29.03.1928
Efri deild: 60. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3672 í B-deild Alþingistíðinda. (3391)

92. mál, síldarbræðslustöðvar

Fjmrh. (Magnús Kristjánsson):

Jeg er hissa á því, að þessi till. skuli valda slíkum umræðum. Það virðist, sem hjer sjeu uppi tvær mismunandi stefnur um það, hvort Alþingi eða ríkisstjórnin eigi að hafa hið æðsta vald. Jeg verð að segja, að mjer fanst skoðun hv. 3. landsk. hneigjast nokkuð mikið í einveldisáttina. Það er bæði eðlilegast og fer best á því, að þingið leggi fult samþykki sitt á, þegar um slíkar ákvarðanir er að ræða.

Jeg skildi ekki þau ummæli hv. 3. landsk., að það væri sjer næg ástæða að vera á móti frv., ef heimildin væri feld. Þetta finst mjer allundarlegt, og mjer þykir ástæða til að efast um, að áhugi hans á þessum málum sje eins mikill og hann hefir látið, ef hann telur þetta næga ástæðu til að vera á móti frv. Hann reyndi að bera fram ástæður, og þær voru, að illkleift yrði að útvega hráefni, svo að fyrirtækið gæti haldið áfram, ef ríkisrekstur væri á því. Þessi skoðun ber ekki vott um mikla þekkingu, því ef úr því verður, að frv. um einkasölu á síld nái fram að ganga, þá er vissa fyrir, að í flestum tilfellum kemur slíkur skortur ekki til greina. Auk þess verður að taka til greina, að búast má við, að þessu fyrirtæki veitist ljettara að ná viðskiftum við framleiðendur en verksmiðjum einstakra manna, einkum útlendinga, því að þeir leggja meiri áherslu á að sjá sjer og sínum hag borgið heldur en hvort útgerðin ber sig yfirleitt.

Aðalhlutverk þessa fyrirtækis á að vera að útvega mönnum sannvirði fyrir síldina. Því er líklegt, að verksmiðjan sitji fyrir hráefnum. Þessi ástæða er því á veikum grundvelli bygð.

Jeg tel illa farið, ef þetta mál þarf að dragast lengi hjeðan af. Tími til hins nauðsynlegasta undirbúnings fremur stuttur, og því má ekki deila um aukaatriði og tefja fyrir málinu á þann hátt. Jeg tel líklegt, að frv. ná samþykki þessarar hv. deildar, en hitt skal látið ósagt, hvort Nd. verður búin að átta sig á því, þegar málið kemur þangað.