26.03.1928
Neðri deild: 57. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3663 í B-deild Alþingistíðinda. (3375)

92. mál, síldarbræðslustöðvar

Sigurður Eggerz:

Það er aðeins örstutt aths. Mjer skilst, að umr. hafi snúist þannig hjer í kvöld, að allir sjeu sammála um það, að hjer sje um áhættufyrirtæki að ræða, enda liggur það í hlutarins eðli fyrir alla þá, sem nokkuð þekkja til slíkra mála.

Hv. 2. þm. G.-K. taldi hægt að fara þá leið, að síldin væri lögð inn í verksmiðjuna, og væri þá greitt nokkuð af verði hennar um leið, en það, sem eftir væri, ekki fyr en allir reikningar hefðu verið gerðir upp. Við þessu er það að segja, að óvíst er, að menn fengjust til að leggja síld í verksmiðjuna með þessum skilyrðum; vildu heldur taka þeim kosti að fá alt borgað út fyrir síldina í einu og hafa enga áhættu. Sumir mundu vera neyddir til þess að taka þessum kosti, gætu annars ekki gert út.

Hinsvegar væri það mikill kostur fyrir verksmiðjuna, ef hringur togara stæði að henni um útvegun hráefnis. Eitt er rjett að taka fram, sem eykur á áhættu slíkrar verksmiðju, að nú er farið að búa til fiskimjöl, t. d. Japan, sem hefir náð mikilli útbreiðslu og hefir orðið til þess, að síldarmjöl hefir mjög lækkað í verði. En áður hefir verið litið svo á, að takmarkalaus markaður væri fyrir þessa vöru.

Þetta voru þær fáu aths., sem jeg vildi gera í viðbót við það, sem jeg sagði áður. Jeg vil leggja áherslu á það, að hjer er um verulegt áhættufyrirtæki að ræða, og eftir þeim upplýsingum, sem hjer koma fram úr öllum áttum, má mönnum vera það ljóst, að þeir, sem greiða atkv. með þessu frv., eru að draga ríkissjóð inn í áhættufyrirtæki. Eftir orðum hæstv. forsrh. að dæma segist hann vilja reyna að draga úr þessari áhættu, en ekki er það á valdi neinnar stjórnar að taka áhættuna frá hinum eiginlegu áhættufyrirtækjum, þegar búið er að ákveða að leggja út í þau.