03.04.1928
Neðri deild: 64. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3705 í B-deild Alþingistíðinda. (3421)

92. mál, síldarbræðslustöðvar

Fjmrh. (Magnús Kristjánsson):

Vegna þess að jeg tel þetta mál eitthvert allra merkasta málið, sem fyrir þinginu liggur, þá get jeg ekki neitað því, að mjer fellur illa það alvöruleysi, sem hefir komið fram hjá sumum hv. þm. í því. Jeg skal ekki nafngreina þessa hv. þm. að svo komnu, en jeg sje ekki betur en að margar tilraunir hafi verið gerðar til þess að tefja málið og spilla fyrir því. Mjer sýnist, að ef þessir hv. þm. hefðu haft áhuga á því að bæta frv., þá hefðu þeir átt að koma fram með till. sínar fyr. En það stendur nú svo einkennilega á, að það verður að samþykkja þetta frv. í dag, ef það á að koma að verulegu haldi.

Mjer finst það einkennilegt hjá hv. þm. Dal. og öðrum, sem altaf eru að reyna að gera þetta mál tortryggilegt og reyna að koma því inn hjá bændum með lævíslegum dylgjum, að með því sje verið að svíkjast að bændastjettinni. Jeg skil ekki, á hverju þetta er bygt. Og jeg treysti því, að bændur alstaðar á landinu sjeu svo víðsýnir, að þeir sjái, að það verður að sinna öðru en eingöngu þeirra málum. Jeg veit, að þeir eru svo víðsýnir, að þeir sjá, að það verður að sinna fleirum atvinnuvegum en landbúnaðinum einum. Og það leit líka út fyrir það fyrst á þessu þingi, að hv. þm. hefðu fullan skilning á þessu máli. En nú koma fram raddir frá hv. þm. Dal., hv. 2. þm. Skagf., hv. 2. þm. G.-K. og fleirum, sem allar ganga í þá átt að reyna að drepa þetta einna merkasta mál, sem fyrir þinginu liggur.

Jeg skal nú ekki leiða neinum getum að því, hvort bak við þessa andstöðu liggja sjerstakar ástæður, eins og þær, að frv. brjóti bág við hagsmuni sjerstakra manna eða stofnana, en jeg áliti það mjög afsakanlegt, þótt mönnum hvarflaði slíkt í hug.

Vegna þess að hjer er um að ræða þetta nauðsynjamál, þá held jeg, að jeg verði að fara ofurlítið út í ummæli hv. þm. Dal., og það því fremur, sem þessi hv. þm. hefir um langan tíma reynt að gera sig stóran sem hinn eina frjálslynda mann í þessu landi.

Jeg held helst, að hv. þm. vilji engar lagasetningar atvinnuvegunum til hagsbóta; að minsta, kosti vill hann enga skerðingu á einstaklingsframtakinu nje að nokkur atvinnugrein sje rekin með ríkisrekstri. Þetta hefir hann talið hið mesta ódæði og verið með ýmsar dylgjur í garð þeirra manna, sem hafa talið það hagkvæmt. Sama skoðunin kemur fram í þessu máli, þar sem hann gortar að vanda af frjálslyndi og víðfaðma skilningi á málunum. Allir vita, að þetta er ekki annað en hinn argvítugasti leikaraskapur. Svo ógnar hann með flokki sínum, sem hann ætlar að knjesetja með alla flokka, sem nú eru í landinu, og þá, sem á eftir kunna að koma. Þetta ætlar hann einn að gera, — því flokkurinn er hann sjálfur, og annað ekki.

Það væri efni í langa ræðu, að lýsa ferli þessa hv. þm. Jeg skal nefna eitt dæmi af mörgum um þjóðhollustu hans og landsföðurlega umhyggju.

Þegar lá fyrir þinginu frv. um, að ríkið tæki að sjer eldsvoðatryggingar að nokkru leyti, tókst hv. þm. Dal. og fleiri „frjálslyndum“ að setja þann fleyg í. frv., að fjelagið mætti ekki taka til starfa fyr en trygt væri, að útlend fjelög tækju ábyrgð á því að nokkru leyti. Jeg var þegar á móti þessu ákvæði, enda varð afleiðingin af því sú, að málið dróst á langinn í nokkur ár, uns jeg tók það upp aftur, og þá var gengið framhjá erlendu fjelögunum. Þá barðist hv. þm. Dal. með hnúum og hnefum gegn þessu sjálfstæðismáli. En þegar erlendu vátryggingarfjelögin sáu alvöru í athöfnum okkar, slógu þau af kröfum sínum og gerðust þjálli viðskiftis en áður.

