03.04.1928
Neðri deild: 64. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3729 í B-deild Alþingistíðinda. (3428)

92. mál, síldarbræðslustöðvar

Jón Auðunn Jónsson:

Það má ofbjóða svo þolinmæði okkar þdm., að við getum ekki setið lengur þegjandi og hlustað. Hæstv. forsrh. hefir með þessum froðuummælum sínum orðið þess valdandi, að jeg get ekki setið lengur og tel ekki sætt, þegar hann leyfir sjer að leggja heilagt nafn, eins og sjálfstæði landsins er, við hjegóma. Því hvaða sjálfstæðismál er það, hvort ríkið kaupir áburð af þýskum verksmiðjum eða einstökum mönnum eða firmum, þegar söluverðið er hið sama hjá þeim öllum?

Þá talaði ráðherrann um strandferðir okkar og taldi þær sjálfstæðismál. Það væri vitanlega æskilegt og gott, ef við gætum fjölgað. Strandferðaskipum, en það hefir enn ekki verið hægt vegna fjárhagsörðugleika ríkisins. Ef hæstv. forsrh. meinti nokkuð með þessu sjálfstæðisglamri sínu, þá hefði hann hallast að mínum till. í strandferðamálinu. Því vissulega verðum við að sjá fjárhagslegu sjálfstæði ríkisins borgið í hvívetna, því á því grundvallast hið stjórnarfarslega sjálfstæði.

Annars vil jeg minna hæstv. forsrh. á, að aldrei hefir úr því sæti, sem hann nú skipar, að allra dómi, verið eins lítið lagt til málanna hjer á þingi eins og einmitt nú. Fyrirspurnum svarar ráðh. nálega altaf með sömu orðum: „Veit það ekki, hefi ekki athugað það“.