03.04.1928
Neðri deild: 64. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3684 í B-deild Alþingistíðinda. (3409)

92. mál, síldarbræðslustöðvar

Frsm. minni hl. (Ólafur Thors):

Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að jeg væri að gera leik að því að tefja umræðurnar með því að tala hjer í klukkustund. Þegar hv. þm. gaf þessa yfirlýsingu, hafði fundurinn staðið í 25 mínútur, og á þessum 25 mín. hafði hæstv. forsrh. talað 4 sinnum. Þetta dæmi er góð lýsing á sannsögli hv. 2. þm. Reykv. En það er ekki altaf eins stærðfræðilega hægt að sanna hans innræti og nú.

Hv. þm. vildi leiða rök að því, að hv. Ed. hefði engan úrskurð felt um aðstöðu sína til þessa deiluefnis. Þetta er rangt. Þar sem hv. Ed. samþykti 2. gr. án brtt., verður að ætla, að deildin vilji hafa 2. gr. eins og hún er. En hvað sem hv, Ed. líður, er það bert, að hv. Nd. er búin að kveða upp sinn ákveðna úrskurð.

Hv. þm. leiddi það inn í umræðurnar, hversu varlega Frakkar færu að um sölu á ríkiseignum. Hann nefndi til dæmis, að það hefir staðið til í ein 2–3 ár, að Reykjavíkurbær keypti lóðarspildu af franska ríkinu. En hv. þm. veit ekki nokkurn skapaðan hlut um þetta annað en það, að ákveðið svar hefir ekki fengist í 2–3 ár. Jeg býst satt að segja við því, að franska stjórnin hafi um annað að hugsa en þessa lóðarspildu hjer í Reykjavík. Jeg sje ekki, að það sje til annars en að lengja umr. að óþörfu að vera að blanda inn í þær alveg óskyldum smáatriðum. Það, sem hjer liggur fyrir, er í fyrsta lagi það, hvort við Nd.-menn viljum láta beygja okkur af jafnaðarmönnum hjer í deildinni. Það eru þeir, sem hafa leitt asnann inn í herbúðirnar. Við þurfum að gera okkur ljóst, hvort það er rjett, að hið sama þing, sem ákveður, að reistar sjeu bræðslustöðvar, setji um leið reglur um sölu bræðslustöðva eða hvort á að láta bíða að setja þær.

Í tilefni af brtt. hv. þm. V.-Ísf. skal jeg geta þess, að eftir að hafa heyrt ræðu hv. þm., get jeg felt mig við brtt. Hann tók ákveðið í strenginn með mjer um starfrækslu ríkissjóðs með þeim hætti, er jeg benti á, og lagði þannig á móti skoðun hv. meiri hl. sjútvn., sem um leið er einkaskoðun hv. frsm. Ef á að reka verksmiðjuna á þann hátt, sem hv. frsm. meiri hl. benti á, er um stórkostlega áhættu að ræða. Hæstv. forsrh. hefir ekki enn gefið yfirlýsingu um það, hvernig hann ætli sjer, að verksmiðjan sje rekin; hvort ríkið eigi að kaupa síldina eða leggja fram fje til nauðsynlegs kostnaðar við starfrækslu þá, er minni hl. stingur upp á.

Aðaláhættan er sú, að vinslumagnið verði ekki nógu mikið. Meðalsíldarafli er liðug 100 þúsund mál, en bræðslustöð eins og sú, sem skýrt er frá í greinargerð hv. 3. landsk., getur unnið úr 120 þús. málum síldar. Jeg vil, að mönnum sje ljóst, í fyrsta lagi það, að aðaláhættan er í því fólgin, að vinslumagnið verði ekki nógu mikið, og í öðru lagi, að þar sem það er sannað, að ekki er ástæða til að ætla, að næstu ára framleiðslumagn verði svo mikið, að það nægi þeim verksmiðjum, sem fyrir eru, er nauðsynlegt, að útgerðarmenn skifti við ríkisverslun fremur en við aðra, og þá er öruggasta leiðin sú, sem jeg benti á, að reka verslunina svo, að útgerðarmenn eigi við sjálfa sig um andvirði aflans.

Jeg man ekki nákvæmlega, hvernig atkvgr. fjell um þetta mál við 3. umr. Jeg var á móti því, en jeg lýsti yfir því, að ef hæstv. forsrh. vildi úrskurða, að hann ætlaðist til, að starfræksla færi fram eins og jeg óskaði eftir, mundi jeg greiða atkv. með málinu. Ef hæstv. ráðh. gerir það, hugsa jeg, að margir íhaldsmenn greiði málinu atkv. sitt, og þá er engin ástæða til að ætla, að málið dagi uppi, og engin áhætta þó það þurfi að fara til sameinaðs þings. Það er bara tylliástæða, sem búin er til til þess að þóknast jafnaðarmönnum.