Hjer stendur líkt á og þá. Þetta frv. er borið fram gegn útlendingum, sem hafa sýnt okkur lítilsvirðingu og fjeflett okkur á ýmsar lundir. Þegar þessu er hreyft, ræðst þessi flokksforingi, eða sjálfsforingi, því að hann er nú ekki nema einn í flokknum (ÓTh: sá, sem stjórnar sjálfum sjer, stjórnar miklu.), gegn þessu með hinum mestu býsnum, eins og verið væri að fremja eitthvert ódæðisverk.

Við 3. umr. í Ed. lýsti jeg nauðsyn þessa máls og heillavænlegum afleiðingum þess, ef það kæmist í framkvæmd, og þarf jeg ekki að endurtaka það. En jeg skora á hv. þdm. að láta sig ekki henda það að fara nú að koma fram með brtt. við frv., til að tefja fyrir því, eða eyðileggja það máske alveg. Jeg virði það við hv. þm. V.-Ísf., að hann hefir sjeð, hvað hlotist gæti af því að vera nú að koma með brtt., og hefir því tekið till. sína aftur. En hv. 2. þm. Skagf. hefir einhvernveginn fundið sig knúðan til að taka þessa till. upp, þótt jeg geti ekki skilið, að honum setti að vera hún neitt sjerstakt áhugamál. Manni gæti legið við að draga þá ályktun af ummælum hans, að hann væri einlægur samvinnumaður. Það er rjett, að hann var samvinnumaður í orði kveðnu fyrst, þegar hann komst á þing, en það hefir rokið svo af honum síðan, að jeg held, að hann verði ekki talinn samvinnumaður nema svona í meðallagi. (MG: Það sjest á atkvgr., hverjir eru samvinnumenn). Annars get jeg ekki skilið, að háttv. þm. geti fengið kröfu sinni framgengt, því að hún stríðir á móti þingsköpunum, en þótt svo færi, að afbrigði yrðu leyfð, þykist jeg vita, að ekki sje hætta á, að till. hans verði samþ. Hún virðist vera tekin upp í þeim tilgangi einum að tefja málið, eða jafnvel að fella það, og því mætti hún að skaðlausu eiga sjer skamman aldur.

Hv. 2. þm. Skagf. var að tala um hina ægilega háu fjárhæð, sem stjórninni væri heimilað að taka að láni til að reisa bræðslustöðina. Jeg skil varla í, að hv. þm. hafi meint þetta alvarlega. Þessu fje er ekki á glæ kastað, og það hefir ætíð þótt búmannlegt að leggja fje í fyrirtæki, sem gefa góðan arð beinlínis eða óbeinlínis. Mjer finst ekki sitja á hv. 2. þm. Skagf. að láta sjer vaxa í augum, þótt þessu fje sje varið til stýrktar öðrum aðalatvinnuvegi landsmanna, sem að minsta kosti gefur þó mestar tekjur í ríkissjóð, og því meiri, sem betur er að honum hlynt. Fyrst er að sá og svo er að uppskera, og uppskeran getur orðið mikil, ef þetta er gert. Þetta þing hefir veitt mikið fje landbúnaðinum til eflingar og viðreisnar. Það er ekki vert að fara út í jöfnuð um það, hvað veitt hefir verið til hvors atvinnuvegar fyrir sig, en ef það yrði gert, hygg jeg, að hv. 2. þm. Skagf. stæði ekki betur að vígi.

Þessi mótspyrna hans hefir því ekki við rök að styðjast. Það hlýtur að vera jafnsjálfsagt að styðja sjávarútveg og landbúnað, þegar þess er þörf. Þetta er sá mesti og besti stuðningur, sem hægt er að veita honum, eins og nú er ástatt, og á því veltur mikið, hvort nokkuð er hægt að gera fyrir þessa sjerstöku grein sjávarútvegsins.