03.04.1928
Neðri deild: 64. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3720 í B-deild Alþingistíðinda. (3425)

92. mál, síldarbræðslustöðvar

Sigurður Eggerz:

Það er aðeins stutt aths. til þess að bera af mjer sakir. Hæstv. forsrh. sagði, að ástæða væri fyrir mig að athuga það, að jeg hefði verið einu sinni í fjölmennum flokki, en stæði nú í mjög litlum flokki. — Hæstv. ráðh. er nú vel kunnugt um það, hvernig flokkar riðluðust eftir að sambandslögin voru samþ. En út af þessum orðum hæstv. ráðh. langar mig að taka það aðeins fram, að mjer skilst það aðalatriðið fyrir hvern stjórnmálamann, að hann standi í þeim flokki, sem heldur fram þeim málum, sem hann trúir, að sjeu rjett og góð. En jeg fæ ekki sjeð, að það út af fyrir sig stækki neinn mann, að hann sje í fjölmennum flokki, ef sá fjölmenni flokkur stendur fyrir þeim málum, sem óheppileg eru fyrir þjóðina. Og það vill oft verða svo, þegar sagan fer að fella sinn dóm um stjórnmálamenn, þá er það vanalega þeirra eigin framkoma, en flokkarnir gleymast frekar. Jeg ætla ekki að fara nú að gera samanburð á þeim litla flokki sem jeg er í, og þeim stóra flokki hæstv. forsrh., en jeg veit, að dómur sögunnar úrskurðar stefnuskrá þess flokksins, sem minni er að vöxtum, ekki síðri en stefnuskrá flokks hæstv. ráðh.

Eitt verð jeg að leiðrjetta. Jeg tók fram í fyrir hæstv. forsrh., þegar hann talaði um, að Jón Baldvinsson hefði veitt mjer hlutleysi. Jeg mótmælti þessu; en nú hefir þessi hv. þm. sagt mjer, að hann hafi 1922 lofað mjer hlutleysi. En hvernig í ósköpunum átti jeg að muna þetta; því að jeg veit ekki annað en að sá hv, þm. hafi jafnan verið í andstöðu við mig. Og það er víst, að hann hafði ekki nokkur minstu áhrif á stjórnina; hún þurfti ekkert til hans að sækja. Og það er aðalatriðið.

Um aðstöðu hæstv. forsrh. til jafnaðarmanna nú er öðru máli að gegna, þar sem hann má til að fara mikið eftir því, sem þeir heimta. Jeg fór ekki eftir því, heldur aðallega eftir því, sem jeg og minn litli flokkur áleit rjettast vera.

Annars þýðir ógnarlítið, þó að jeg fari að tala um aðstöðu jafnaðarmanna til mín. En þegar skorað var á mig að gefa kost á mjer við borgarstjórakosningar, voru það ekki einungis jafnaðarmenn, sem studdu mig, heldur menn úr öllum flokkum. Enda sýndi kosningin þetta, þar sem litlu munaði, að jeg yrði kosinn. En þó að það komi auðvitað ekki þessu máli við, get jeg ekki stilt mig um að segja það, að jeg hefi aldrei orðið yfir neinu eins glaður og því, að jeg hlaut ekki kosningu.

Þá voru það nokkur orð til hæstv. fjmrh.; mjer skildist eins og hann væri að bregða okkur, er staðið höfum öndverðir máli þessu, um alvöruleysi. Jeg veit að vísu, að það er ekki hægt að hindra hæstv. fjmrh. í að nota þau orð í ræðum sínum, er hann vill viðhafa, en mín aðstaða til málsins byggist ekki á alvöruleysi, heldur á hreinni og beinni alvöru. Hvaða ánægju ætti jeg að hafa af því að hefja andstöðu gegn hæstv. stj. i þessu máli? Mótmæli mín eru bygð á þeim rökum, sem jeg hefi aflað mjer í málinu. Og eftir allri minni aðstöðu til frjálsrar verslunar hefi jeg staðið mjög undrandi í þessu máli og vil því láta mjer nægja nú að vísa til þess, sem jeg hefi áður sagt.

Hæstv. fjmrh. vildi gefa í skyn, að hagsmunir þeirrar stofnunar, sem jeg er ráðandi í, rjeðu aðstöðu minni til þessa máls. En jeg fæ ekki sjeð, að þessi verksmiðja verði hættulegur keppinautur þeirrar verksmiðju, sem Íslandsbanki hefir komið á fót. Þessa nýju verksmiðju á að stofna á Norðurlandi, en hin er á Vesturlandi, og því ekkert til fyrirstöðu, að þær starfi samtímis. Annars skal jeg taka fram, að mjer hefir aldrei dottið í hug að bera neinum hv. þm. það á brýn, að þeir af slíkum ástæðum taki afstöðu til mála. Og því síður er ástæða fyrir hæstv. fjmrh. að drótta þessu að mjer nú, þar sem afstaða mín er í fullu samræmi við þá skoðun, sem jeg hefi jafnan haldið fram síðan jeg kom á þing. Hæstv. ráðh. sagði, að jeg væri jafnan að stæra mig af því, að jeg væri frjálslyndur. Jeg man nú ekki eftir, að jeg hafi sjerstaklega gert það, en hitt get jeg sagt, að jeg gleðst yfir því að geta talið mig í hópi frjálslyndra manna. Hann sagði líka, að það væri broslegt, að jeg þættist vilja knjesetja alt og alla. Mjer finst nú dálítið skrítið, að sá litli flokkur, sem jeg stend í hjer á þingi, ætti að geta knjesett alla aðra flokka. (HStef: Það fanst okkur nú!). En þessar tilfinningar eru mjög skiljanlegar, af því að þau mál, sem frjálslyndi flokkurinn berst fyrir, finna bergmál í hjörtum þjóðarinnar, og þau rök, sem hann notar, koma óþægilega við í bili og láta illa í eyrum þeirra manna, sem bundnir eru á klafa stærri flokkanna.

