29.03.1928
Efri deild: 60. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3668 í B-deild Alþingistíðinda. (3388)

92. mál, síldarbræðslustöðvar

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg er hræddur um, að hv. 3. landsk. hafi ekki á rjettu að standa í þessu máli. Það verður að gæta þess, að síldarframleiðendur hafa ekki staðið svo fast í ístaðinu, að þeir geti gert kröfur. Það er ljóst, að þeir mörgu menn, sem við síldarútgerð hafa fengist, hafa bæði skaðað sjálfa sig og bankana. Þeir eru nú svo fjelausir, að einn samherji hv. 3. landsk. sagði við mig á Akureyri í vetur, að hann byggist ekki við, að nokkur íslenskur útgerðarmaður gæti rekið síldveiðar í sumar sem sjálfstæður atvinnurekandi, ef einkasölu væri ekki komið á fót. Þessum mönnum hefir ekki tekist betur að gæta síns eigin fjár og bankanna en svo, að nú verður Alþingi að bjarga þeim frá sjálfum sjer. Alþingi verður að setja lög til að skylda þá til að ganga í þann fjelagsskap, sem þeir hafa ekki verið menn til að ganga í sjálfir. Alþingi verður að byggja fyrir þá verksmiðju. Það er ljóst, að ekki er hægt að meðhöndla þessa menn öðruvísi en sem strandmenn. Þetta eru mestu strandmennirnir í okkar þjóðfjelagi. Þeir hafa ekki einungis siglt sínum eigin skipum í strand, heldur og komist nærri því að strandsigla fjármálaskútu þjóðarinnar. Það, sem vakir fyrir hv. 3. landsk., er að hjálpa þeim til að mynda þau samtök, sem þeir hafa ekki verið sjálfir megnugir að mynda. En það er ekki skynsamlegt að gera ráð fyrir, að þessir menn verði nú alt í einu þeir englar, að þeim sje trúandi til að fara með verksmiðjuna.

Jeg býst ekki við, að sú gr. frv., sem hv. 3. landsk. smeygði inn í það við 3. umr. hjer í deildinni, verði notuð í tíð núverandi stjórnar. En taki samherjar hans einhverntíma við völdum, þá eru þeir vissir með að nota þessa heimild strax, og er því brtt. aðeins til þess að tryggja það, að stjórnin fari ekki á bak við þingið, geti ekki svikist aftan að þinginu og gert þær ráðstafanir, sem þingið vill ekki samþ. Ef meiri hl. þingsins vill selja, þá er ekkert við því að segja. En stjórn, sem elskar síldarútvegsmenn meira en þjóðina, er viss með að glopra verksmiðjunni úr höndum sjer, og það ef til vill svo, að landinu verði ekki trygðir þeir peningar, sem í hana hafa farið.