26.03.1928
Neðri deild: 57. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3658 í B-deild Alþingistíðinda. (3370)

92. mál, síldarbræðslustöðvar

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg tek hv. 2. þm. G.-K. það mjög vel upp, að hann leggur áherslu á að benda á það, að hjer geti verið um áhættufyrirtæki að ræða, því að jeg mun telja það mína fyrstu skyldu að hafa augun opin fyrir þeirri hlið málsins. Hitt er alveg misskilningur hjá hv. þm., að stjórnin sje á neinn hátt bundin við skilning meiri hl. á þessu máli.

Hjer er um heimildarlög að ræða og jeg lít svo á, að þær kröfur, sem frv. setur, sjeu aðeins lágmarkskröfur, enda geri jeg ráð fyrir því, ef í þetta, verður ráðist, að margt fleira þurfi að athuga áður en lagt er inn á þá braut að binda fje ríkissjóðs í þessu fyrirtæki.

Eins og hv. þm. benti á, er aðaláhættan í því fólgin, að stöðinni berist of lítið af síld til bræðslu, og hefi jeg því hugsað mjer, án þess að taka þar um nokkra ákvörðun, hvort ekki verði að heimta það af útgerðarmönnum, að þeir sjái verksmiðjunni fyrir nægilegum forða til vinslu, ef ríkið ræðst í svo mikið fyrirtæki.

Jeg tel mig ekki bundinn af neinum skilningi, sem lagður hefir verið í lögin, enda tel jeg ákvæði þeirra lágmarksákvæði, en hámarksákvæðin ætla jeg mjer sjálfur að setja.