Þá kom hæstv. fjmrh. að aðstöðu minni til Brunabótafjelags Íslands. Jeg var nú satt að segja búinn að gleyma því, en jeg sje, að jeg hefi hjer í hv. deild á þinginu 1915 borið fram rökst. dagskrá í málinu, sem jeg ætla þá, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp, og er hún á þessa leið:

„Í trausti til þess, að stjórnin útvegi sjer sjerfróða aðstoð til að íhuga skilyrði fyrir innlendri ábyrgðarstarfsemi. þar á meðal brunabótastarfsemi, og leggi frumvarp þar að lútandi fyrir næsta Alþingi, ef fært verður, þá tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá“.

Jeg sje satt að segja ekki að jeg þurfi að bera neinn kinnroða fyrir þessa dagskrártill. Jeg vildi að framkvæmd yrði rannsókn áður en þessi innlenda ábyrgðarstofnun yrði sett á stofn. Jeg vildi fá endurtryggingu, en að ríkissjóður væri laus við ábyrgðina. Og það er alveg sami rauði þráðurinn, sem vakir fyrir mjer enn, að jeg vil ekki draga ríkissjóð inn í nein áhættufyrirtæki. Og ef það þykir nauðsynlegt að ráðast á mig úr öllum áttum fyrir þetta, þá er með því verið að reisa nýja öldu, sem ræðst á þá skoðun, er ríkjandi hefir verið áður, bæði hjá þjóðinni og Alþingi: að halda ríkissjóði utan við alla áhættu atvinnuveganna. Það hefir verið það boðorð, sem allir stjórnmálamenn hafa talið sig fylgja, og mjer er nær að halda, að það hefðu ekki verið ýkjamargir þm., sem náð hefðu kosningu, ef þeir hefðu á framboðsfundum sínum lýst sig andvíga þessu boðorði.

Hæstv. fjmrh. vildi fara að tala um minn stjórnmálaferil. Hann um það; jeg ætla ekki að tala um hann, en jeg gleðst yfir því, sem jeg hefi lagt til þeirra mála. Mjer finst það hálfbroslegt, þegar hann er að gefa í skyn, að leg hafi ekki staðið gegn ágangi útlendinga. Jeg vil vísa í alla aðstöðu mína í slíkum málum og læt hana tala. (Fjmrh. MK: Bara í orði). Já, það er nú svona um hæstv. fjmrh., að þegar hann er kominn út í deilu, þá gætir hann sín ekki og grípur þá til þess í einhverju röksemdaþroti að gera lítið úr andstæðingum sínum. Hann var að tala um mig sem flokksforingja. Jeg minnist þess ekki, að jeg hafi nokkru sinni talað um það hjer, að jeg væri flokksforingi. En allur sá stormur, sem reistur hefir verið gegn mjer og mínum litla flokki af báðum flokkum hæstv. stj., sýnir betur en nokkuð annað, að þeir eru hræddir við frjálslyndu stefnuna, vegna þess að þau mál, sem sá flokkur berst fyrir, eru mál þjóðarinnar, og þau munu finna bergmál hjá henni áður en hina varir. — Jeg sje að hæstv. fjmrh. brosir. Það er hægt að hlæja, á meðan hæstv. ráðh. stendur í skjóli meiri hlutans. En það koma aðrir tímar og nýjar kosningar eftir fáein ár, og er ekki ósennilegt, að þá geti brosið farið af hæstv. fjmrh. Þess eru dæmin, að stórir flokkar hafa fallið og þeir, sem byrjuðu smáir, orðið sterkir. Enda hefir það sjaldnast reynst sigurvænlegt til lengdar fyrir hvaða meiri hl. sem er að nota vald sitt til að kveða niður öll rök, hversu góð og rjettmæt sem þau eru, aðeins af þeim ástæðum, að þau eru fram borin af mönnum úr andstöðuflokki stjórnarinnar.

Jeg get þá lokið þessari aths., sem hæstv. forseti hefir leyft mjer að gera, en vil þá enda mál mitt með því að segja, að jeg er alveg viss um, að ýms ógætni þessa þings í ýmsum fjármálum er þegar farin að vekja eftirtekt hjá þjóðinni.

Jeg veit ekki, hvort jeg mætti spyrja hæstv. fjmrh., áður en jeg sest niður, einnar spurningar, en hún er sú, hvort það sje rjett, að fjelag það, sem verið er að stofna í Norðurlandi, eigi að fá 350 þús. kr. Þetta hefir flogið niður núna síðustu dagana, en hæstv. ráðh. er vitanlega sjálfráður, hvort hann svarar þessari fyrirspurn eða ekki. En um hitt get jeg fullvissað hæstv. fjmrh., að það er í fullri alvöru og með góðri samvisku, að jeg greiði atkv. móti því að flækja ríkissjóði inn í áhættufyrirtæki.