03.04.1928
Neðri deild: 64. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3704 í B-deild Alþingistíðinda. (3420)

92. mál, síldarbræðslustöðvar

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Það er aðeins örstutt kvittun til hv. þm. Dal. Hann gaf svo ákaflega skáldlega og heimspekilega lýsingu á afstöðu stj. til jafnaðarmanna, hvernig stj. hrykki við, þegar jafnaðarmenn hrukkuðu nefið, að jeg fór að athuga, hvort ekki væri alveg sjerstök ástæða til þess, að hann lýsti þessu svo nákvæmlega. Jú, jeg fann, að það var oftar en í þessi 3 skifti, sem jeg gat um áðan, að hv. þm. Dal. hafði orðið að knjekrjúpa fyrir jafnaðarmönnum. Þegar hann myndaði stj. 1922, þá kom hann á fjórum fótum til fulltrúa jafnaðarmanna hjer á Alþingi og bað hann um stuðning. (SE: Jeg man ekkert eftir þessu; jeg held, að hann hafi aldrei stutt mig). Hv. þm. bað um þetta skriflegt, og jeg veit, jeg má fullyrða að hann hafi fengið það skriflegt. Jeg hefi í sjálfu sjer ekkert að athuga við þetta, en hv. þm. Dal. hefir víst verið afskaplega ófús að taka við þessum stuðningi 1922. (SE: Jeg fjekk hann aldrei). Það er hægt að sýna það svart á hvítu, að hann fjekk hann.

Hv. þm. Dal. var að áminna okkur um að veita hinum litla frjálslynda flokki athygli. En jeg vil einungis beina þessu til hans: Hann á sjálfur að athuga, hvað flokkur hans er orðinn lítill: Hv. þm. var fyrir nokkrum árum í stærsta flokki þingsins, en nú stendur hann hjer einn eins og ýlustrá á eyðimörku. Hv. þm. þarf að athuga, af hverju þjóðin hefir snúið baki við honum. Hann þarf sjálfur allra manna helst að athuga sinn litla flokk.