26.03.1928
Neðri deild: 57. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3649 í B-deild Alþingistíðinda. (3362)

92. mál, síldarbræðslustöðvar

Magnús Jónsson:

Jeg ætla ekki að ræða mikið um efni frv., en mjer þykir bera heldur nýrra við hjer á þingi. Í máli því, sem afgreitt var hjer áðan, fjellu menn frá orðinu. Háttv. frsm. fjell frá orðinu, líklega til þess eins að láta umr. falla niður. Nú er borin hjer fram brtt. og ekkert mælt fyrir henni. Hvernig er þessu varið; á að hætta að ræða málin á þingi? Hjer er um stórþýðingarmikið atriði að ræða, það, hvort á að vera heimilt að selja stöðina samvinnufjelagi, sem kynni að vilja kaupa hana og reka. Með þessari brtt. sýnist mjer vera gerð grímuklædd tilraun til að spilla þessu máli. Annars finst mjer, að annaðhvort ætti að heimila þetta skilmálalaust eða ekki í frv., en ekki að fara þessar fáheyrðu krókaleiðir. Jeg ætla svo ekki að ræða frekar um málið, en undrast, að ekki skuli vera mælt fyrir till.