03.04.1928
Neðri deild: 64. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3727 í B-deild Alþingistíðinda. (3427)

92. mál, síldarbræðslustöðvar

Héðinn Valdimarsson:

Mjer finst það sitja síst á hv. þm. Dal. að vera að sneiða hæstv. stj. fyrir þá samvinnu. sem hún hefir haft við okkur jafnaðarmenn. (SE: O, Sei-sei!). Enginn hefir lengra gengið en hann í því að flaðra upp við jafnaðarmenn og sníkja eftir stuðningi þeirra, eins og jeg er margbúinn að sýna honum fram á með rökum, sem hann getur ekki hrakið. Nú skal jeg til viðbótar því, sem jeg hefi áður sagt, minna hann á, að það var hann sjálfur, sem kom til Jakobs Möllers og hv. 5. landsk. og bað um hlutleysi þeirra, svo að hann gæti komið til mála við útnefningu ráðherra. Og þetta hreif. Hann varð ráðherra. Og það reið á þessum tveim þm. Nú segir hann þetta einskis virði; hann hafi aldrei þurft á stuðningi jafnaðarmanna að halda og þeir yfirleitt veitst á móti sjer í öllum málum. En það þarf ekki annað en að lesa Alþt. frá þeim tíma, og þar sjest, að hv. þm. Dal. fór eftir till. jafnaðarmanna í einhverju því mesta hitamáli. sem þá var uppi í landinu. (SE: Þetta eru tilhæfulaus ósannindi). Jeg ætla ekki að yrðast frekar við þennan hv. þm. Það er búið að reka svo oft ofan í hann þann ósannindavaðal, er hann hefir verið að slá um sig með, enda, eru svo mörg vitni að því, hvernig hann hefir kropið á knjánum fyrir jafnaðarmönnum, ýmist að biðja um stuðning þeirra eða hlutleysi. (SE (slær í borðið): Stutt aths. til þess að bera af mjer sakir). Hv. þm. fær eflaust leyfi til þess að bera af sjer sakir, en hann getur ekki hrakið neitt af því sem jeg hefi sagt.

Að endingu vil jeg aðeins benda á það, að ef þessi brtt. verður samþ., eru miklar líkur til, að frv. verði að fara í Sþ. En eftir þingsköpunum þarf 2/3 þingheims til þess að samþ. frv., svo að með þessu getur frv. verið stofnað í hættu. Því að eftir annari framkomu hv. íhaldsmanna og undirtektum þeirra í þessu máli má búast við, að þeir greiði atkv. á móti frv. í Sþ., og er það þá þar með fallið.