26.03.1928
Neðri deild: 57. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3659 í B-deild Alþingistíðinda. (3371)

92. mál, síldarbræðslustöðvar

Sveinn Ólafsson:

Jeg ætla aðeins að leiðrjetta dálítinn misskilning, sem kom fram hjá hv. 2. þm. G.-K. Mjer skildist hann halda því fram, að meiri hl. sjútvn. hefði lagt eitthvað ákveðið til um fyrirkomulag á rekstri væntanlegrar síldarbræðslustöðvar. Það gerði meiri hl. alls ekki, og í áliti hans er ekki eitt orð, sem lýtur að því. Hv. þm. hafði það eftir hv. frsm. meiri hl., að rekstri bræðslustöðvarinnar yrði þannig hagað, að ríkið keypti síld hærra verði en aðrir og trygði þannig framleiðendunum hærra verð fyrir vöruna. Jeg heyrði hv. frsm. aldrei viðhafa þessi orð, og þótt hann kunni að hafa látið í ljós einhverja von í þessu efni, þá hefir það ekkert bindandi gildi fyrir nefndina, enda hennar vegna ekkert um það talað við 2. umr. málsins. Jeg get í þessu efni skírskotað til þess, er hæstv. atvinnumálaráðherra sagði, að stjórnin myndi í þessu efni hafa vaðið fyrir neðan sig, og ekkert er eðlilegra en að hún velti áhættunni af sjer um kaupin og láti hana lenda þar, sem vera ber, hjá veiðimönnunum.