða. Það er nú orðið allalment og tíðkast meir og meir, að sjómenn sjeu ráðnir upp á hlut af afla, og togaraeigendur hafa boðið þeim slík ráðningarkjör. Ef sjómenn eru alment ráðnir á þann hátt, væru þeir þar með orðnir að hluthöfum í framleiðslunni. Hv. þm. er því að hafa hag af sjómönnum með þessu, ef um gróða er ræða.

Jeg vil taka það fram að endingu, að eins og nál. minni hl. ber með sjer, tel jeg rjett, að bræðslustöð þessi verði stofnuð, en jeg vil um leið benda á, að hjer er um áhættufyrirtæki að ræða, og úr því að ríkissjóður getur bætt úr þessari nauðsyn án þess að leggja á sig áhættu, þá tel jeg sjálfsagt að fara þá leið.

Útgerðarmenn eiga sjálfir að eiga fyrirtækið. Með því losnar ríkissjóður við áhættu af framlagi stofnfjár að mestu, og um leið við þá áhættuna, sem verst er, sem sje áhættu af starfrækslu. Hún getur orðið mjög mikil, ef þær leiðir eru farnar, sem meiri hl. sjútvn. ætlast til.