03.04.1928
Neðri deild: 64. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3717 í B-deild Alþingistíðinda. (3424)

92. mál, síldarbræðslustöðvar

Jón Sigurðsson:

Jeg þarf að svara lítilsháttar þeim hv. þm., sem vikið hafa að því, sem jeg sagði. Jeg gerði þá í ræðu minni grein fyrir því meðal annars, hvers vegna jeg tæki upp þá till., sem um hefir verið deilt nú, og sje ekki ástæðu til að endurtaka það. Annars var það auðheyrt á hv. þm. V.-Ísf., að honum var ekki ljúft að hverfa frá sinni eigin till., eftir að hann hafði lýst svo ágætlega fyrir hv. deild mikilvægi hennar. Jeg skil líka aðstöðu hans; þó að hann sje ekki. venjulega eitt af hlýðnustu börnum hæstv. stjórnar, hefir hann samt viljað vera góða barnið í þetta skifti.

Um það, sem hæstv. forsrh. ljet um mælt, skal jeg aðeins geta þess, að jeg veit ekki betur en það sje samkv. þeirri venju, sem hefir átt sjer stað bæði viðvíkjandi fjárlögum og öðrum frv., að nægilegt sje að taka till. upp á undan atkvgr. (Forsrh. TrÞ: Jeg neita því alls ekki). Í fjárlögum er oft lýst yfir af hinum og þessum, að hann taki upp till. í atkvgr.

Hæstv. fjmrh. virðist hafa fylst mikilli gremju yfir þessum fáu orðum, sem jeg sagði; og sjerstaklega var honum illa við þann samanburð á framlagi hæstv. stjórnar og stjórnarliðs til landbúnaðarmála og til síldarmála á hina hlið. Hann færði það helst til, að því fje væri ekki á glæ kastað. Jeg geri nú heldur ekki ráð fyrir, að fjenu, sem varið verður til síldarverksmiðju, sje á glæ kastað, en hinu vil jeg halda fram, að það sjeu mörg og mikil verkefni óleyst, sem eru miklum mun meira aðkallandi heldur en bygging síldarverksmiðju.

Í þessu sambandi er vert að minna á það, að hæstv. stjórn hefir nú í raun og veru tekið upp alveg nýja stefnu. Á undanförnum árum hafa atvinnuvegir — Sjerstaklega landbúnaður — verið studdir á ýmsa lund, og þeirri meginstefnu ætíð fylgt að styðja sjálfa atvinnurekendurna til framkvæmda. Þeim hafa ýmist verið veittir styrkir eða lán. Í því efni má benda á frystihúsin; þar eru það fjelög bænda, sem er veitt lán; og jeg get nefnt mörg önnur fyrirtæki, sem ríkissjóður hefir á eina eða aðra lund stutt til að koma fyrir sig fótunum.

Hjer er aftur á móti öðru máli að gegna. Það á ekki að fara að veita atvinnurekendum stuðning, þegar þeir hafa myndað með sjer fjelagsskap; nei, heldur er farin sú leið, að ríkið byggi sjálft þetta fyrirtæki, og ekki nóg með það, heldur reki það líka. Jeg held, að hæstv. ráðh. þurfi sannarlega ekki að undra sig á því, þótt slíkri nýbreytni sje ekki tekið tveim höndum, — og það því fremur, sem umsögn forystumannanna er svo ósamhljóða um það, hvernig öllu skuli hagað, að það er næstum eins ólíkt sem hvítt og svart. Fyrir nokkrum dögum var jeg staddur uppi í hv. Ed., er hæstv. dómsmrh. sagði meðal annars í ræðu, að það ætti eftir sinni skoðun að reka verksmiðjuna sem gróðafyrirtæki fyrir ríkissjóð. En ef það mishepnast, þá mætti selja hana einhverjum gróðamanni. Jeg vil nú leggja það undir dóm hv. deildar, hversu líklegt væri, að gróðamenn myndu kaupa, eftir að ríkið væri búið að stórskaðast, t. d. um nokkur hundruð þúsund, á verksmiðjurekstrinum. Hjer kemur fram sama stefnan og hjá frsm. meiri hl., hv. 4. þm. Reykv., sem þó hefir verið mótmælt af ýmsum síðan, að ríkið eigi að reka þetta sem áhættufyrirtæki, — taki þá vitanlega gróðann, en líka skakkaföllin, þegar þau verða. Eru því sósíalistar og dómsmrh. alveg sammála, sem vænta mátti. — Um hæstv. forsrh. er það að segja, að ekkert ákveðið hefir verið hægt að toga út úr honum, hverja leið hann vildi fara; þó hefir mjer skilist hann vilja halla sjer yfir á samvinnugrundvöll, en því hefir hann lýst ótvírætt yfir, að hann teldi þetta stórfelt áhættufyrirtæki, en samt fylgir hann því af kappi.

Hv. þm. V.-Ísf. hefir aftur á móti tekið skýrt og greinilega fram sína aðstöðu í þessu máli. Það er sú aðstaða, sem jeg felli mig langbest við. En þegar alt er svona í pottinn búið, og þegar helstu forráðamönnum stjórnarflokkanna ber ekki saman um nokkurn skapaðan hlut, hvernig fyrirkomulagi skuli háttað, þá vaknar sú spurning: Hvað verður ofan á? Samkvæmt fenginni reynslu er jeg sannfærður um, að það verður ofan á, er verst gegnir, till. sósíalista og dómsmrh. Það er því ekki furða, þó að menn fari að verða meir en smeykir við þetta fyrirtæki. En fyrst því fæst ekki framgengt, að verksmiðjan verði fjelagsfyrirtæki, eins og minni hl. lagði til, þá má þó ekki minna vera undir slíkum kringumstæðum en að hv. deild láti alveg ótvírætt í ljós þann vilja sinn, að fyrirtækið verði sem allra fyrst fjelagseign og fært yfir á samvinnugrundvöll. Og háttv. deild sýnir best þann vilja með því einmitt að samþ. till. hv. þm. V.-Ísf. í þessu máli.

Jeg skal svo ekki fara út í fleira að sinni, þó að ræða hæstv. fjmrh. gæfi raunar tilefni til að segja ýmislegt. Mjer skildist hann jafnvel telja eftir styrkinn til landbúnaðarins, en framhjá því get jeg gengið. — En það var eitt atriði í ræðu hans, sem jeg get ekki gengið framhjá, en það voru dylgjur hans til mín um það, að jeg væri verri samvinnumaður en jeg hefi verið. Mjer er ekki kunnugt um, að nokkur breyting sje á því orðin; og ef hæstv. ráðh. getur ekki fært nein rök fyrir þessu, þá verð jeg að skoða það sem hvert annað rakalaust slúður, sem flutt er hjer í hv. deild. (Forseti hringir).