03.04.1928
Neðri deild: 64. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3680 í B-deild Alþingistíðinda. (3406)

92. mál, síldarbræðslustöðvar

Hjeðinn Valdimarsson:

Hv. 2. þm. G.-K. hefir nú haldið uppi umræðum hjer í deildinni næstum heila klukkustund, og má óhætt segja, að hann hafi talað meir af striti en viti, því að hann hefir ekki vikið einu orði að kjarna málsins.

Þegar þetta mál var hjer síðast til umræðu, var ekkert um það talað, hvort rjett væri að selja samlagi stöðvarnar. Og jeg skal minna á það, að frá okkar hálfu, sem till. bárum fram, var engin ræða flutt. Var það að sumu leyti tilviljun, en hitt rjeð og nokkru um, að við töldum breytinguna svo sjálfsagða, að ekki þyrfti fyrir henni að mæla. Það er harla undarlegt, ef hjer á hinu háa Alþingi á að taka upp þann sið að láta stjórnina byggja verksmiðjur og selja þær svo í hendur einstökum mönnum, þegar einhver arðsvon fer að verða af þeim.

Það er að vísu rjett, að till., sem borin var fram í Ed. um að fella niður heimildina, var feld. En hitt er rangt, að Ed. hafi með því að fella hana lýst yfir því, að hún vildi ekki, að þingið hefði hönd í bagga um söluna. En hún vildi sjálfsagt fremur þingsályktunarform en lagaform. Annars er gaman að bera þessa heimild saman við það, sem tíðkast erlendis um sölu opinberra eigna. Jeg skal geta þess t. d., að Reykjavíkurbær hefir lengi reynt að fá keypta litla lóð, sem franska ríkið átti hjer í bænum, Margra ára þref þurfti, uns hún loks fjekst. Svo fast binda Frakkar um, að ríkiseignir sjeu ekki seldar. En háttv. 2. þm. G.-K. vill gefa stj. ótakmarkaða heimild til að afsala ríkiseignum. Að lokum vil jeg benda á, að það gæti haft talsverð áhrif á framgang þessa máls, ef breytingar yrðu samþ. nú. Þá yrði það að fara í sameinað þing, og er þá óvíst um úrslitin. Jeg get sagt, að jeg hefi orðið að sætta mig við brtt., sem jeg tel valda skemdum, til þess að fá málinu framgengt. Og jeg held, að hv. 2. þm. G.-K. geri oft hið sama, svo að hann ætti að sætta sig við tillögu okkar.