30.01.1928
Efri deild: 9. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1334 í B-deild Alþingistíðinda. (340)

7. mál, skógar, kjarr og lyng

Frsm. (Einar Árnason):

Þetta frv. er breyting á 19 ára gamalli löggjöf. Mun sú löggjöf vera einhver fyrsta lagasetning hjer á landi um friðun og græðslu skóga. Þegar hún var sett, var vitanlega ekki um neina innlenda reynslu eða þekkingu að ræða í þessu efni, svo að ekki varð hjá komist að byggja að miklu leyti á útlendum fyrirmyndum. Þó að ekki sje hægt að segja, að árangurinn af lögum þessum hafi orðið sjerlega mikill eða framfarirnar stórstígar, þá ber að viðurkenna, að nokkrar framfarir hafa orðið, einkum að því leyti, að þekking manna og skilningur á skógræktarmálum hefir aukist. Sjerstaklega má segja, að þessa hafi orðið vart meðal yngri kynslóðarinnar, og spáir það góðu um framtíð skógræktarmálsins.

Það er því ekki undarlegt, þó að eftir 19 ár komi fram breyting á þeirri löggjöf, sem gilt hefir, þar sem menn þykjast vita, að nú muni nokkur innlend reynsla fengin um þessi mál. Um þetta frv. er það að segja, að í því felast í raun og veru engar miklar breytingar á fyrirkomulaginu eins og það er nú. Þær breytingar, sem gerðar eru, eru á þá leið, að það er komið undir skilningi og velvilja einstakra manna, sem hlynna vilja að skógrækt, hvort nokkuð verður gert framvegis til þess að friða skóg.

Þess er lauslega getið í nál., hverjar sjeu aðalbreytingarnar, og skal jeg ekki orðlengja um það. Landbn. flytur nokkrar brtt. við frv. Hún fjekk til viðtals Skógræktarstjórann og Einar Helgason garðyrkjumann. Það voru einkum ákvæði 7. gr, frv., sem vöktu athygli nefndarinnar. Hún var í vafa um, hvort rjett væri að leyfa beit í skógunum, eins og gert er ráð fyrir í frv. Nefndin spurðist ítarlega fyrir um þetta atriði hjá skógræktarstjóranum. Hann taldi, að engin hætta væri á skemdum á skógunum, þó að beitt væri í þá um sumartímann, en vetrarbeit væri slæm og hana þyrfti að útiloka.

Þá ætla jeg að minnast örfáum orðum á brtt. nefndarinnar.

1. brtt. er við 2. gr. frv. Nefndin vill setja inn í frv. ákvæði um að banna vetrarbeit í skógum, sem fjarri eru búfjárhögum eða í afrjettum liggja. Eins og kunnugt er, hafa víða hjer á landi frá fyrstu tíð haldist við skógar til dala og inni á afrjettum, þó að Skógar, sem nær lágu sveitunum, hafi eyðilagst. Hinsvegar er það vitanlegt, að skógar inni á afrjettum eiga við engu blíðari náttúru að stríða en skógar nálægt sveitum, svo að ætla má, að mannshöndin hafi eyðilagt þá. Að skógar hafa haldist við til dala og afrjetta, sýnir, að þeir hafa þolað sumarbeitina, en ætla mætti, að þar sem skógar eru svo fjarri mannabygðum, að ekki er hægt að beita í þá á vetrum, muni ekki þurfa um það ákvæði í lögunum. En af sjerstakri ástæðu hefir nefndin gert þetta, aðallega vegna þriggja skóga: Þórsmerkur-, Bæjarstaða- og Núpsstaðaskóga. Um Þórsmerkurskóg hefir nefndin fengið þær upplýsingar, að búið sje að eyða miklu fje úr ríkissjóði til þess að girða hann, og þó er því verki ekki lokið. En samkvæmt umsögn skógræktarstjóra mundi sú girðing, þó að hún væri fullger, aldrei koma að notum til þess að koma í veg fyrir vetrarbeit. Og þar sem nefndinni hefir borist vitneskja um, að ýmsir fjáreigendur sjeu farnir að reka fje sitt þangað á haustin og láta það ganga þar sjálfala á vetrum, virðist henni ákvæði um þetta atriði vera nauðsynlegt, enda getur friðunin sparað girðingar í skógunum.

2. brtt. nefndarinnar er við 6. gr. Þar er bætt inn ákvæði um það, að atvinnumálaráðherra sje heimilt, „að fengnum tillögum skógræktarstjóra“, að veita eigendum eða notendum jarða, „eða jarðarskika“, tillag úr ríkissjóði til að girða bæði skóglendi og skóglaust land, í þeim tilgangi að koma þar upp skógargróðri. Það var fyrirsjáanlegt, að atvinnumálaráðherra hefði ekki aðstöðu til þess að geta dæmt um í hvert skifti, hvernig ástæður væru hjá þeim, sem hefðu sótt um styrkinn, nje heldur nægan kunnugleik á því, hvort rjett væri að leggja fram fje. Þetta er því einungis varúðarákvæði, til þess að ekki verði misnotaðar styrkveitingar í þessu skyni. Einnig hefir nefndin bætt inn orðinu „jarðarskika“. Svo stendur á því, að allmörg ungmennafjelög hafa fengið sjer bletti til þess að friða og rækta, og þessum áhugafjelögum vill nefndin koma undir ákvæði 6. gr., eins og eigendum og ábúendum jarða.

Þá skal jeg geta þess, að nefndin áleit nauðsynlegt að ákveða styrkinn að einhverju leyti í fjárlögum. Henni datt fyrst í hug að setja ákvæði um það inn í frv., en fjell frá því aftur og ljet sjer nægja að láta þess getið í framsögu, að hún ætlaðist til, að styrkurinn væri tekinn af því fje, sem annars er ætlað til skógræktar. Nefndin áleit sem sje, að ekki væri víst, að það fyrirkomulag stæði lengi, sem nú er um þann lið fjárlaganna, sem snertir þetta mál. Það gæti til dæmis hugsast, að í framtíðinni gengi skógræktarmálið inn undir Búnaðarfjelag Íslands og styrkur til þess yrði tekinn af því fje, sem veitt er til Búnaðarfjelagsins.

Um 3, brtt. þarf jeg ekki að tala. Hún er bein afleiðing af 1. brtt.

Jeg ætla að minnast nokkrum orðum á brtt. hv. 3. landsk. (JÞ). Það, sem fyrir honum vakir, er eiginlega það sama og vakir fyrir landbn. Og þó að nefndarmenn telji hans brtt. alls ekki nauðsynlegar, þá gera þær hinsvegar engan skaða. En jeg vil vekja athygli hv. dm. á 2. brtt. hv. 3. landsk. Það er tæpast hægt að bera hana upp sem brtt, við frv. sjálft, heldur sem brtt. við brtt. nefndarinnar, eða svo skilst mjer það vera.