03.04.1928
Neðri deild: 64. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3677 í B-deild Alþingistíðinda. (3402)

92. mál, síldarbræðslustöðvar

3402Frsm. minni hl. (Ólafur Thors):

Það er ekki rjett hjá hæstv. forsrh., að það hafi verið á mínu valdi að fá úrskurð þessa máls í gær. Þá stóð atkvgr. um annað mál fram til kl. 2 um nóttina. En mjer þótti sýnt, að um þetta mál mundu verða nokkrar umræður, og því engar líkur til að það yrði útkljáð þá á fundinum, þó að það yrði tekið fyrir, nema því aðeins, að fundi hefði verið haldið áfram til morguns. En hv. þdm. hafa nú þegar fengið nóg af næturfundum. Annars þykir mjer illa sitja á hæstv. forsrh. að kenna mjer um, að jeg tefji mál. Vona jeg, að flestir hv. þdm. viðurkenni, að jeg hafi ekki talað um skör fram á þessu þingi. Mjer er þó kunnugt, að einstaka hv. þdm. hefir fengið þá flugu í höfuðið, að jeg tefji mál, því að einn hv. þm. úr stjórnarflokknum sagði nýlega við mig, að jeg talaði nú eins og hæstv. forsrh. hefði talað á undanförnum þingum, en jeg svaraði því, sem jeg vissi rjettast, að sá væri þó munurinn á mjer og hæstv. forsrh., að jeg talaði aldrei ótilneyddur, en tæplega mundu allir á eitt sáttir um ræðuhöld hans á fyrri þingum.