30.01.1928
Efri deild: 9. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1338 í B-deild Alþingistíðinda. (341)

7. mál, skógar, kjarr og lyng

Jón Þorláksson:

Jeg hefi hjer komið fram með 2 brtt., sem eru á þskj. 57 og eiga við 5. og 6. gr. frv. þess, er hjer liggur fyrir, þar sem heimilað er að veita fje úr ríkissjóði til framkvæmda samkv. tilgangi frv. Brtt. eru til skýringar á því, að þessi kostnaður skuli greiddur af skógræktarfje. Jeg lít nú ekki svo á, að þessar brtt. geri neina efnisbreytingu á frv., því jeg geri ekki ráð fyrir því, að það sje ætlunin, að frv. meini þetta öðruvísi, enda þótt orðalagið gefi tilefni til að skilja það svo, að í því felist heimild um sjálfstæða greiðslu úr ríkissjóði. En sje það ekki meiningin, eins og mjer skildist á hv. frsm. (EÁ), þá er rjett að setja það skýrt fram. Og sjerstaklega er ástæða til þess, ef fjárveitingum til skógræktarinnar verður ráðið á annan hátt, t. d. þann, að Búnaðarfjelagi Íslands yrði fengið það til meðferðar, þá veitir frv. þetta, er að lögum verður, sjálfstæða heimild um greiðslu úr ríkissjóði.

Viðvíkjandi formi á þessum brtt., þá vil jeg mælast til þess við hæstv. forseta, að hann beri síðari brtt. mína upp sem brtt. við brtt. nefndarinnar á þskj. 54, 2. lið við 6. gr. frv. Jeg geri sem sagt ráð fyrir því, að brtt. nefndarinnar verði samþ., og þá á mín brtt. að falla inn í hana.

Það er þá ekki fleira, sem jeg þarf að taka fram viðvíkjandi þessum brtt., en mun þó, áður en jeg sest, víkja nokkrum orðum að frv. í heild sinni. Er það einkum tvent, sem mjer þykir athugavert. Í 6. gr. frv. er ákveðið framlag ríkissjóðs; skal það vera girðingarefni, komið á næstu höfn, og verkstjórn við uppsetningu, hvorki meira nje minna. Mjer þykir nokkuð óheppilegt að einskorða þetta svo, því stundum gæti það komið fyrir, að ríkissjóður kæmist af með minna framlag en þetta, er svo stendur á. Mjer þætti heppilegra að tiltaka aðeins hámark framlagsins, og vildi skjóta því til hv. nefndar, hvort hún teldi fært að laga þetta með innskoti í frv. Þá er það og svo með verkstjórann, að óþægilegt getur verið að útvega hann, þegar enginn maður, sem skógræktin hefir í þjónustu sinni, er nálægt, en um smáar girðingar er að ræða. Gæti þá orðið óþarfa kostnaður að útvega mann, enda oft um hæfa menn að ræða á staðnum. Álít jeg því heppilegra, þegar um smærri girðingar er að ræða, að heimilt sje að fela hlutaðeigandi mönnum að koma þeim upp, en taka þær síðan út. Gætu starfsmenn Skógræktarinnar gert það, er þeir ættu næst leið um það svæði. Í sambandi við 8. gr. frv. má geta þess, að þó samningarnir um hin girtu svæði sjeu að vísu þinglýstir, þá er hegningin, ef samningur er brotinn, sú, að skógræktarstjóri getur, að fengnu samþykki atvinnumálaráðuneytisins, tekið girðinguna burt á kostnað notanda eða eiganda. — Mjer þykir óviðfeldið, þegar ríkissjóður leggur til fje á þennan hátt, að hafa engin bein viðurlög. Að girðingin sje tekin burtu, er að vísu hugsanlegt. En það gæti nú líka farið svo, að henni yrði lofað að standa og ganga úr sjer, þar sem hún er.

Þá þykir mjer ákvæði frv. um það atriði, hversu mikla beit megi leyfa á hinum afgirtu svæðum, nokkuð rúmt. Friðunin er þó óneitanlega höfuðatriði Skógræktarinnar. Skógræktarstjóra er samkv. frv. heimilt að leyfa beit kúa og sauðfjár frá 20. júní til 1. október. Jeg skal að vísu játa það, að þar sem mikill skógur er fyrir, þá mundi það ekki saka, þó nokkuð væri beitt. En þar sem skóglaust land er tekið til ræktunar, þá er það gefið, að ekkert verður úr skógrækt, ef beit er leyfð. Nú eru það stór svæði af landinu, jafnvel heilar sýslur, og þær ekki svo fáar, sem enginn skógur er. En nú má ætla, að margur vildi fá girta afmælda landspildu, sem þá gæti verið þægilegt að hafa búfje í, t. d. að taka upp fráfærur og hafa ærnar í girðingunni yfir sumarið. En það þarf enginn að segja mjer, að þar geti vaxið upp nýr skógur, sem sauðfje er beitt.

Þá tel jeg það ósamræmi í frv., að þótt Skógræktarstjóri vilji ekki leyfa beit á hinu afgirta svæði lengur en til 1. október, þá getur þó skógarvörður leyft beitina lengur, eða til 1. nóvember. Það er óviðkunnanlegt, að undirmaður geti á þennan hátt tekið ráðin af yfirmanni sínum. — Jeg vil ekki rengja hv. nefnd um, að skógræktarstjóri hafi talið heppilegt að hafa frv. þetta eins og það er, en mjer finst vart hafa kent nægs skilnings á því, hvernig það ætti að vera og hvað þarf að gera. Enda hefir farið svo, að margt af því hefir mistekist, sem gert hefir verið um hans daga. — Þar sem þetta er mikilsvert mál vegna framtíðarinnar, þá hefir mjer þótt rjett að gera þessar aths. um þau atriði frv., þar sem mjer finst kenna alt of mikils linleika í ákvæðum þess og votts um of lina hugsun hjá forstöðumönnum þessa máls.