26.03.1928
Neðri deild: 57. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3660 í B-deild Alþingistíðinda. (3373)

92. mál, síldarbræðslustöðvar

Frsm. minni hl. (Ólafur Thors):

Það gleður mig, að hæstv. ráðherra hefir augun opin fyrir þeirri hlið málsins, er að áhættunni veit. Hinsvegar get jeg ekki verið sammála hæstv. ráðh. um það, að umr. hafi ekkert bindandi gildi, þótt aðeins sje um heimildarlög að ræða. Það hefir verið ófrávíkjanleg venja um öll lög, og heimildarlög líka, að það, sem ekki kemur skýrt fram í fyrirmælum laganna sjálfra, hefir verið skýrt út frá umræðunum. Annars er það frá mínu sjónarmiði aðalatriðið, og sem jeg vona, að hæstv. ráðh. muni svara, hvort stj. ætlar sjer að fara að till. minni hl. eða meiri hl. um starfrækslu verksmiðjunnar. Skal jeg, ef hæstv. ráðh. óskar þess, færa frekari sönnur á það, að eftir till. minni hl. er áhætta ríkisins hverfandi og hlutur útgerðarmanna þó betri, en ef farið er að till. meiri hl. er áhættan altaf mikil.

Annars vil jeg benda á, að áhætta fyrirtækisins liggur ekki einungis í því, að of lítið af síld berist að, heldur einnig of mikið af síld. Það vita þeir best, sem kunnugir eru þessu máli, að ef berst of mikið af síld í einu til bræðslu, er ekki hægt að vinna úr síldinni fyr en rotnun er komin á það stig, að ekki verður unnin sæmileg vara. Svo að ef tilhögun meiri hl. er fylgt og bræðslustöðinni er ætlað að kaupa síld af útgerðarmönnum, þá er það ekki nægilegt, sem hæstv. atvmrh. stakk upp á, að krefjast þess, að útgerðarmenn skifti við bræðslustöðvar ríkisins, því ef þær eiga að kaupa síldina ákveðnu verði, er áhættan einnig sú, að of mikið berist að fyrir of hátt verð.

Ef hin starfrækslan er viðhöfð, sem við minnihlutamenn leggjum til, eiga útgerðarmenn þetta alt við sig sjálfa þegar þeir bindast samtökum um að sjá bræðslustöðinni fyrir nægilegri síld, og ef of mikið berst að til þess að góð vara verði unnin úr síldinni er ástæða til að halda, að útgerðin þyldi það, því slíkt mundi aðeins henda í miklu aflaári.

Í tilefni af því, sem hv. 1. þm. S.-M. sagði, vil jeg benda honum á, með allri kurteisi, — og er það þó undarlegt, þegar eggið fer að kenna hænunni, eða jeg þeim gamla þingskörungi —, að þingvenja er, að ef frsm. nefndar segir eitthvað fyrir nefndarinnar hönd, og því er ekki í móti mælt af þeim hluta nefndarinnar, sem hann talar fyrir, að það er þá skoðað sem bindandi fyrir þann hluta nefndarinnar. Frsm. meiri hl., hv. 4. þm. Reykv., ljet í ljós, að ríkið ætti að starfrækja stöðvarnar á þann hátt að kaupa síld í samkepni við aðra, en vel má vera,

hv. þm. hafi ekki heyrt orð hv. frsm., og undrar það mig ekki, því að þessum hv. þm. mun margt annað betur gefið en heyrnin, og þegar hann þar á ofan býr svo að segja á öðru landshorni, þá er ekkert undarlegt, þó hv. þm. heyri ekki alt, sem hv. frsm. segir. Mig rak í rogastans, þegar hv. frsm. meiri hl. sagði, að ríkið ætti að keppa við aðrar verksmiðjur. (SvÓ: Hv. frsm. hefir ekki kannast við þetta). Hv. frsm. hefir aldrei mælt á móti þessu, enda heyrðu allir þdm., að hann sagði það oft í ræðu sinni og dró ýmsar ályktanir af því, og varð jeg því að álíta, að þetta væri bindandi fyrir meiri hl. nefndarinnar, alt til þess, ef jeg með mínum gæfusamlegu ummælum hjer í deildinni í kvöld hefi getað orðið til þess að reisa rönd við þessu.